Það er pláss fyrir alla drauma

„Tónlistin er þannig að maður þarf eiginlega ekki að skilja íslensku til að skilja hana og skynja. Ég veit ekki um hvað þeir fjalla í textunum sínum en finn þó að þeir bjóða mann velkominn.“ – Rhombie Sandoval.

„Í litlum bæjum er pláss fyrir alla drauma og það skiptir engu hversu ruglaðir þeir eru,“ segja strákarnir í hljómsveitinni „Á gráu svæði“ um  heimabæinn sinn. Þetta er fyrsta hip hop-hljómsveitin á Austurlandi.

Á meðan viðtalinu stóð rifjuðu þeir upp orð gamals íþróttakennara [Athugasemd: Hér er átt við Stefán Magnússon, stofnanda Eistnaflugs] sem kenndi þeim: „Við þurfum meiri tónlist, við þurfum meira rokk,“ og þannig fæddist tónlistarhátíðin Eistnaflug. Í júlí breytir hátíðin Neskaupstað í heimili stærstu þungarokkshátíðar Íslands. Á fyrstu hátíðina mættu 150 manns en í fyrra voru gestir um 3000 og allir voru mættir til að skemmta sér og fylgdu samviskusamlega leiðarljósi hátíðarinnar: Bannað að vera fáviti. Á Eistnaflugi heyrast sögur af gestum í leðurjökkum að hreinsa upp rusl og peningaveskjum er skilað án þess að nokkuð sé átt við innihaldið.

„Tónlistin er þannig að maður þarf eiginlega ekki að skilja íslensku til að skilja hana og skynja. Ég veit ekki um hvað þeir fjalla í textunum sínum en finn þó að þeir bjóða mann velkominn. Það er sannur „gerðu-það-sjálfur“-andi yfir tónlistinni á Austurlandi. Þegar Daníel Magnús, trommarinn í Á gráu svæði, stofnaði hip hop-hljómsveit tók hver og einn sig til og lærði sitt hlutverk. Leifur söngvari hafði aldrei fengist við að rappa en varð að læra það.  „Smæð samfélagsins ýtir undir sköpun,“ segja þeir. „Maður lærir af sjálfsdáðum það sem þarf til svo að tónlistin lifni við.“

Á Austurlandi eru fleiri hátíðir þar sem svipaður andi svífur yfir vötnum. Á Seyðisfirði er LungA-hátíðin, listahátíð ungs fólks, vikulöng hátíð með námskeiðum og listviðburðum sem breyta Seyðisfirði í eina stóra sýningu. Áður en gestir yfirgefa LungA hafa þeir eignast nýja vini og ekki ólíklegt að þeir hafi kynnst þeim á meðan þeir fengu sér sundsprett í Seyðisfirði.

Bræðslan er önnur hátíð þar sem ævintýrið er ekki síst ferðalagi sjálft. Það eru 70 kílómetrar frá Egilsstöðum til Borgarfjarðar eystri, íbúar um 120 manns. Bræðslan er haldin árlega, aðeins eru seldir 800 miðar en hátíðin sjálf fer fram  í gamalli síldarbræðslu sem hentar, ótrúlegt en satt, frábærlega fyrir tónleikahald. Upplifun sem enginn gleymir.

Að loknu spjalli við hljómsveitina Á gráu svæði höfðu meðlimir hennar samband við félagsheimilið og fengu að halda óundirbúna tónleika. Eflaust eru margar ástæður fyrir því hvers vegna tónlistarlífið hér er einstakt en ein helsta ástæðan er sú að tónlistin er stór þáttur í menningunni og ef þú vilt láta eitthvað gerast veistu við hvern á að tala.

Texti og myndir: Rhombie Sandoval.