Ferskt hráefni er lykillinn

Fáir veitingastaðir á Austurlandi hafa vakið jafn mikla athygli og sushistaðurinn Norð Austur á Seyðisfirði. Þrátt fyrir að vera aðeins tveggja ára gamall hefur hann nú þegar komist á hinn virta og heimsþekkta „White Guide Nordic“ (Norræni veitingastaðalistinn) sem tiltekur athyglisverðustu og bestu veitingastaðina á Norðurlöndunum. Við höfðum samband við annan eiganda staðarins, Davíð Kristinsson, sem rekur staðinn ásamt vini sínum og mági Dýra Jónssyni, og ræddum við hann um eina sushistaðinn á Austurlandi, velgengnina, hráefnið og Seyðisfjörð.

Davíð hefur verið búsettur um nokkra hríð á Seyðisfirði með fjölskyldu sína en eiginkona hans, Diljá Jónsdóttir, er með tengsl til fjarðarins.

Hann er Akureyringur að uppruna en féll fyrir Seyðisfirði fyrir nokkrum árum þegar hann vann hjá Hótel Öldunni á meðan Listahátíð ungs fólks, LungA, stóð yfir. „Dýri, mágur minn, fékk mig til að koma en ég féll fljótlega kyrfilega fyrir staðnum,“ segir hann. „Við höfðum búið í Kaupmannahöfn þar sem ég vann við að reka diskótek og við höfðum náð góðum árangri í því en ég gat ekki sleppt tækifærinu þegar mér bauðst að lifa og starfa á Seyðisfirði. Það er eiginlega merkilega lítill munur á því að búa hér og í Kaupmannahöfn. Seyðisfjörður er lítill en á sama tíma svo stór,“ segir Davíð en hann býr í þorpinu ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum, þeim Galdri Mána og Vilja Degi.

Hröð velgengni

„Okkur langaði einfaldlega í gott sushi,“ segir Davíð aðspurður um tilurð Norð Austur en staðurinn opnaði formlega í júní 2015. „Við vildum hafa fjölbreyttari flóru veitingastaða hér á staðnum og á Austurlandi öllu. Við rekum nú þegar Nordic Restaurant, Skaftfell Bistro og svo bensínsjoppuna. Það vantaði bara sushistað.“

Strax frá byrjun var markið sett hátt. „Allir staðirnir okkar eru með háan standard,“ segir hann. „Og það er ekkert erfiðara eða tímafrekara að vanda sig í svona vinnu en að kasta til höndum og gera bara eitthvað. Við fórum þá leið að leita að kokkunum sem við vildum hafa á staðnum okkar fremur en að þeir fyndu okkur. Við fórum út og fundum japanska kokka sem okkur fannst vera réttir menn fyrir okkar stað.“

Það hefur ekki reynst ykkur erfitt að finna menn sem vildu leggja land undir fót og fara alla leið til Seyðisfjarðar að matreiða sushi?

„Nei, það var ótrúlega auðvelt. Þeir þekktu til Íslands, enda hefur það verið í tísku síðustu ár, og voru spenntir fyrir hráefninu okkar. Það var stór hluti ástæðunnar að þeir létu slag standa: Að komast í þessa íslensku matarkistu sem við erum svo heppin að eiga.“

Það er ekki ofsagt að reksturinn hafi farið vel af stað en sem fyrr segir komst staðurinn á „White Guide Nordic“-listann en þangað komast bara allra bestu og athyglisverðustu staðirnir á Norðurlöndunum og nær frægð listans reyndar langt út fyrir Skandinavíu. „Það var auðvitað mikill heiður að komast á þennan lista,“ segir Davíð en flestir staðirnir sem nefndir eru á listanum eru staðsettir í borgum og stórum bæjum, í það minnsta mun stærri samfélögum en Seyðisfirði þar sem íbúar eru tæplega 700.

„Við settum markið hátt í upphafi,“ segir Davíð „en kokkarnir okkar settu það enn hærra.“

Ferskt hráefni er lykillinn

„Það skiptir engu máli hvar þú ert með svona rekstur,“ segir hann. „Þetta snýst allt um metnað. Ef þú ert stoltur af því sem þú ert að gera og hefur áhuga getur þetta allt saman gengið. Það er ekkert erfiðara að eiga stað og vanda sig en að eiga stað og vanda sig ekki. Það tekur jafn mikinn tíma en tímanum er varið töluvert öðruvísi ef þú ert metnaðarfullur.“

Það háir ykkur sumsé ekki að vera á Seyðisfirði?

„Nei, alls ekki,“ svarar Davíð. „Það er svo mikil orka hérna í samfélaginu. Ég hef verið búsettur í Kaupmannahöfn og það er ekkert minni orka hér en þar. Og það hefur aldrei neinn sagt við okkur á Seyðisfirði að þetta sé ekki hægt. Það er kannski svolítið seyðfirskt viðhorf; að trúa á að ekkert sé ómögulegt.“

En hver er galdurinn við Norð Austur, hvers vegna hefur þetta farið svona vel af stað?

„Ferskt hráefni er lykillinn að þessu,“ segir hann. „Þessi íslenski fiskur er ofboðslega gott hráefni og til marks um það eru þessir japönsku kokkar, sem marga fjöruna hafa sopið, að missa sig yfir því. Þeir fá fiskinn beint úr hafinu, nánast spriklandi, og maður sér þá senda vinum sínum, sem starfa á veitingastöðum víðsvegar um heiminn t.d. í New York, ljósmyndir af honum. Nánast að monta sig af því að vera með betra hráefni en gengur á gerist á flottum veitingastöðum erlendis.“

Fiskinn fá þeir í næsta nágrenni frá bátum og trillum á Seyðisfirði en svo hafa þeir fengið fisk m.a. frá Djúpavogi, Reykjavík og víðar. „Það skiptir ekki máli hvaðan fiskurinn kemur svo lengi sem þetta er fyrsta flokks hráefni,“ segir Davíð og bætir við að í sumar muni þeir bjóða upp á austfirskt wasabi með sushi-inu en það er ómissandi meðlæti ásamt súrsuðum engifer. Það er austfirska fyrirtækið Wasabi Iceland sem framleiðir og eru fyrstu afurðirnar að koma á markað á þessu ári.

Aldrei upplifað aðra eins stemmningu

Þótt ferðamenn séu stór hluti af kúnnahópi Norð Austur segir Davíð það ánægjulegt hve Íslendingar séu duglegir að koma á staðinn. „Það er virkilega gaman hvað heimamenn, bæði Seyðfirðingar og Austfirðingar, eru duglegir að koma en svo líka aðrir Íslendingar. Hingað kemur fólk frá Akureyri, Reykjavík og víðar jafnvel eingöngu til að borða hjá okkur. Ég hef verið lengi í „bransanum“ en hef aldrei upplifað aðra eins stemmningu í kringum veitingastað,“ segir Davíð sem er spenntur fyrir sumrinu: „Við ætlum að fara með gesti okkar enn lengra inn í japanska eldhúsið og leyfa þeim að kynnast því betur.“

Lesa nánar