Innrás listarinnar í Neskaupstað

Frá því um miðjan júlí hefur listaverkefnið Art Attack staðið yfir í Neskaupstað með komu listamanna af ýmsum toga til dvalar í Þórsmörk, þar sem Listasmiðja Norðfjarðar hefur verið til húsa. Við ræddum við teiknarann Rán Flygenring sem er einn þeirra fjölmörgu listamanna sem sótt hafa bæinn í heim í nafni verkefnisins.

Það er vikublaðið Austurland sem segir frá verkefninu í síðasta tölublaði og saga verkefnisins er rakin en afrakstur Art Attack má sjá í ýmis konar listaverkum sem finna má hér og þar í Neskaupstað. Þar segir líka frá forsögu verkefnisins m.a. að það hafi verið hópur listamanna í Neskaupstað sem unnið hafi að endurbótum á Þórsmörk síðustu ár. Á efri hæðinni hafi verið útbúin fimm svefnherbergi en á neðri hæð sé eldhús og þrjár samliggjandi stofur.

Íbúasamtökin Bærinn okkar kom verkefninu á koppinn með Hákon Guðröðarson og Jónu Árnýju Þórðardóttur í broddi fylkingar. Listrænn stjórnandi er Karna Sigurðardóttir, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar, en verkefnið er styrkt af SÚN, Fjarðabyggð, Síldarvinnslunniog Hótel Hildibrand, auk þess sem fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar hafa lagt hönd á plóg með ýmis konar aðstoð.

Meðal þeirra fjölmörgu listamanna sem dvalið hafa í Þórsmörk er teiknarinn Rán Flygenring sem dvaldi í Þórsmörk ásamt sambýlismanni sínum og ljósmyndaranum Sebastian Ziegler. Rán er grafískur hönnuður að mennt en hefur starfað sem teiknari síðan hún útskrifaðist og hefur reyndar vakið talsverða athygli sem slíkur. Hún heyrði af Art Attack í gegnum Daníel Byström, Austfirðingum að góðu kunnur, en hann hefur í nokkur ár verið ein aðalsprautan í verkefninu Áfangastaðurinn Austurland.

Rán segir það hafa verið skemmtilegt að taka þátt í Art Attack: „Það getur fylgt því mikil einvera að starfa sem teiknari og það var því tilbreyting fyrir mig að búa í húsi með öðrum listamönnum og svo fannst mér þessi samfélagsvinkill líka spennandi,“ segir hún og hrósar Þórsmörk í hástert. Rán hefur unnið að mjög fjölbreyttum verkefnum á sínum ferli og í Neskaupstað bjó hún til „passarissukassa“ sem hún lýsir sem „passamyndakassa með tvisti“ en sjá má mynd af honum hér til hliðar. Papparissukassinn fór á milli staða í bænum og gestir og gangandi gátu farið í „teiknimyndatöku“.

„Þýðingu verksins mætti túlka á ýmsa vegu,“ segir Rán. „Þetta er list í almannarými og interaktív í eðli sínu, fólk laðast að verkinu en finnst það á einhvern hátt óþægilegt líka. Yfirleitt þykir þó öllum afar eftirsóknarvert að eignast af sér teiknaða mynd. Í gegnum kassann verða svo ekki bara til myndir af einstaklingum, heldur mynd af samfélagi. Þá má líka skoða þetta sem endurskoðun á portrettinu sem listformi, klassískara mótív finnst varla í listasögunni, en verkið mitt gerir ráð fyrir að myndin verði til á innan við mínútu þannig að þetta er svona einskonar „fast food“-útgáfa af því. Þetta rímar við það sem ég verið að fást við síðustu ár, að fanga augnablik.“

Passarissukassi Ránar er nú kominn í pásu, en hún stefnir að því að ferðast með hann um Austurland næsta sumar.

Rán segir veruna í Neskaupstað hafa verið vel heppnaða en hún dvaldi í mánuð frá 15. ágúst til 15. september. „Já, það hefur verið alveg dásamlegt að vera í Norðfirði, ég lýg engu til um það. Okkur var vel tekið alls staðar og átta mánaða sonur minn var hrókur alls fagnaðar meðal morgunpottormanna í sundlauginni og leystur út með gjöfum. Það var líka áberandi hvað bæjarbúar voru jákvæðir gagnvart verkefninu og heilt yfir fann ég fyrir metnaði og áhuga hjá þeim fyrir menningarstarfi.“

Ljósmyndir: Sebastian Ziegler

Texti: Austurland.is

Heimildir: Austurland 

Lesa nánar