Verkefnisstjóri í stafrænni umbreytingu

Verkefnisstjóri í stafrænni umbreytingu – verkefnastjórnun og vefumsjón

Samband íslenskra sveitarfélaga leitar að tveimur framsýnum og metnaðarfullum verkefnastjórum til að starfa í nýju stafrænu teymi sveitarfélaganna á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Teymið mun vinna að framkvæmd sameiginlegra verkefna á sviði stafrænna umbreytinga. Annars vegar með áherslu á verkefnisstjórnun vegna þróunar sameiginlegrar þjónustulausna og þekkingarvefs og hins vegar vegna mótunar tæknistefnu og tæknistrúktúrs. Um er að ræða störf til tveggja ára og verður teymið leitt af leiðtoga stafræna teymisins.

Þeir sem ráðnir verða þurfa að hafa skýra sýn á þau tækifæri sem stafræn umbreyting felur í sér, frumkvæði, kraft og metnað til að hrinda breytingum í framkvæmd með góðum árangri. Þeir þurfa að búa yfir góðum samskipta- og samstarfshæfileikum, getu til að taka ákvarðanir og breiðri þekkingu sem nýtist í starfi. Mikil áhersla verður lögð á góða samvinnu innan teymisins, góðan starfsanda, traust, sjálfstæði og árangur.

 

Helstu verkefni

• Uppbygging rafræns upplýsingavettvangs fyrir sveitarfélögin sem felur í sér framsetningu efnis, miðlun og deilingu þekkingar og lausna sveitarfélaga sem og
verkefna og kóða fyrir sveitarfélögin í stafrænni umbreytingu.
• Byggja upp faglegt og skipulagt verklag fyrir samstarf sveitarfélaga og sameiginleg
verkefni þeirra og innleiðingu þvert á sveitarfélög.
• Þátttakandi í mati á forgangsröðun sameiginlegra verkefna sveitarfélaga í stafrænni
umbreytingu.
• Verkefnastjórnun sameiginlegra stafrænna verkefna sveitarfélaga og innleiðinga.
• Vinna að einföldum og snjöllum lausnum með hagsmuni allra sveitarfélaga að
leiðarljósi.
• Þátttakandi í ávinningsmati og forgangsröðun sameiginlegra verkefna sveitarfélaga
í stafrænni umbreytingu.
• Fylgja eftir og miðla sjónarmiðum sveitarfélaga á sviði upplýsingatækni.
• Vinna að hagnýtingu þekkingar og lausna er snýr að stafrænni umbreytingu
í rekstri sveitarfélaga.
• Gerð fræðsluefnis til að greiða fyrir innleiðingu sameiginlegra verkefna og lausna.
• Stuðla með virkum hætti að auknu samstarfi sveitarfélaga og ríkis á sviði stafrænnar
þróunar.

Hæfnikröfur

• Háskólapróf skilyrði, meistarapróf er kostur eða reynsla sem nýtist í starfi.
• Þekking og reynsla af upplýsingatækni og stafrænni umbreytingu.
• Geta til að stýra verkefnum, setja upp skipulag og áætlanir og fylgja þeim eftir.
• Þekking og reynsla af faglegri verkefnastjórnun í stafrænni umbreytingu þar sem
margir hagaðilar koma að verkefnum.
• Framúrskarandi samskiptahæfni og geta til að koma skoðunum, upplýsingum og
röksemdarfærslum frá sér á skýran hátt.
• Geta til að byggja upp, hanna og viðhalda vef með faglegri framsetningu upplýsinga
og gagna.
• Frumkvæði og metnaður til að ná árangri.
• Mjög góð færni í ræðu og riti á íslensku og ensku, ásamt kunnáttu í einu
Norðurlandamáli.

 

Frekari upplýsingar um starfið
Samband íslenskra sveitarfélaga er framsækinn vinnustaður sem býður upp á opið vinnuumhverfi og samheldinn starfsmannahóp. Umsækjendum er bent á að frekari upplýsingar um Samband íslenskra sveitarfélaga eru á vefsíðunni, www.samband.is. Þar er einnig að finna nánari starfslýsingu sem og mannauðsstefnu sambandsins.

Sérstaklega er vakin athygli á því að þeir sem ráðnir verða geta haft starfsstöð utan höfuðborgarsvæðisins á einhverjum af þeim starfstöðvum sem Byggðastofnun hefur kynnt
fyrir störf án staðsetningar, og má finna á vefsíðu stofnunarinnar eða sambærilegri aðstöðu.
Umsækjendur eru beðnir um að tilgreina ósk um starfsstöð utan höfuðborgarsvæðis í umsókn sinni. Sambandið mun í því tilviki gera samning við ábyrgðaraðila viðkomandi starfsstöðvar um notkun hennar í þágu starfsins. Starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu er á skrifstofu sambandsins að Borgartúni 30. Umsókn skal fylgja ítarleg starfsferilsskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið.

Umsóknir, merktar Umsókn um starf – verkefnastjórnun og vefumsjón eða Umsókn um starf – tæknistefna og tæknistrúktúr, berist eigi síðar en 28. febrúar nk. til Sambands íslenskra sveitarfélaga,
Borgartúni 30, pósthólf 8100, 128 Reykjavík, eða á netfangið [email protected].