Hamingjan er þar

Svona heyrði ég söguna frá fyrstu hendi.

Fyrir nokkrum árum hafði hópur ungs fólks komið sér fyrir á góðum stað á föstudagskvöldi – var spilað á kassagítar og sungu þau saman valda slagara frá ýmsum tímum. Klukkan var rétt um miðnætti. Þá kemur að hópnum miðaldra frú sem biður þau vinsamlega um að hætta spili og söng – hún þurfi að sofa eins og aðrir úr gönguhóp einum stórum sem þurfi á fætur snemma. Ekki tókust samningar á þessum forsendum og urðu af þessu nokkrir eftirmálar. Hóparnir héldu áfram karpi sínu daginn eftir og á endanum leitaði nefnd frú fulltingis eins af umsjónarmönnum hátíðarinnar þar sem þessir atburðir áttu sér stað. Erindi hennar var einfalt – þetta gengi einfaldlega ekki og óskaði eftir því að spilavinum yrði gerð grein fyrir því.

Umsjónarmaðurinn hafði fullan skilning á málinu og greiddi úr því fljótt og vel. Gönguhópurinn var vinsamlega beðinn um að leita næðis á öðrum stað – þau trufluðu hátíðargesti Bræðslunnar svo ekki yrði við unað.

Ég nefni þetta hér aðallega af þeirri ástæðu að þetta er eina sagan sem ég kann af ósætti á þeirri yndislegu fjölskylduhátíð sem Bræðslan á Borgarfirði eystri er – hátíð sem ég hef sótt oftar en ég get talið, svona í fljótheitum.

Bræðslan er fyrir mér margir aðskildir hlutir. Þorpið er eins og athvarf frá ys og þys hversdagsins, þar finn ég einhverja ró sem vanfundin er annars staðar. Reyndar er litla þorpið eins og tímavél fyrir mig, en jafnframt dettur mér alltaf í hug að það er eins og einhver hafi hannað hina fullkomnu sviðsmynd fyrir mannamót. Þetta verður hver og einn að upplifa, því ég bý ekki yfir orðaforða til að lýsa þessu nákvæmlega sjálfur.

Tónlistarhátíðin sjálf er einnig af slíkum gæðum að það eitt og sér dugar til að sækja Borgfirðinga heim – þar hef ég kynnst fjölmörgum tónlistarmönnum innan úr einum besta tónleikastað sem hægt er að hugsa sér. Ryðfúin grindin hefur ekkert með þetta að gera, eða illa steypt gólfin. Ég hef ekki heldur vit á því hvernig best er að meta hljómgæði gamla hússins sem var lengi ein aðal lífæð fólksins í þorpinu. Það er andinn þar inni sem ég er að tala um – fólkið sem kemur þar saman. Gamla húsið dregur einhvern veginn fram það besta í öllum – líka hjá þeim listamönnum sem veljast í það og það skiptið til að standa á sviðinu fyrir okkur hin.

Ég keyri alltaf hægt á leið minni á Bræðsluna – vil láta mig hlakka til aðeins lengur. Ég keyri líka alltaf hægt til baka – vil fara í rólegheitum yfir nýliðna daga og brosa meira. Ekkert liggur heldur á eftir skyldumætingu í skál eða tvær af fiskisúpu Kalla Sveins, útgerðarmannsins sem selur þér harðfisk á klósettinu, og er einn af þeim brjáluðu snillingum sem gott, eða jafnvel nauðsynlegt, er að sækja heim.

Eftir Svavar Hávarðsson. Hann er fæddur og uppalinn Stöðfirðingur, en hefur búið í Reykjavík frá árinu 1990. Svavar er sagnfræðingur að mennt en hefur unnið sem blaðamaður á Fréttablaðinu frá árinu 2006. Hann er fastagestur á Bræðslunni. 

Lesa nánar