Áfangastaðaáætlun Austurlands er komin út

Út er komin áfangastaðaáætlun fyrir Austurland sem unnin er í samstarfi við Ferðamálastofu og markaðsstofur landshlutanna. Áfangastaðaáætlunin er byggð á vinnu síðustu fjögurra ára í verkefninu Áfangastaðurinn Austurland sem Austurbrú hefur haft umsjón með. 

Með áfangastaðaáætlun fyrir Austurland verður til heildræn stefna unnin á forsendum svæðisins sem eflir bæði samstöðu og slagkraft út á við. Markmið þessarar áætlunar er að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu sem skilar sem mestum hagnaði til samfélaga og um leið að draga úr neikvæðum áhrifum. Í skýrslunni eru m.a. birtar niðurstöður greiningar á stöðu ferðaþjónustunnar á Austurlandi en á grunni hennar var mótuð framtíðarsýn og aðgerðaráætlun.

Hátt í tvö hundruð aðilar hafa mætt á vinnustofur og fundi sem haldnir hafa verið í tengslum við verkefnið Áfangastaðurinn Austurland og hefur verið haft gott samráð við sveitarfélög í landshlutanum frá upphafi. Áfangastaðaáætlunin er unnin á ensku þar sem annar verkefnastjóranna er sænski áfangastaðahönnuðurinn Daniel Byström. Áfangastaðavinna síðustu ára hefur vakið athygli erlendis og má færa rök fyrir því að það hafi hjálpað til að allt skriflegt efni hefur verið gefið út á ensku. Hefur áfangastaðavinnan m.a. verið notuð sem fyrirmynd fyrir áfangastaði í öðrum löndum. Að því sögðu er rétt að komi fram að unnið er að styttri útgáfu af skýrslunni sem kemur út á íslensku.

Skýrslan mun verða uppfærð árlega eða eins oft og tilefni gefst til.

Nánari upplýsingar veitir María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú. 

Deila