Útivist, alhliða hreyfing og frelsi

Þegar Hjálmar Jóelsson, apótekari á Egilsstöðum, hætti að vinna áttaði hann sig fljótlega á því að það væru margar klukkustundir í sólarhringnum sem hægt væri að nýta til útivistar. Hann segir gönguskíðamennsku henta öllum.

Hjálmar er sjötíu og níu ára gamall gönguskíðagarpur.

Áhugi á gönguskíðum hófst fyrir austan

Hjálmar er 79 ára, fæddur og uppalinn á Siglufirði og fyrstu ár ævi sinnar stundaði hann skíðamennsku og knattspyrnu af kappi. „Ég hætti að hreyfa mig þegar ég byrjaði í háskólanum,“ segir hann en Hjálmar flutti austur, nánar tiltekið til Egilsstaða, árið 1977 og þá kviknaði áhuginn aftur. „Þá var þó nokkur áhugi á gönguskíðamennsku,“ segir hann. „Það má segja að það hafi verið vakning í íþróttinni á landsvísu, haldnar voru skíðagöngur, svonefndar Íslandsgöngur, í öllum landshlutum. Hugmyndin var sú að þær myndu höfða til almennings en þær voru skipulagðar eftir norskri fyrirmynd. Gangan á Héraði var nefnd Skógargangan og var haldin í ein tíu skipti,“ segir Hjálmar og segir þetta hafa skemmtilegt og gengið vel, einkum til að byrja með. „En svo fór þetta að snúast meira úti keppni, haldnar voru tímatökur og þess háttar og þá minnkaði áhugi almennings. Undir það síðasta var keppnin einungis fyrir þá allra bestu og í síðustu keppninni voru nítján keppendur, nánast eingöngu aðkomumenn.“

Hjálmar er einn af forsprökkum Snæhéranna sem hafa verið duglegir að búa til göngubrautir í og við Egilsstaðir.

Áhuginn fór vaxandi aftur

Áhuginn á gönguskíðamennsku lá niðri eftir þetta í rúman áratug en Hjálmar segir að fyrir tilstuðlan æfingaverkefnisins Landvættir fyrir nokkrum árum hafi áhugi á gönguskíðamennsku, hlaupum og hjólreiðum aukist mikið á Austurlandi og að margir hafi farið að æfa sig á gönguskíðum til að geta tekið þátt í keppninni.

„Við vorum nokkur, tíu manna hópur, sem keyptum tæki svo hægt væri að búa til göngubrautir í Selskógi og við fljótið og höfum ekki enn hætt,“

Brautir útbúnar í sjálfboðavinnu

„Við vorum nokkur, tíu manna hópur, sem keyptum tæki svo hægt væri að búa til göngubrautir í Selskógi og við fljótið og höfum ekki enn hætt,“ segir Hjálmar. Þessi hópur myndaði svo undirstöðurnar í félagsskap sem kallar sig Snæhérar og starfar enn í dag. Snæhérarnir eru áhugamannahópur um gönguskíði og hafa þeir í mörg ár lagt gönguskíðabrautir á Egilsstöðum og á Fjarðarheiði. Öll vinna við það er sjálfboðavinna en þeir hafa til umráða sexhjól á beltum með spora. Rekstrarkostnaður hjólsins hefur verið greiddur af Snæhérunum og hafa framlög frá þeim sem nýtt hafa göngusporið verið nýtt til að greiða kostnaðinn.

Öllum er frjálst að nýta brautirnar.

Allir mega nýta brautirnar

Á Facebook er hópur sem kallar sig Egilsstaðasporið, sem smám saman hefur tekið yfir hlutverk Snæhéranna, og þar skiptast iðkendur á upplýsingum um allt á milli himins og jarðar, svo lengi sem það tengist sportinu. „Það hefur færst í aukana að gestir nýti brautirnar,“ segir Hjálmar og er ánægður með það. Ítrekar að allir megi nota brautirnar en þær helstu sem iðkendur á Egilsstöðum og nágrenni nota eru á Egilsstaðatúninu, í Selskógi og á Fjarðarheiði.

„Það eru tuttugu og fjórar klukkustundir í sólarhringnum og mér finnst ekkert mikið að nota tvær í hreyfingu.“

Gengur daglega

Hjálmar gengur daglega á skíðum. „Það eru tuttugu og fjórar klukkustundir í sólarhringnum og mér finnst ekkert mikið að nota tvær í hreyfingu,“ segir hann. Hann notar helst brautirnir sem eru í næsta nágrenni við hann á Egilsstöðum. Einu sinni á ári fer hann í lengri göngur með öðrum s.s. á Smjörvatnsheiði og Fljótsheiði. Þá hafi hann gengið Eskifjarðarheiði, Svínadal og víðar. „Þetta eru oft dagsgöngur,“ segir hann en stundum taki menn meiri tíma og þá er gott að nýta fjallaskálana á Austurlandi og gista. Hjálmar segir að það sé hægt að vera á skíðum langt fram á sumar og rifjar upp að hann hafi verið á gönguskíðum við Gagnheiðarhnjúk á 17. júní fyrir nokkrum árum.

En hvað er það við gönguskíðin sem heilla: „Í fyrsta lagi er það útivistin,“ svarar Hjálmar. „Í öðru lagi er þetta góð alhliða hreyfing fyrir hendur, fætur og allan skrokkinn og í þriðja lagi er það frjálsræðið. Að geta keyrt upp á Fjarðarheiði, lagt bílnum og gengið í allar áttir. Og svo fer maður í sund á eftir,“ segir Hjálmar sem var einmitt að gera sig kláran fyrir göngu þegar Austurland.is hafði samband.

Við hvetjum áhugasama um að fylgjast með Egilsstaðasporinu á Facebook en þar er hægt nálgast upplýsingar um brautir og annað gagnlegt fyrir gönguskíðakappa á Austurlandi.