Er ekki að bíða eftir neinu sérstöku
Kristín Amalía Atladóttir er kotbóndi, fræðimaður og kvikmyndaframleiðandi á Hólshjáleigu í Hjaltastaðaþinghá á Héraði. Nýverið tók hún við sem forstöðumaður menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs. Hún á engar rætur á Austurlandi en lætur það ekki trufla sig. „Ég óttast ekki tengslaleysi – því getur fylgt mikið frelsi ef maður kýs að líta á það þannig,“ segir hún.
„Mér líður vel hérna,“ segir Kristín, hugsar aðeins málið og segir svo: „Ætli það sé ekki náttúran sem gerir útslagið. Hún er svo stór þáttur í mínu daglega lífi og ég þarf að haga mér eftir hennar dyntum og hegðun. Þarna útfrá er enginn klukkutími líkur þeim síðasta og til verða nýjar víddir í tilveru manns, að fylgjast með mögnuðu samspili birtu og skýjarfars breytir skynjuninni og svo ég minnist ekki á sjálfa víðáttuna – ég er einfaldlega háð henni. Fæ orku, örvun og ánægju útúr því að fylgjast með umhverfinu og þannig verður náttúran miðpunkturinn í lífi mínu: Daglega fylgist ég með fljótinu, fuglunum, gróðrinum og þetta hefur mikla merkingu í mínum huga. Mun meiri merkingu en flest það sem gerist í umheiminum.“
Árið 2015 langaði Kristínu í sumarfrí austur á land. Hún átti ekki rætur fyrir austan en í gegnum vini rataði hún til Hjaltastaðarþinghár. „Ég sá auglýst starf á Borgarfirði og ég kannaðist aðeins við staðinn,“ segir hún. „Ég hafði komið þangað áður og fannst Borgarfjörður dásamlegur. Fékk starfið, ráðskonustarf hjá Skúla Sveinssyni, og var yfir sumarið sem reyndist ekkert voðalega gott veðurfarslega – kalt og blautt – en það var alveg augljóst að haustið yrði gott.
Hef frá barnæsku gert ráð fyrir því að ég myndi enda sem skrítin kona í sveit og þarna um haustið áttaði ég mig á því að hugsanlega væri komið að þeim tímamótum og dvaldi því í Hjaltastaðaþinghá yfir veturinn. Mér tókst að vera þarna í heilan vetur þökk sé ljósastaurnum fyrir utan húsið. Ég hefði ekki getað þetta án hans, hefði veslast upp og farið. En síðan þá hef ég eignast hund og nú finnst mér óþarflega mikill ljósagangur á Sandinum og læt mér standa á sama þó staurinn sé bilaður.“
Og Kristín er enn fyrir austan: „Ég var svo heppinn að fá vinnu í menningarmiðstöðinni. Þá þarf ég ekki að vera í harkinu og get leyft mér að festa rætur á mínum litla hól eins mikið og ég hef þörf á að festa rætur hérna. Ég er á þeim stað í lífinu að ég þarf ekki að vera meiri hluti af samfélaginu en ég vil sjálf. Mér býðst stundum að taka þátt í hinu og þessu og þigg það oft, fæ að njóta og er þakklát fyrir það.
Á sama tíma er ég félagslega meðvituð og hef áhuga á að byggja upp samfélagið. Grunnmarkmiðið mitt í þessu nýja starfi og langtímaverkefnið er að vinna með börnum og ungmennum og kynna fyrir þeim heim skapandi greina. Í framtíðinni verður skapandi geta lykilþáttur í atvinnuþátttöku þeirra og ég vil leggja mitt að mörkum svo að ungmennin hér fái tækifæri til að verða virk í veröld sjálfvirkni og gervigreindar til jafns við jafnaldra sína í Reykjavík. Ef við sinnum þessu ekki er hætt við að þetta verði annars flokks vinnuafl í framtíðinni.“
Og Austurland er langtímaverkefni líka í huga Kristínar: „Vissulega er það svolítið sérstakt að búa hér án nokkurra tengsla en ég hef búið í útlöndum og þetta er ekkert ósvipað. Ég óttast ekki tengslaleysi – því getur fylgt mikið frelsi ef maður kýs að líta á það þannig. Og einhvern veginn er það alltaf þannig að samfélög taka manni vel ef maður vill leggja eitthvað af mörkum. Þannig að ég er ekki með nein plön um að fara í burtu né heldur að setjast hér að til eilífðar. Ég er sátt hérna núna og þarf ekki að sanna neitt fyrir sjálfri mér. Ég bý bara á Hóli og er ekki að bíða eftir neinu sérstöku.“
Texti: Jón Knútur Ásmundsson.
Myndir: Rhombie Sandoval.