Stöðfirðingasaga: Nokkrar blaðsíður ritaðar framan við Landnámu
Á síðustu árum hafa farið fram umfangsmiklar fornleifarannsóknir á Stöðvarfirði sem nú þegar hafa haft áhrif á skilning okkar á Íslandssögunni en fornleifar sem þar hafa fundist eru frá því snemma á 9. öld. Stöðfirðingurinn Björgvin Valur Guðmundsson fjallar hér um rannsóknina og segir frá því helsta sem menn hafa uppgötvað en ljóst er að saga landnáms á Íslandi er eldri en menn hafa hingað til talið.
Það er ómögulegt að vita hversu mörg þau hafa verið sem stigu á land úr fyrstu skipunum sem komu til Stöðvarfjarðar um árið 800; voru þetta eingöngu karlar í fyrstu, hvað voru margir þrælar í hópnum og hvaðan komu þau? Hvað hétu þau, komust allir klakklaust yfir hafið sem lögðu af stað í leiðangurinn, komust veiðimennirnir aftur heim með afurðir sumarsins?
Svo reynt sé að svara spurningunni um uppruna fólksins, þá er nær öruggt að um norrænt fólk er að ræða og líklegast er að þau hafi komið frá Noregi en kannski í gegnum Skotland þar sem norrænir menn réðu um tíma lögum og lofum. Eflaust hafa verið þrælar með í för sem kannski áttu uppruna sinn á Bretlandseyjum.
Ýmislegt er þó vitað nú þegar um þetta fólk, en rannsóknir Dr. Bjarna F. Einarssonar og hans vösku sveitar á hinum fornu rústum í Stöð, hafa leitt í ljós að þar hefur staðið skáli stærri en aðrir sem rannsakaðir hafa verið á Íslandi. Það er auðvelt að álykta sem svo að þarna hafi verið margt um manninn því það reisir enginn 44 metra langan og 12 metra breiða skála einn síns liðs. En svo var hann kannski reistur í áföngum og varð ekki svona stór fyrr en eftir einhver sumur.
Í Stöð eru tveir skálar. Sá yngri er frá þeim tíma sem sagan segir okkur að landnámsmenn hafi komið til til Íslands og er sá skáli augljóslega íverustaður höfðingja því þar hafa fundist margfalt fleiri perlur en í nokkru öðru húsi á Íslandi frá þessum tíma, 148 eru þær orðnar. Þar hefur líka fundist mynt alla leið frá Arabíu og víðar sem og gangsilfur en það var silfur sem var brætt og notað sem gjaldmiðill eftir vigt. Tveir skutlar og einn vaðsteinn benda ótvírætt til þess að þarna hafi fólk veit hval og sel en það er lítið um dýrabein enn sem komið er og það mun vera vegna þess að jarðvegurinn þarna varðveitir lífræn efni afar illa.
Í yngri skálanum bjó semsé ríkt fólk, væntanlega heilu fjölskyldurnar sem settust að í Stöð; þar hafa verið karlar konur og börn, búfénaður og gæludýr. Í sumar fannst soðhola en í þeim var soðinn matur. Þær voru grafnar ofan í jörðina, fóðraðar með einhverju þéttiefni eins og ösku eð leir og fylltar af vatni. Síðan voru settir ofan í þær heitir steinar og kjöt, vatnið sauð og kjötið eldaðist. Það voru tekin sýni úr soðholunni og nú er beðið eftir niðurstöðum úr DNA rannsókn sem vonandi segir okkur hvaða dýr húsmæðurnar í Stöð voru að elda á landnámsöld.
En undir þessum ríkmannlega skála er annar stærri og eldri. Sá er afar stór og segja gárungar hann vera stærsta hús sem byggt hefur verið á Stöðvarfirði. Það er reyndar ekki fjarri lagi, hann er örugglega í hópi þeirra tíu stærstu. Kenning Dr. Bjarna segir að það hafi verið skáli veiðimanna sem höfðust við í Stöð ákveðinn tíma árs og unnu afurðir úr gnægtarbúri íslenskrar náttúru. Líklega hafa þetta verið útsendarar höfðingja sem komu svo heim til Noregs með skip sín hlaðin selspiki, lýsi, söltuðu kjöti eða hverju því sem þeir sóttust eftir hér.
Þarna kunni fólk líka að slá eggáhöld úr steini en fram til þessa hefur verið talið að sú kunnátta hefði verið glötuð norrænum mönnum á þessum tíma, öllum nema Sömum sem gæti þá bent til þess að Sami eða Samar hafi verið með í för. Nú, eða kunnáttan var enn á allra færi, öfugt við það sem áður var haldið. Þetta er skemmtilegt í ljósi þess að nú á dögum er Stöðvarfjörður þekktastur fyrir hið heimsfræga Steinasafn Petru.
Tilvist þessa skála leiddi svo til fastrar búsetu, kannski ekki í beinu framhaldi, heldur stóð hann ef til vill auður í einhver ár og fór að láta á sjá en fólk vissi af honum og kom einn góðan veðurdag og byggði sér nýjan skála upp úr honum, ef til vill úr sama efni en þó ekki meira en svo að veggir hans sjást ennþá, sem og gólf og langeldur.
Núna undir lok sumars hafa svo fundist fleiri mannvistarleifar austan við skálana en það á eftir að skera úr um hvað þar hefur staðið en að öllum líkindum voru það hús af einhverri gerð; kannski hús þar sem afurðir voru unnar eða íverustaður þræla eða vinnufólks. Það kemur ekki í ljós fyrr en eftir einhver ár því verkið vex sífellt að umfangi og vinnst hægar því fáir vilja leggja svona verkefni lið fjárhagslega.
Stöðfirðingar eru afar stoltir af þessu og þannig trúi ég að sé farið um flesta Austfirðinga; þarna er verið að skrifa nokkrar blaðsíður framan við Landnámu en við sem hér búum höfum gjarnan talað um hversu rýr okkar hlutur í fornbókmenntunum er og hafa m.a. útskýrt það með því hversu friðsamir Austfirðingar voru til forna. Þessi fornleifafundur rennir stoðum undir þá kenningu vegna þess að þarna hafa engin vopn eða önnur áhöld til stríðsrekstrar fundist, heldur bendir allt til þess að þarna hafi fólk farið með friði.
Að lokum viljum við þakka þeim sem lagt hafa okkur lið fjárhaglsega og þá fyrst og fremst Alcoa Fjarðaáli, Fjarðabyggð og Uppbyggingasjóði Austurlands.
Texti og myndir: Björgvin Valur Guðmundsson.
Myndatextar:
Mynd 1 (efsta myndin til hægri): Fjöldi perla hefur fundist greftrinum. Þessi minnir á lítið tannhjól.
Mynd 2: Tvöföld, silfurhúðuð perla.
Mynd 3: Þessi steinn er með einhverskonar rissi. Ef til vill skissa af útskurði eða jafnvel mylluspil. Hvur veit?
Mynd 4: Grafið í langeldinn. Þarna eru fleiri en einn langeldur, líklega eru þeir þrír frá mismunandi tímum. Nær okkur eru dyr að yngri skálanum en fjær eru dyr að þeim eldri. Þær dyr eru með þeim breiðari sem fornleifafræðingarnir hafa séð.
Mynd 5: Horft eftir skálanum frá vestri til austurs.
Mynd 6: Annar tveggja skutla sem fundist hafa í Stöð (Mynd: Atli Rúnarsson)