Gönguskíðaleiðir

Á Austurlandi má víða finna skemmtilegar brautir og leiðir fyrir gönguskíðafólk, jafnt lögð spor og leiðir sem henta vel fyrir utanbrautarskíði og ferðaskíði.

Hjálmar Jóelsson á göngu í Selskógi

Múlaþing

Selskógur á Egilsstöðum er ein af útivistarperlum fjórðungsins. Þar er góður hringur sem hentar öllum. Fjarðarheiði er vinsæl til skíðamennsku. Þar gengur fólk ekki bara á gönguskíðum heldur líka á utanbrautarskíðum eða ferðaskíðum. Skíðasvæðið í Stafdal býður líka upp á spennandi möguleika fyrir gönguskíðafólk.

Þá er oft lagt spor á túnið við Gistiheimili Egilsstaða og einstakt að ganga þar meðfram fljótinu.

 

Á göngu í Oddsskarði.

Fjarðabyggð

Við Varnargarðana í Neskaupstað eru göngustígar sem stundum eru nýttir sem gönguskíðabrautir og hægt er að ganga frá tjaldsvæðinu og út að fólkvangi, svæðið sem tekur við þar sem þéttbýlið endar á eystri mörkum bæjarins. Golfvöllurinn í Norðfjarðarsveit og túnin þar í kring hafa verið nýtt og gera gönguskíðamenn sporin sjálfir.

Á skíðasvæðinu í Oddsskarði hafa verið gerð spor og brautirnar krefjandi enda lítið um flatir í fjallinu.