Unga fólkið og umhverfið
BRAS menningarhátíð barna og ungmenna var haldin í fjórða sinn á Austurlandi haustið 2021. Að þessu sinni var þema hátíðarinnar Unga fólkið og umhverfið og voru einkunnarorð hátíðarinnar sem fyrr: Þora! Vera! Gera! Í því felst að börn á Austurlandi eru hvött til að þora að vera þau sjálf og framkvæma á eigin forsendum. Fjölbreytt listform voru nýtt til að stuðla að auknu aðgengi barna og ungmenna á Austurlandi að listum og menningu í heimabyggð. Taka þurfti tillit til alheimsfaraldurs, en með samstilltu átaki skólafólks, menningarfulltrúa sveitarfélaga, forstöðumanna menningarmiðstöðva og stofnana, stýrihóps og annarra sem að hátíðinni komu tókst að bjóða börnum og ungmennum upp á fjölbreytta list- og menningarviðburði í heimabyggð.
Framkvæmd
Í ár var þema BRAS Unga fólkið og umhverfið sem var valið í samráði við nýtt ungmennaráð. Auk þeirra var samstarf við Menningarstofu Fjarðabyggðar, Skaftfell, myndlistarmiðstöð Austurlands, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, grunn-, leik, mennta- og tónlistarskóla á svæðinu og List fyrir alla. Samfella í verkefninu hélst á milli ára og var unnið ofan á góðan grunn fyrri ára, en verkefnið þróað áfram. Líkt og fyrri ár var viðburðum skipt upp í lokaða og opna dagskrá. Lokaða dagskráin fór fram í skólum fjórðungsins í góðu samstarfi við skólastjórnendur en opna dagskráin fór fram víða og stóð öllum til boða að mæta á hana.
Lokuð dagskrá:
Hátíðin hófst formlega þann 6. september með leiksýningu fyrir unglinga í Múlaþingi og unglingar í Fjarðabyggð fengu sömu sýningu mánudaginn 9. september. Um var að ræða leiksýninguna Vloggið frá Þjóðleikhúsinu þar sem viðfangsefnin voru vináttan, forvarnir Youtube o.fl. Hver viðburðurinn af öðrum fylgdi í kjölfarið. Fjarðabyggð var með þrjár smiðjur fyrir unglingana í grunnskólum Fjarðabyggðar; Ritlistarsmiðju þar sem leiðbeinandi var Viktoría Blöndal skáld og sviðslistarhöfundur. Spunasmiðju þar sem leiðbeinandi var Ólafur Ásgeirsson leikari og hlaðvarpsgerðarsmiðju sem Lóa Björk Björnsdóttir sviðshöfundur stýrði.
Í Múlaþingi unnu nemendur á miðstigi verkefni um Valþjófsstaðahurðina í samstarfi við Minjasafn Austurlands, en þar fengu nemendur kynningu á myndmáli hurðarinnar og uppruna hennar. Auk þess fengu nemendur á miðstigi kennslu í Stopmotion þar sem þjóðsagnapersónur lifnuðu við.
Til stóð að leikhópurinn Miðnætti kæmi austur í haust og tæki þátt í BRASinu með leiksýningunni Geim-mér-ei en vegna heimsfaraldurs varð ekkert úr því. Þau dóu hins vegar ekki ráðalaus og sendu verkefnastjóra BRAS, hlekk með upptöku af sýningunni sem tekin var upp í Þjóðleikhúsinu og gáfu öllum leikskólum á Austurlandi aðgang. Skemmst er frá því að segja að þetta vakti mikla lukku og sáu langflest leikskólabörn sýninguna.
