Austfirskt fullveldi – Sjálfbært fullveldi?

„Það er alltaf gott fyrir okkur að þekkja sögu okkar og fullveldi Íslands hafði áhrif á allt landið, þar á meðal Austfirðinga. En það er ekki síður mikilvægt, í ljósi loftslagsbreytinga og annarra vandamála sem mannkynið stendur frammi fyrir, að auka vitund og þekkingu á hugtakinu sjálfbærri þróun og velta upp aðgerðum sem við getum gripið til svo sporna megi við þeirri uggvænlegu þróun sem allir þekkja.“

Þetta segir Elfa Hlín Pétursdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, um verkerfnið „Austfirskt fullveldi – Sjálfbært fullveldi?“ sem stofnunin hefur unnið að í samvinnu við sveitarfélög og stofnanir á Austurlandi síðustu mánuði. Verkefnið hefur m.a. getið af sér sýningar sem opnaðar voru síðasta sumar og vöktu talsverða athygli.

Austfirskt samvinnuverkefni

Ísland varð frjálst og fullvalda ríki með gildistöku sambandslaganna 1. desember 1918. Liðin eru því hundrað ár og þess hefur verið minnst um land allt á árinu með ýmis konar viðburðum.

Austurland er ekki undanskilið og þar var hrint í framkvæmd metnaðarfullu verkefni sem ber heitið „Austfirskt fullveldi – Sjálfbært fullveldi?“

Hugmyndin kviknaði í fyrra þegar Signý Ormarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú og eiginlegur „menningarfulltrúi Austurlands“, kallaði saman hina ýmsu aðila úr menningarlífinu af Austurlandi í tilefni af fullveldisafmælinu. Markmið Signýjar var að kanna hvort fólk hefði áhuga á að vinna saman að verkefnum því tengdu.

„Það sýndu þessu margir áhuga,“ segir Elfa Hlín sem stýrir verkefninu. „Fljótlega varð ljóst að það var besti kosturinn að Austurbrú tæki að sér að stýra framkvæmdinni.“

Hún lýsir fyrstu skrefunum svona:

„Hugmyndin var frá upphafi að skoða fullveldið frá austfirsku sjónarhorni og eftir nokkra hugarflugsfundi varð ljóst að sjálfbær þróun var fólki ofarlega í huga. Við vildum því gera tilraun til að flétta saman og skoða tengsl á milli fullveldisins og sjálfbærni með Austurland í forgrunni og notum heimsmarkmið Sameinuðu þjóðana um sjálfbæra þróun til hliðsjónar.“

Börn í forgrunni

Að verkefninu standa Austurbrú, Gunnarsstofnun, Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Minjasafn Austurlands, Landgræðsla ríkisins, Safnastofnun Austurlands, Skólaskrifstofa Austurlands og Tækniminjasafn Austurlands. „Það er mikil þekking á svæðinu sem nýtist svona verkefni,“ segir Elfa Hlín „og við nýttum óspart þá reynslu sem var til innan hverrar stofnunar við undirbúning og framkvæmd.“

Verkefnahópurinn kom sér hratt og örugglega að verki. Heimasíðan www.austfirsktfullveldi.is var sett upp (sem fyrirtækin Seysey og Roshambo unnu að) og þann 17. júní voru opnaðar sýningar á fjórum stöðum: Í Safnahúsinu á Egilsstöðum, Randulffssjóhúsi á Eskifirði, Skriðuklaustri og Tækniminjasafninu. „Á sýningunum eru börn í forgrunni,“ segir hún umbeðin að lýsa þeim. „Við bjuggum til sögur um fjögur börn en staðsettum hvert þeirra á mismunandi tímum. Annars vegar árið 1918 og hins vegar árið 2018 og tengdum nokkur af sjálfbærnimarkmiðunum við hvert barn.“

Í framhaldinu var sett saman fræðsluefni sem getur nýst gestum á sýningunum eða staðið sjálfstætt. „Við teljum að vel hafi tekist til og verkefnið hefur vakið athygli út fyrir fjórðunginn. Það er okkar ósk að sem flestir – skólar, félagasamtök og foreldrar – nýti sér líka þau tæki sem felast í fræðsluefninu,“ segir Elfa Hlín.

Þýðingarmikið verkefni

En hvers vegna skiptir svona verkefni máli? Hvaða þýðingu hefur það fyrir hinn almenna Austfirðing?

„Það má skipta þessu svari í tvennt,“ svarar Elfa og heldur áfram: „Það er alltaf gott fyrir okkur að þekkja sögu okkar og fullveldi Íslands hafði áhrif á allt landið, þar á meðal Austfirðinga. En það er ekki síður mikilvægt, í ljósi loftslagsbreytinga og annarra vandamála sem mannkynið stendur frammi fyrir, að auka vitund og þekkingu á hugtakinu sjálfbærri þróun og velta upp aðgerðum sem við getum gripið til svo sporna megi við þeirri uggvænlegu þróun sem allir þekkja. Þetta þarf að hugsa út frá einstaklingum en líka út frá samfélaginu. Að því sögðu skiptir auðvitað mestu máli að hrint sé í framkvæmd markvissum aðgerðum í alþjóðlegu samhengi. En svo slíkar aðgerðir heppnist þarf vitundin um mikilvægi þeirra að vera fyrir hendi og það er einn helsti tilgangur verkefnisins,“ segir hún.

Fullveldishátíð í bígerð

Sem fyrr segir hefur verkefnið leitt af sér heimasíðu þar sem finna má ýmis konar uppslýsingar um sjálfbærni og fullveldið. Þá má finna á henni sýnishorn af þeim sögum sem sagðar eru á sýningunum.

En hvar er verkefnið statt núna og hvenær lýkur því?

„Þessa dagana erum við að kynna fræðsluefnið, vekja athygli á því og fylgja verkefninu eins vel úr hlaði og við mögulega getum. Það nær síðan ákveðnum lokapunkti með hátíðarhöldum þann 1. desember en þar ætlum við að sameina sýningarnar fjórar á fullveldisfögnuði í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Þetta verður einskonar lokaviðburður verkefnisins. Auk sýninganna verður sett upp skemmtileg og fræðandi dagskrá sem hnykkir enn frekar á mikilvægi sjálfbærni fyrir okkur einstaklingana, samfélagið og heiminn allan. Það er mikið í húfi,“ sagði Elfa Hlín að lokum.

Lesa nánar