Ævintýraland gönguskíðafólks

Gönguskíði njóta nú vinsælda sem aldrei fyrr. Frelsið sem fylgir því að geta spennt á sig skíði og njóta alhliða hreyfingar í fersku fjallalofti er einstakt.

Hálendið norðan Vatnajökuls

Hálendið norðan Vatnajökuls er faðmvítt, fjölbreytt og fallegt. Þar má skíða um hásléttur, án þess að þurfa að glíma við brattlendi, en á sama tíma njóta útsýnis til fjalla, gljúfra, vatnasvæða, fossa, jökla og jafnvel nýta sér heitar laugar til slökunar eftir ævintýri dagsins. Því má með sanni segja að svæðið sé kjörið til gönguskíðaferða.

Fljótsdalsheiði, hreindýrahjörð með hæðsta fjall utan jökla, Snæfell í bakgrunni.

Aðstaða og þjónusta

Aðstaða og þjónusta er ekki af verri endanum. Fjöldi vandaðra skála eru á svæðinu í rekstri einkaaðila, ferðafélaga og sveitafélaga, auk bændagistinga og þjónustu við vetrarferðamenn.

Boðið upp á skipulagðar ferðir með leiðsögn, en einnig er hægt að fá leiðbeiningar, ef menn kjósa að ferðast á eigin vegum.

 

 

Úrvals fjallaskálar, heitar laugar og stórbrotið útsýni er uppskrift að skemmtilegu vetrarævintýri

Fjallahótelið við Laugarfell er tilvalinn upphafsstaður slíkra ævintýra með heitri laug og upphituðum skála. Þaðan liggur fjöldi leiða meðfram, gljúfrum, vötnum og fjöllum.

Af náttúruperlum á svæðinu  má nefna Eyjabakka, Snæfellsöræfi, Fljótsdalsheiði, Þjófadali. Hafrahvammagljúfur, Vatnajökull, Hraunasvæðið, Sanddal og Vesturöræfin.

Góð hreyfing

Gönguskíðaferðir eru frábærar að svo mörgu leiti. Hreyfingin reynir á alla vöðvahópa líkamans, styrkir úthald og jafnvægi. Æfingin skapar meistarann og mjög auðvelt er að komast í gott form. 

Það eru t.d. margir hlauparar sem nota gönguskíðin til að halda sér í góðu formi yfir veturinn og styrkja efri hluta líkamans og miðjusvæðið, bak og kvið í leiðinni.

Í ferðum sem þessum myndast líka góð tengsl og fólk eignast vini og félaga sem hafa skíðagönguna að áhugamáli. Góð stemning einkennir svona ferðir.

Óbyggðir Íslands

Óbyggðir Íslands þekja um 76% af flatarmáli landsins. Frá landnámsöld hafa menn stytt sér leiðir yfir hálendið og 

því liggur sagan og sums staðar minjar víða á leiðinni. Með kunnugum leiðsögumanni getur því sagan lifnað við, 

gert ævintýrið innihaldsríkara og skilið eftir minningar fyrir lífstíð.

Aðstoð við ferðatilhögun

Óbyggðasetur Íslands og Laugarfell aðstoða gönguskíðagarpa að skipuleggja ferðir og leiðbeina eftir þörfum.

Hér má sjá dæmi um ferðatilhögun í gönguskíðaferð sem Óbyggðasetrið bíður upp á.

Einnig eru í boði styttri ferðir og sérsniðnar ferðir fyrir smærri hópa.