Menningarmiðstöðvarnar þrjár buðu upp á þrjú ólík verkefni. Menningarstofa Fjarðabyggðar/Tónlistarmiðstöð Austurlands bauð öllum leikskólabörnum uppá gagnvirka fræðsluverkefnið Það er kominn gestur. Jóhanna Seljan, ásamt undirspilara fór í leikskólana á Austurlandi og fræddi nemendur í gegnum tónlist og leiklist um íslenskar þjóðsögur á skemmtilegan hátt. Skaftfell bauð nemendum á miðstigi uppá listfræðsluverkefnið Skeyti til náttúrunnar en þar var unnið með morse kerfið og tíbetska bænafána. Listfræðsluverkefni Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs var Á bak við tjöldin en þar fengu börn í 2. og 3. bekk á Austurlandi tækifæri til að sjá hvað gerist á bak við tjöldin í leikhúsinu. Verkefnið var í samstarfi við Þjóðleikhúsið.
Nemendum Menntaskólans á Egilsstöðum stóðu til boða tvær smiðjur. Önnur var Túlkun er samtal en þar var unnið með samtal ungmenna á milli ólíkra staða þar sem þátttakendur notuðu listrænar aðferðir til að nálgast listræna sköpun hvers annars. Hin smiðjan gaf þátttakendum eina einingu og var þar um að ræða Framtíðarsmiðju um loftslagsmál. Það voru BRAS, ME, Landvernd og Íris Lind listmeðferðarfræðingur, sem sáu um smiðjuna en þar fræddust nemendur um loftslagsmál í gegnum ýmsar leiðir og í seinni hluta smiðjunnar unnu nemendur listrænar útfærslur á hugmyndum sínum um það hvernig framtíðin gæti litið út.
Opin dagskrá
Minjasafn Austurlands fær sérstakt hrós en starfsmenn þar hafa alltaf tekið virkan þátt í BRASinu. Boðið var uppá smiðju á Borgarfirði eystri sem nefndist Brasað á Lindarbakka en þar gafst gestum kostur á að nýta sjálfbæran umhverfisvænan og endurnýtanlegan efnivið í opnum leik með gullabú sem fyrirmynd.
Menningarstofa Fjarðabyggðar stóð fyrir fjölmörgum viðburðum, þar má nefna Húllafjör í Neskaupstað og Vinnusmiðju í Studio Silo á Stöðvarfirði, opin ritlistarsmiðja, klippimyndasmiðja o.fl.
Á Seyðisfirði, á vegum Skaftfell Art Center, fór fram listsmiðjan Stimpladýr en þar voru krakkarnir að teikna dýr, klippa og þrykkja.
Á Degi íslenskrar náttúru, þann 16. september gróðursettu 5. bekkingar á Austurlandi birkirtré sem Skógræktin í Hallormsstað gaf BRAS. Verkefnið var unnið í samstarfið við öll skógræktarfélög á Austurlandi og foreldrafélög í grunnskólum og náðist að gróðursetja trén í langflestum byggðakjörnunum.
Múlaþing og Fjarðabyggð buðu upp á opna smiðju sem kallast Fuglateiknistöðin. Fuglateiknararnir Rán Flygenring og Elín Elísabet Einarsdóttir voru með fölbreyttar stöðvar þar sem þátttakendur áttu t.d. að hraðteikna, teikna fugl eftir hljóði, vinna skúlptúr og ýmislegt fleira. Fjölmörg börn og forráðamenn tóku þátt.
Á Vopnafirði var haldin fjölþjóðleg listahátíð barna þar sem þjóðfánum allra barna á Vopnafirði var flaggað en þar búa börn af 10 ólíkum þjóðernum. Börnin voru búin að læra að telja upp á fimm á öllum tungumálunum, segja góðan daginn og velkomin til landsins. Þá unnu þau einnig listaverk og sungu lög á sjö tungumálum.
Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs bauð upp á opna brúðgerðarsmiðju í Sláturhúsinu og var smiðjan hluti af BRAS og einnig lokapunktur á pólskri listahátíð sem haldin var á sama tíma. Fjölmargir sóttu smiðjuna.
BRAS var í samstarfi við Landvernd í ár, m.a. í verkefninu sem fram fór í ME og síðan hvatti BRAS samfélagið alla íbúa til að safna birkifræjum en það er frábær leið fyrir fjölskyldur að eiga saman góða útiveru.