Frakkar á Íslandsmiðum

Frakkar á Íslandsmiðum  Safnið er til húsa í tveimur reisulegum byggingum sem Frakkar reistu á Fáskrúðsfirði upp úr aldamótunum 1900, Læknishúsinu og Franska spítalanum. Meginsýning safnsins er þó í hvorugu húsanna, heldur  í undirgöngum sem tengja þau saman.

Frakkar á Íslandsmiðum er án efa eitt athyglisverðasta safn landsins. Ekki aðeins fyrir hönnun þess og nálgun við viðfangsefnið, heldur einnig vegna andrúmsloftsins sem tekist hefur að skapa. Lifandi nærmynd er brugðið upp af lífi sjómanna um borð í frönsku skútunum sem sóttu Íslandsmið og skynjar áhorfandinn glöggt aðstæður þeirra og daglegt líf. Þá veitir safnið einnig glögga innsýn í starfsemi Franska spítalans og merka starfsemi hans upp úr aldamótunum 1900.

Endurgerð Minjaverndar á Frönsku húsunum á Fáskrúðsfirði lauk sumarið 2014. Húsin eru alls fimm og eru auk Læknishússins og Franska spítalans, Sjúkraskýlið, Litla kapellan og Líkhúsið.  Endurreisnarsaga húsanna er með merkari framkvæmdum Minjaverndar og sú viðamesta utan höfuðborgarsvæðisins.

Frönsku húsin gegna á ný mikilvægu hlutverki fyrir bæjarlíf Fáskrúðsfjarðar, en nú sem Fosshótel Austfirðir, sælkerastaðurinn l’Abri og safnahús Fransmanna á Íslandi. Litla kapellan hlaut blessun 26. júlí 2014 og er eina byggingin sem heldur upprunalegu hlutverki sínu.