Tónlistarmiðstöð Austurlands

Tónlistarmiðstöð Austurlands var stofnuð 2001. Tónleikasalur miðstöðvarinnar á Eskifirði er vinsæll til tónleikahalds af flestum toga. Tónlistarmiðstöðin er vel tækjum búin og hljómburður í húsinu er frábær en hönnun byggingar skapar sjón- og hljóðræna nánd milli flytjenda og tónleikagesta. Húsið er einnig afar hentugt til ýmiskonar sýningahalds, hvers kyns ráðstefna og funda.

Tónlistarmiðstöð Austurlands er líka miðstöð tónlistar á Austurlandi og var með samning við SSA um þróun tónlistarstarfs til ársloka 2019 en þá tók Menningarstofa Fjarðabyggðar við samningnum um tónlistaruppbyggingu á Austurlandi. Starfsemi Tónlistarmiðstöðvarinnar er þar af leiðandi ekki bundin við húsið á Eskifirði eitt og sér þar sem Menningarstofa Fjarðabyggðar fer í dag fyrir starfseminni og heldur utan um tónlistartengda viðburði.

Mikil þekking á íslensku tónlistarlífi er til staðar innan veggja Tónlistarmiðstöðvarinnar og starfsfólk sinnir ríkulega þeirri skyldu sinni að vinna að nýjum verkefnum á tónlistarsviðinu og miðla upplýsingum til samfélagsins. Menningarstofa Fjarðabyggðar leggur mikið upp úr góðu samstarfi við þá sem koma að menningarstarfi á Austurlandi og styður vel við skipulag og framkvæmd viðburða, ekki síst á sviði fræðslu. Tónlistarfólk nýtur góðs af reynslu og þekkingu starfsmanna og stendur til boða leiðsögn og ráðleggingar vegna tónleikahalds sem og aðstoð við markaðsmál og kynningu viðburða.

MEÐAL HELSTU VERKEFNA

  • Tónleika- og viðburðahald
  • Fræðsla og þróunarstarf með börnum og fullorðnum
  • Stuðningur við grasrótina
  • Þekkingaruppbygging og ráðgjöf