Uppspretta

BRAS menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi var haldin í sjöunda sinn í ár. Nafn hátíðarinnar var Uppspretta og hefur fjölbreytta skírskotun. Uppspretta nýrra hugmynda , nýs samstarfs, nýrrar vináttu. Auk þess var lögð áhersla á að uppspretta gæti verið e.k. niðurstaða, þ.e. að upp spretti börn og ungmenni sem átti sig á hæfileikum sínum, sem þau uppgötva í eigin sköpun og þátttöku í listar- og menningarviðburðum. 

Framkvæmd

Hátíðin hófst í lok ágúst og síðustu viðburðir fóru fram í lok október. 

Verkefnastjóri BRAS hélt utan um skipulag og sá um samskipti milli listamanna og þeirra sem tóku við viðburðunum. Þeir fóru ýmist fram í skólum, úti, í almennum rýmum, söfnum, menningarmiðstöðvum og víðar og var góð dreifing viðburða í alla byggðakjarna á Austurlandi, góð dreifing í tíma (þ.e. viðburðir sköruðust nánast ekkert) og góð dreifing á aldri þátttakenda. 

Sérstaklega var óskað eftir þátttöku austfirskra listamanna eins og síðasta ár og gekk það vel. Það er mjög ánægjulegt að sjá að listafólk á svæðinu áttar sig á möguleikunum sem felast í því að stunda sína listsköpun í og við heimabyggð.  

Menningarmiðstöðvarnar þrjár buðu uppá sín stóru fræðsluverkefni, eins og til stóð skv. umsókn. Tónlistarmiðstöð Austurland bauð uppá verkefnið „Upphafið-Tónlistarferðalag í textum og tónum með Svavari Knúti“ og kynnti auk þess „Upptaktinn“ fyrir unglingum. Heimsókn TA var í alla grunnskóla á AL, nema tvo. Skaftfell bauð upp listfræðsluverkefnið „Trunt, trunt, tröll og allar aðrar landsins vættir!“ sem var hannað og kennt af Solveigu Thoroddsen listakonu, en hún byggði verkið á innblæstri úr þjóðsöguarfi og nærumhverfi þátttakenda. Verkefnið var í boði fyrir 8.-10. bekk, alls tóku þátt um 250 nemendur og allir skólar á AL, nema einn. Sláturhúsið og Minjasafn Austurlands voru í samstarfi með leiksýningu og minjasýningu um meistara Kjarval. Það verkefni var einnig í samstarfi við Borgarleikhúsið og List fyrir alla, auk þess sem nokkur fyrirtæki á Austurlandi styrktu verkefnið með því að greiða fyrir rútukostnað. Allir nemendur á miðstigi fengu tækifæri til að fara á sýninguna.  

Fjölmörg önnur verkefni voru í boði; Karítas Harpa heimsótti alla leikskólana með verkefnið Karítas og Krúsilíus, Tess og Carola buðu upp á tvær leiksýningar og smiðju um „Spiderweb and heritage“, Ráðhildur Ingadóttir var með Flæði vatns og form á Seyðisfirði, haldin voru diskótek á fjórum stöðum til að heiðra minningu Prins Póló, UngRiff og Bras buðu upp á tvær kvikmyndasmiðjur, Svakalega sögusmiðjan heimsótti alla skóla á vegum LFA og Bras bauð upp á opna smiðju í samstarfi við Minjasafnið og Bras styrkti Skjaldbökuna, kvikmyndaverkefni. Þá voru töfrasmiðjur í bókasöfnum Múlaþings, vikusmiðja í öllum grunnskólum Fjarðabyggðar og margt fleira. 

Þátttaka barna var almennt góð og kölluðu flestir viðburðirnir eftir virkri þátttöku barnanna og ungmennanna, t.d. með dansi, söng, listsköpum, samtali og ýmsu fleiru. 

Okkur tókst að fylgja verkáætlun mjög vel að öllu leyti nema einu. Ekki tókst að koma á samstarfi við Listaleypurin í Færeyjum, en það byggðist aðallega á tvennu. Það gekk ekki vel að ná sambandi við umsjónarkonu Listaleypurins og síðan kom í ljós að kostnaður við að fá færeyskt listafólk í heimsókn var mun hærri en gert hafði verið ráð fyrir í kostnaðaráætlun. Því var sú ákvörðun tekin að endurskoða þetta en þess í stað var Karítas Harpa fengin til að fara með verkefni í leikskólana, en lítið var í boði fyrir leikskólabörn þetta árið.  Ekki er þó útséð með einhvers konar samstarf við Færeyjar, en það þarf að skoða betur síðar.