Hæg ferðamennska, stórbrotið landslag og gestrisnir heimamenn
Um þessar mundir þarf Ísland ekki að hafa mikið fyrir því að fá athygli fjölmiðla eða ferðalanga. Það þarf bara að vera til og líta heillandi út (sem það gerir sérstaklega vel) og þá koma þangað fullar flugvélar af ferðamönnum. Sömu sögu er hins vegar ekki að segja um Austurland sem er í samkeppni við aðra landshluta um athygli og tíma ferðamanna.
Ferðalangar sem keyra hringveginn í gegnum Austurland eru staddir mitt á milli glitrandi jökla suðursins og yfirnáttúrulegra hvera Mývatns. Báðir staðirnir eru þekktir ferðamannastaðir, vel auglýstir og kynntir, svo að verkefni Austurlands er að sannfæra ferðmennina um að hægja á sér, dvelja örlítið lengur á svæðinu, fara út af þjóðvegi nr. 1 en ekki bara þjóta í gegn og í mesta lagi stoppa til að taka bensín og grípa með sér snarl.
Þeir sem taka sér tíma til að heimsækja Austurland uppskera ríkulega. Gersemar Austurlands eru kannski ekki eins þekktar og þær í suðri eða norðri en það er hluti af töfrum landshlutans. Þeir sem kunna að meta hæga ferðamennsku, stórbrotið landslag og gestrisna heimamenn verða verðlaunaðir með þessum vanmetnu gersemum Austurlands.
Ég hef upplifað ótalmörg hrífandi augnablik á Austurlandi og fleiri ógleymanlegar og innilegar stundir með fólki en ég get talið upp. Á Seyðisfirði hef ég borðað eitt besta og ferskasta sushi sem ég hef smakkað og grænmetispylsur hjá landsfrægum tónlistarmanni á veitingastað sem áður var fjós. Ég hef leikið við yrðlingana sem voru fóstraðir á Eskifirði og setið rétt hjá lundunum í miðnætursólinni á Borgarfirði eystri. Ég hef keypt íslenska hönnun í búð sem rekin er inni í stofu í elsta húsi Seyðisfjarðar og keypt mér ís úr ísbílnum á afskekktum vegi.
Ég hef rekist á spennandi tónleika í kirkju á Eskifirði þar sem bundið var fyrir augu áheyrenda (til að virkja betur önnur skilningarvit) og gerst boðflenna á þjóðlagatónleikum í endugerðri baðstofu í afskekktum dal. Ég hef dýft mér í heita hálendislaug við Laugarfell, farið í heilsulind með frábæru útsýni á Borgarfirði eystri og setið í bát sem hefur sniðuglega verið breytt í heitan pott á Eskifirði. Ég hef siglt á kajak um firðina, veitt fisk og gengið eftir földum slóðum. Ég hef skemmt mér á tónlistarhátíðinni Bræðslunni og fallið í stafi yfir ljóslistaverkum á List í ljósi. Ég hef fengið stutt ofsahræðslukast við að keyra í gegnum Oddsskarðsgöng, verið dáleidd af steinunum hennar Petru og borðað yfir mig á kökuhlaðborðinu á Skriðuklaustri. Mig langar að gera þetta allt saman aftur og hvet aðra til þess að gera þetta líka.
Ég hef enn ekki séð hreindýr (og ekki Lagarfljótsorminn heldur) en hlýt að gera það fljótlega. Ég hef þá allavega afsökun fyrir að koma aftur.
Textinn er eftir hina áströlsku Carolyn Bain. Hún skrifar um ferðalög sín og hefur heimsótt Skandinavíu reglulega í næstum 30 ár. Hún hefur skrifað fjölda ferðahandbóka og greina um áfangastaði um allan heim m.a. fyrir Lonely Planet og BBC Travel. Henni þykir ákaflega vænt um Ísland.
Mynd: Rhombie Sandoval.