Viðtal við Sebastian Ziegler kvikmyndagerðamann
17. Janúar 2019 fór í dreifingu nýtt og glæsilegt kynningarmyndband um Austurland. Myndbandið, sem er eins konar örsaga, lýsir upplifun aðkomumanneskju af svæðinu og tekst þannig að gefa áhorfendum innsýn inn í þennan sérstaka og töfrandi landshluta. Hér er reynt að fanga á mettíma hvað það er sem heillar fólk við Austurland, hvað er öðruvísi, hvar augað staðnæmist og hvað stendur upp úr eftir vel heppnað ferðalag.
Myndbandinu leikstýrði Henrik Dyb Zwart en Sebastian Ziegler stjórnaði upptökum en hann þekkir vel til á svæðinu. „Ég bjó á Austurlandi í fimm ár og starfaði við hönnun, heimildamyndagerð og framleiðslu á ýmsum verkefnum,“ segir Sebastian, sem kom meðal annars að gerð myndarinnar 690 Vopnafjörður. „Ég var að vinna að ýmsu markaðsefni á svæðinu þegar sú hugmynd kom upp að gera myndband til að kynna Austurland sem áfangastað. Ég var strax mjög spenntur fyrir þessu verkefni enda er þetta bæði svo fallegur og lítt þekktur hluti af Íslandi.“
Það er alltaf hægt að uppgötva meira
Þannig að þú tókst þátt í verkefninu frá upphafi?
Já, þessi hugmynd kom upp fyrir nokkrum árum þannig að ég var alsæll þegar við byrjuðum að vinna að þessu. Ég bað Henrik Zwart, vin minn, að koma frá Noregi til að þróa hugmyndina og leikstýra myndinni því ég vildi fá einhvern með alveg ferska sýn til að taka þátt í að móta verkefnið. Ég hef búið á Íslandi í mörg ár og þekki landið ágætlega en þetta svæði þekki ég allra best enda hef ég tekið þátt í upptökum um allt Austurland. En að sjálfsögðu á maður alltaf eftir að uppgötva meira.
Veður og birta
Austurland er stórt landsvæði og landslagið er mjög fjölbreytt. Það hlýtur að hafa verið áskorun að velja tökustaði fyrir verkefnið.
Við Henrik gerðum lista yfir alla staðina sem okkur fannst passa við handritið og Henrik útbjó áætlun út frá því. Á hverjum degi snerust tökurnar samt um að bregðast við veðurskilyrðum og birtu. Þetta þýddi endalausar ákvarðanir um að vera lengur, hætta við, halda áfram eða ganga lengra en við ætluðum okkur og þetta var auðvitað rosaleg keyrsla. Upptökurnar voru alls 20 dagar sem við skiptum jafnt á milli sumars og vetrar. Veturtökurnar voru að sjálfsögðu miklu erfiðari út af snjóþyngslum og færð. Að fara út úr bílnum og vaða áfram í blindbil með þungan búnað var rosalega gaman en við fórum auðvitað miklu hægar yfir. Vinnudagurinn byrjaði um þrjú á daginn yfir sumarið til að ná bestu birtunni og við vorum oft að klára um þrjú að nóttu. Þá er stærsta áskorunin að sofna í glampandi sól og dagsbirtu um miðja nótt!
Besta starf í heimi
Hvað stóð upp úr í þessu verkefni?
Þrennt stendur sérstaklega upp úr eftir þetta verkefni. Í fyrsta lagi getur sami tökustaðurinn litið allt öðruvísi út á milli heimsókna. Maður veit einhvern veginn aldrei fyrir fram hvernig þetta mun líta út þann daginn fyrr en maður mætir á staðinn. Í öðru lagi eru verkefni með svona litlu teymi það skemmtilegasta sem maður gerir. Við gátum brugðist við öllu strax og farið hratt yfir. Það er algjörlega þess virði að fórna meiri búnaði og fleira fólki til að hafa þeim mun meiri tíma og sveigjanleika í verkefnið. Og í þriðja lagi var alveg magnað hvað heimamenn voru allir af vilja gerðir að hjálpa okkur. Fólk var upp til hópa svo viljugt að bjóða fram þekkingu, aðstoð og búnað. Maður verður mjög snortinn af því hugarfari og á þeim stundum finnst mér ég vera í besta starfi í heimi.
Að myndbandinu stóðu:
Leikstjóri: Henrik Dyb Zwart
Framleiðsla og kvikmyndataka: Sebastian Ziegler
Handrit: Guðbjörg Tómasdóttir
Framleiðslustjóri f.h. Austurland: Ingvi Örn Þorsteinsson
Samhæfingarstýra: Sesselja Jonasardottir
Hljóðblöndun: Andreas Waag Martinsen
Tónlist: Axel Toreg Reite
Litaleiðrétting: Julien Alary
Hreyfimyndagerð: Ingvi Örn Þorsteinsson
Aðalhlutverk: Nanna Vibe Spejlborg Juelsbo
Aukaleikari: Eira Ebbs
Talsetning: Karina Dyb Zwart