Heimsins verðugasta markmið – Glaðasti bær á Íslandi

Í litlum bæ á suðausturhorni landsins er að finna fólk með háleitar hugmyndir um framtíðina, metnað til að gera betur, kjark til að fara ótroðnar slóðir og þor til að láta reyna á öðruvísi lífsstíl.

Í Djúpavogshreppi búa tæplega 500 manns, flestir þeirra í þorpinu sem skagar út í sjó á milli Hamarsfjarðar til suðurs og Berufjarðar til norðurs. Inn af landi rís Búlandstindur eins og fullkominn píramídi upp úr sjónum og trónir yfir bænum.

Landslagið í kringum Djúpavog er vissulega dramatískt en hugur fólks á þessum slóðum beinist í aðra átt, í átt að gleðinni. Hér er léttlyndi kostur og framsækni helsta vogaraflið. Djúpivogur, eins og flest smærri byggðarlög á Íslandi, hefur alla tíð reitt sig á sjávarútveg, útgerð og fiskvinnslu, en þótt að þessi aðalatvinnuvegur íbúa hafi mátt þola reiðarhögg á síðustu árum deyja íbúarnir ekki ráðalausir. Hér hefur samfélagið sótt fram með sérstöðu sína að vopni og látið reyna á nýsköpun og annars konar hugmyndafræði en þá sem líklega er ráðandi á flestum stöðum á Íslandi.

Hugmyndafræðin byggir á hæglætishreyfingunni Cittaslow en Djúpivogur fékk Cittaslow-vottun árið 2013 og hefur unnið markvisst að því að innleiða þessa stefnu á sem flestum sviðum. Þjónustuaðilar á svæðinu reyna að nýta sem best hráefni úr heimabyggð, umhverfisvernd, -fegrun og virðing er í hávegum höfð og nýsköpun og fjölbreytni fær framgang og stuðning úr samfélaginu.

Þessa dagana er meðal annars unnið að því að koma afurðum úr heimabyggð í verslunina á staðnum svo ferðamenn get bragðað mat úr heimabyggð. Gestir eiga þá vonandi eftir að geta keypt sér nýveidda ýsu, grænmetispulsur, sinnepssíld og fyrstu íslensku hotsósuna í Kjörbúðinni á Djúpavogi í sumar. Búið er að stofna pokastöð þar sem sjálfboðaliðar framleiða fjölnotapoka úr endurunnum efnum svo hægt sé að fá lánaðan poka í búðinni þegar hinir gleymdust heima.

En þetta snýst ekki bara um beinar aðgerðir í atvinnumálum og umhverfi. Hér er sjónum líka beint inn á við sem er viðeigandi í samfélagi sem er svo langt frá annarri byggð. Þegar það er langt að sækja aðra staði heim á vel við að líta sér nær. Á Djúpavogi eins og í mörgum öðrum smærri bæjum á Íslandi auglýsir fólk á Facebook eftir kryddi í sósuna sína þegar búið er að loka búðinni eða höndum til að bera sófasett út í bílskúr. Hér er auðsótt að fá aðstoð og aðfluttir bera staðnum góða söguna.

Greta Mjöll Samúelsdóttir, atvinnu- og menningarmálafulltrúi, flutti úr Kópavogi á Djúpavog fyrir þremur árum:

Ég hafði aldrei búið úti á landi áður og vissi ekki alveg við hverju var að búast. Við vorum ekki flutt inn þegar hópur fólks var mættur til að hjálpa okkur. Síðan höfum við ítrekað upplifað samstöðuna hér og góðvildina. Nú eigum við von á okkar þriðja barni og þótt við séum langt frá ættingjum okkar og vinum höfum við eiginlega eignast hér nýtt stuðningsnet. Stundum þarf ég minna mig á að þetta er ekkert endilega sjálfsagt á öllum stöðum á landinu.

Djúpivogur er fyrir löngu orðinn frægur fyrir samheldni íbúa, einhug og samstöðu. Greta Mjöll segir að það sé mikilvægt að halda þessum eiginleikum þorpsins lifandi og það sé t.d. gert með því að fræða samfélagið:  

Við erum að vinna að verkefni núna þar sem hugmyndin er að bjóða upp á námskeið og/eða fyrirlestra um lífsgleðina, núvitund og bætta almenna líðan fólks. Lífshamingja og sátt er auðvitað það sem allir vilja og markmiðið er að verða glaðasta sveitarfélag landsins.

Djúpivogur er Cittaslow-miðstöð Íslands og stefnir að því að hjálpa öðrum sveitarfélögum í framtíðinni að hægja ferðina, virða umhverfið, nýta auðlindirnar og verða stöðugt glaðari.

Er til verðugra markmið?

Lesa nánar