Austurland er matarkista
Austurland er matarkista. Með sín gjöfulu mið, fjöll og firði býr svæðið yfir gnægð af fersku sjávarfangi og sjófugli. Á svæðinu eru vinsælar laxveiðiár og fiskur í vötnum sem dregur að áhugasama veiðimenn á hverju ári. Landbúnaðurinn byggir á frekar smáum búum með sauðfé og kýr og einnig er að finna landnámsgeitur.
Aldagömul hefð er fyrir ræktun á kartöflum og rótargrænmeti á Austurlandi en kál- og kartöfluræktun í fjórðungnum hófst fyrst í Vallanesi um miðja 18 öld, en séra Páli Guðmundson var með þeim fyrstu á Íslandi að hefja slíka ræktun í stórum stíl. Þar er nú þremur öldum seinna stunduð lífræn ræktun á korni og grænmeti. Framandi jurtir eru nú ræktaðar í gróðurhúsum við Fellabæ þar sem er að finna heitt vatn sem nýta má til ylræktar. Skóglendið á Héraði gefur öllu þessu úrvali enn meiri vídd þar sem ýmsar forvitnilegar jurtir, ber og sveppir vaxa í skjóli skógarins. Hálendið er uppspretta forvitnlegra grasa en þar er safnað blóðbergi, birki, hvönn, mjaðjurt, blágresi, gulmöðru, vallhumli, bláklukku og fleiri jurtum sem nýttar eru í te, smyrsl og mjöð. Hreindýr völdu sér búsetu á Austurlandi eftir að þeim hafði verið dreift víða um landið seint á 18. öld. Þau ásamt gæsinni gefa svæðinu orðspor fyrir villibráð sem nóg er af en Austurland er paradís skotveiðimanna. Yfirbragð svæðisins er villt og bragðið úr náttúrunni svo margslungið að það rímar vel við haustlitina.
Öflugt klasasamstarf framleiðenda og veitingahúsa hefur skapað samhent átak um að auka framboð af austfirskum matvælum og greiða götu þess frá haga til maga. Þetta er styrkur fyrir ferðaþjónustuna sem vill byggja á sérstöðu auk þess sem svæðisbundin matvælaframleiðsla getur skapað aðdráttarafl og verið meginstoð í hinu litla hagkerfi svæðisins og byggt upp efnahag þess . Öflug nýsköpun hefur átt sér stað á svæðinu á undanförnum árum og fram hafa komið ýmsar vörunýjungar s.s. úr afurðum skógarins, grænmetis- og kornafurðir og kjötafurðir eru seldar beint frá býli. Veitingahúsum í hæsta gæðaflokki hefur fjölgað og mörg hver hlotið viðurkenningar fyrir hráefni, matseld og umgjörð.
Hefðirnar eru hafðar í heiðri s.s. á Borgarfirði Eystri þar sem hákarl er verkaður uppá gamla mátann, þurrkuð afurð án viðbættra efna. Einnig er hefðbundið íslenskt skyr framleitt í smáum stíl á Egilsstaðabúinu með aðferð sem er í grundvallaratriðum sú sem notuð hefur verið á Íslandi sl 1000 ár og tryggir hámarks hollustu og bragð. Báðar þessar afurðir eru skráðar á Bragðörk Slow Food sem þýðir að þau hafa menningarlega þýðingu og ber að varðveita til framtíðar. Eiginleikar þessara afurða eru sígildir og eftrisóknarverðir enn í dag þar sem leitað er eftir hreinni, lifandi fæðu og matarhandverki með sögu.
Svæðisbundin matarmenning sem Austurland vill rækta er drifin áfram af gæðum, árstíðum og sjálfbærni. Ef svæðisbundin matarmenning er vel ræktuð geta menn lesið landslagið af diskunum sínum. Þar er að finna hráefni sem ræktað er eða þess aflað í fjórðungnum með aðferðum sem eru í sátt við umhverfið. Það er ferskt því það er í takt við árstíðirnar og hefur ekki ferðast um langan veg og áhugavert vegna þess að fjörur, heiðar og skógar búa yfir ýmsum leyndarmálum sem enn á eftir að segja frá og uppgötva. Matarmenning er alltaf í mótun og í dag er hún ekki menning nema að hún hafi sjálfbærni að markmiði. Þar sem sjálfbærni er markmið í sjálfu sér verður staðbundin framleiðsla í fyrirrúmi á matborði framtíðarinnar.
Eftir Eygló Björk Ólafsdóttur.
Myndir til vinstri: Rhombie Sandoval.
Efri mynd til vinstri: Eygló ásamt Eymundi Magnússyni. Saman eiga þau fyrirtækið Móðir Jörð ehf. í Vallanesi.