Arkitektúr

Arkitetkúr er líklega ekki það sem kemur fyrst upp í hugann þegar hugsað er um Austurland. Svæðið er þekkt fyrir stórbrotna náttúru og sjarmerandi sjávarpláss með litskrúðugum gömlum húsum. Á síðustu árum hafa hins vegar nýjar perlur risið á Austurlandi sem eru vel þess virði að skoða.

Þjónustuhús við Stórurð

Þjónustuhús við Stórurð – Vatnsskarð Eystra

Þegar ráðist var í uppbyggingu á göngusvæði Stórurðar og Dyrfjalla var ákveðið að byggja um leið þjónustuhús fyrir svæðið. Þessi uppbygging svæðisins styrkir sjálfbæra ferðamennsku í formi gönguferða á ferðamannasvæði sem þolir meiri nýtingu, eykur öryggi ferðamanna, eflir lýðheilsu, stuðlar að náttúruvernd og eykur stolt heimamanna.

Húsið er hannað af arkitektinum Erik Rönning Andersen. Hönnunin er frumleg og stílhrein, og greinilega innblásin af Dyrfjöllunum. Áhersla var lögð á að byggingin væri umhverfisvæn og þyrfti lítið viðhald og endurspeglast þetta í einföldu efnisvali. Byggingin er hógvær og einföld en þjónar hlutverki sínu vel í mikilli sátt við umhverfið. Húsið er samsett úr tveimur aðskildum smáhýsum; annað hýsir salerni en hitt upplýsinga- og útsýnisrými.

Staðsetning

Hafnarhólmi. Ljósmynd: María Hjálmarsdóttir

Hafnarhólmi – Borgarfirði Eystri

Við Hafnarhólma á Borgarfirði Eystri stendur glæsilegt aðstöðuhús sem tekið var í notkun árið 2020. Þar hafði lengi vantað aðstöðu fyrir sjómenn og starfsmenn Borgarfjarðarhafnar en einnig fyrir þann gífurlega fjölda ferðamanna sem leggur leið sína út í Hafnarhólma til að skoða lundabyggðina. Borgarfjarðarhreppur ákvað því að efla til hönnunarsamkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands um aðstöðubyggingu fyrir svæðið.

Tillagan sem bar sigur úr bítum kom frá Anderson & Sigurdsson arkitektum. Húsið er er látlaust og fellur vel að umherfinu en hefur samt aðdráttarafl í sjálfu sér og fangar athygli ferðamanna.

Staðsetning

Tvísöngur. Ljósmynd: Aðalheiður Borgþórsdóttir

Tvísöngur

Tvísöngur er tónlistarskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne en listaverk Lukasar Kühne snúast um samspil rýmis og tíðni. Tvísöngur hluti af listaverkaröð sem fjallar um form tónlistar, listaverkið á Seyðisfirði tengist útilistaverkinu „Cromatico“ í Tallinn í Eistlandi sem byggt var árið 2011. Bygg­ing­ar­efni Tví­söngs er járn­bund­in stein­steypa. Það sam­an­stend­ur af fimm sam­byggðum hvelf­ing­um af mis­mun­andi stærð. Hæð hvelf­ing­anna er tveir til fjór­ir metr­ar en flat­ar­mál verks­ins í heild er rúmlega 30 m2.

Lukas Kühne býr í Berlín og Montevideo í Úrúgvæ, þar sem hann stjórnar deildinni „Form og hljóð“ í myndlistardeild Ríkisháskólans.

Staðsetning

Snæfellsstofa

Snæfellsstofa – Vatnajökulsþjóðgarður

Snæfellsstofa er gestastofa og upplýsingamiðstöð fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Hún opnaði árið 2010 og er fyrsta vistvænt vottaða byggingin á Íslandi samkvæmt BREEAM umhverfisstaðlinum. Snæfellsstofa var hönnuð af ARKÍS Arkitektum.

Form Snæfellsstofu er innblásið af eilífum sköpunarmætti jökulsins; hvernig hann ýmist brýtur sér leið eða hopar og sverfur nýjar, síbreytilegar náttúruperlur í landslagið.  Þessi sköpunarverk eru fyrirmyndin að þeim rýmum og formum sem finna má í Snæfellsstofu. Hvað varðar byggingarefni sækir Snæfellsstofa hughrif til Gunnarshúss; lerki í veggklæðningum, úthagatorf á þaki og hleðslur á lóð úr heimfengnu grjóti. Skammt undan eru miklir skógar sem verða sýnilegir í ásýnd
hússins. Lárétt og dálítið hallandi jarðlög (tertíer hraun) með áberandi skáskotnum berggangi
endurspeglast í meginásnum bæði í formi og efnis- og litavali. Byggingin nýtur sín einstaklega vel þar sem hún stendur í hlíðum Fljótsdalsins.

Staðsetning

Vök Baths

Vök Baths

Vök Baths stendur á bökkum Urriðavatns rétt fyrir utan Egilsstaði. Það má segja að Basalt Arkitektar, hönnuðir Vök Baths, séu sérfræðingar í hönnun baðstaða á Íslandi en aðrir baðstaðir sem þeir hafa hannað eru Bláa lónið, Jarðböðin við Mývatn og Sjóböðin á Húsavík.

Byggingin er lágstemmd og fellur einstaklega vel að umhverfinu enda er eins byggt sé inn í hól. Öll hönnun og ásýnd Vök Baths byggir á því að raska sem minnst upplifun um ósnortið umhverfi Urriðavatns. Austfirskt lerki var notað í tréverk á staðnum og er sjálfbærni rauður þráður í allri hönnun til að styðja við virðingu gesta fyrir náttúrunni.

Þrátt fyrir að Ísland sé þekkt fyrir jarðhita er Austurland skilgreint sem kalt svæði. Jarðhitinn í Urriðavatni uppgötvaðist þegar ákveðnar vakir héldu sér á vatninu sama hvernig frysti. Þær vakir eru innblásturinn fyrir heitu laugarnar, sem nú fljóta í vatninu og eru helsta kennimerki Vök Baths.

Staðsetning