Gatan sem sló í gegn

Vel heppnuðu Mannamóti lauk í gær þar sem ferðaþjónustan á landsbyggðinni kynnti sig fyrir gestum og vöktu athygli á þeirri miklu grósku sem þar er að finna. María Hjálmarsdóttir hjá Austurbrú segir mikinn samhug hjá Austfirðingum og að samheldni þeirra hafi vakið athygli gesta

Eins og sagt hefur verið frá er Mannamót árleg ferðasýning haldin í flugskýli flugfélagsins Ernis í Reykjavík. Yfir tvö hundruð sýnendur tóku þátt að þessu sinni, þar af tuttugu og sex frá Austurlandi en aldrei hafa jafn margir komið að austan á Mannamót.

Sameiginleg útlit sem prýðir svæði Austurlands á sýningunni vakti að venju mikla athygli en þetta er ágætis tákn um hvað ferðaþjónustan eystra hefur náð góðum árangri í samvinnu á síðustu árum, meðal annars fyrir tilstilli verkefnisins Áfangastaðarins Austurlands sem grundvallað er á þeirri forsendu að fólk vinni saman að eflingu landshlutans sem áfangastaðar og búsetukosts.

Það vakti athygli að undir lok sýningardags, til að toppa daginn og gleðja gesti, var breitt úr mottu í öllum regnbogans litum, hönnun innblásin af „Regnbogagötunni“ á Seyðisfirði sem óhætt er að segja að hafi vakið gríðarlega athygli á síðustu tveimur árum. Hefur m.a. verið notuð í markaðsefni hjá Inspired by Iceland.

„Þegar við vorum að undirbúa sýninguna fór ég að hugsa um það sem stóð upp úr á síðasta ári,“ segir María Hjálmarsdóttir hjá Austurbrú.  „Og eitt af því sem einkenndi árið var hvað Regnbogagatan var vinsælt myndefni – það langvinsælasta á Austurlandi – og fólk virðist ekki yfirgefa Seyðisfjörð öðruvísi en að láta taka mynd af sér þarna. Við ákváðum því að gera gólfrenning sem á sinn skrautlega hátt dró að sér jákvæða athygli undir lok sýningarinnar, líkt og gatan gerir í raun og veru. Þetta sýndi í hnotskurn hvað þetta er góð hugmynd hjá Seyðfirðingum. Svo einfalt en um leið frumlegt og með gríðarlegt táknrænt gildi sem dregur fram fallegar mannlegar tilfinningar eins og samhug, samheldni, fordómaleysi og síðast en ekki síst ást og væntumþykju. Gatan vekur upp gleði hjá ferðamönnum en ekkert síður heimamönnum og það finnst mér vera lykillinn að góðum túrisma.“

Gatan sem máluð var og kallast nú í daglegu tali Regnbogagatan er í miðbæ Seyðisfjarðar. Elfa Pétursdóttir, Seyðfirðingur og starfsmaður hjá Austurbrú, segir þetta dæmi um einfalda „skítareddingu“ sem hafi hreinlega slegið í gegn:

„Upphaflega voru menn að tala um heilmiklar viðgerðir á götunni en svo var ákveðið að mála hana í öllum regnboganslitum í tengslum við Gay Pride eða Hýru halarófuna eins og við köllum þennan dag á Seyðisfirði. Hópur heimamanna tók sig til og reddaði þessu en enginn sá fyrir sér að viðbrögðin yrðu jafn jákvæð og raun ber vitni,“ segir Elfa og bætir við:

„Á sumrin sér maður endalausa traffík af fólki sem lætur taka myndir af sér á götunni. Nýgift fólk eða verðandi brúðhjón eru áberandi svo og venjulegir ferðamenn sem sjá strax hvað þetta er vel heppnað. Það að Bláa kirkjan sé svo við hinn enda götunnar gerir allt saman svo ofboðslega táknrænt og um leið áhrifamikið. Það skilar sér í vinsældum götunnar sem er hratt og örugglega að verða einn helsti „ljósmyndaáfangastaður“ landsins. Regnbogagatan er komin til að vera held ég að mér sé óhætt að segja.“

Hér til hliðar má sjá myndir frá sýningunni. Hinir glæsilegu sýningarbásar Austfirðinga og gólfrenningurinn fallegi voru framleidd hjá Sýningarkerfum og hönnun var í höndum Daniel Byström og Austurbrúar.

Lesa nánar