Réttur til áhrifa
BRAS 2020
BRAS menningarhátíð barna og ungmenna var haldin í þriðja sinn á Austurlandi haustið 2020. Að þessu sinni var þema hátíðarinnar Réttur til áhrifa og voru einkunnarorð hátíðarinnar sem fyrr: Þora! Vera! Gera! Í því felst að börn á Austurlandi eru hvött til að þora að vera þau sjálf og framkvæma á eigin forsendum. Fjölbreytt listform voru nýtt til að stuðla að auknu aðgengi barna og ungmenna á Austurlandi að listum og menningu í heimabyggð. Að þessu sinni þurfti að breyta töluvert út frá skipulagi hátíðarinnar vegna alheimsfaraldurs, en með samstilltu átaki skólafólks, menningarfulltrúa sveitarfélaga, forstöðumanna menningarmiðstöðva og stofnana, stýrihóps og annarra sem að hátíðinni komu tókst að bjóða börnum og ungmennum upp á fjölbreytta listar- og menningarviðburði í heimabyggð.
Framkvæmd
Í ár var þema BRAS „Réttur til áhrifa“ sem var valið í samráði við nýtt ungmennaráð sem kom að borðinu strax eftir áramótin. Unga fólkinu fannst mikilvægt að 12. grein Barnasáttmálans yrði lögð til grundvallar að þessu sinni og var stýrihópurinn sammála því. Auk nýs ungmennaráðs var samstarf við Menningarstofu Fjarðabyggðar, Skaftfell, myndlistarmiðstöð Austurlands, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, grunn-, leik- og tónlistarskóla á svæðinu og List fyrir alla. Samfella í verkefninu hélst á milli ára og var haldið áfram að byggja ofan á þann grunn sem þegar hefur verið lagður. Ekki var síður lögð áhersla á að þróa verkefnið áfram og koma með nýjar áherslur. Líkt og árið 2019 var viðburðum skipt upp í lokaða og opna dagskrá. Lokaða dagskráin fór fram í skólum fjórðungsins í góðu samstarfi við skólastjórnendur en opna dagskráin fór fram víða og stóð öllum til boða að mæta á hana.
Hátíðin hófst í kringum 10. september og henni lauk um miðjan október. Hæst reis hún í vikunum 21. september – 4. október en þessar tvær vikur var fjöldi viðburða í boði í skólum en auk þess voru margar opnar smiðjur og sýningar í boði fyrir alla aldurshópa. Stærsta frávikið frá skipulagi hátíðarinnar var að ekki var haldinn Hápunktur, eins og til stóð. Fyrirhugað var að halda uppskeruhátið 26. september í Fjarðabyggð, sambærilega þeirri sem haldin var á Fljótsdalshéraði í september 2019. Vegna sóttvarnarreglna tengdum alheimsfaraldri þótti forsvarsmönnum BRAS ekki forsvaranlegt að safna saman fjölda manns á einn stað. Til þess að leysa það mál var ákveðið að taka þá viðburði sem búið var að festa á Hápunktinum og dreifa þeim vítt og breitt um fjórðunginn. Þannig náðist að bjóða upp á alla viðburði sem áttu að fara fram á Hápunktinum, en á nýjum stöðum og með öðru sniði. Þannig voru sirkuslistamennirnir í Hringleik með þrjár sýningar, á Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði og á Vopnafirði. Rákir – fjöllistahópur bauð uppá fjórar smiðjur, tvær á Reyðarfirði og tvær á Seyðisfirði og Komedíuleikhúsið sýndi leikritið Iðunni og eplin á Djúpavogi og Borgarfirði eystri. Þessu til viðbótar fóru Rákir inn miðstig í öllum grunnskólum á Austurlandi á vegum Listar fyrir alla utan Vopnafjarðarskóla, en þangað fór Kómedíuleikhúsið.
Í opnu dagskránni má nefna gagnvirku danssýninguna SPOR frá leikhópnum Bíbí og Blaka sem var með þrjár sýningar fyrir leikskólabörn, yngri bekki grunnskóla og foreldra í Fjarðabyggð. Sýningin fór fram í Valhöll á Eskifirði. Þá var Derringur með smiðju og sýningu á Fljótsdalshéraði, Árnastofnun var með „Pop Up“ viðburð í Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, vinnusmiðja í hljóðupptöku var í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði, Menningarstofa Fjarðabyggðar bauð upp á skapandi skrif og í Herðubreið á Seyðisfirði var boðið upp á listsmiðjuna „Marghliða form/Margflötungar“ og Sólarprent sem er skapandi og umhverfisvæn listsmiðja. Á Seyðisfirði var einnig boðið upp á danssmiðju og sýningu á myndskreytingum úr nýrri bók Jóns Pálssonar. Minjasafn Austurlands bauð í bókamerkjasmiðju og ýmislegt fleira. Þá var sérstök opnun í Tankinum á Djúpavogi fyrir börn og forráðamenn á sýninguna „Fly me to the moon“.
Ekki má gleyma fræðsluverkefnum menningarmiðstöðvanna þriggja. Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs bauð unglingum á sérstaka skólasýningu á leikverkinu Sunnifa, Menningarstofa Fjarðabyggðar kynnti verkefnið Upptaktinn og fylgir því eftir fram á næsta ár og Skaftell bauð upp á Húsapúsl, listfræðsluverkefni. Minni þátttaka var í fræðsluverkefnum en til stóð vegna heimsfaraldurs en forstöðumenn hafa verið mjög lausnamiðaðir í því að hugsa hvernig hægt er að bregðast við og má sem dæmi nefna að Skaftfell vinnur nú að því að gera sitt fræðsluverkefni rafrænt þannig að hægt sé að koma því í sem flesta grunnskóla.
Stóru sveitarfélögin tvö á Austurlandi; Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð unnu út frá sínum menningarstefnum og buðu fjölbreyttar smiðjur inn í grunn-, leik- og tónlistarskólana í sínum byggðakjörnum. Einhverjum af þeim smiðjum hefur þó verið ýtt inn í skólaárið og vonast stjórnendur þar til þess að hægt verði að klára þær allar á þessum vetri.
Útkoma varð því að einhverju leyti önnur en lagt var upp með en þó verður að segjast að með samstilltu átaki stýrihóps, skólastjórnenda, forstöðumanna menningarmiðstöðva og annarra sem að hátíðinni koma tókst að koma langflestum viðburðum í framkvæmd með þó öðrum útfærslum en upphaflega stóð til.