Metþátttaka hjá ferðaþjónustunni eystra
Metþátttaka er meðal austfirskra ferðaþjónustufyrirtækja á ferðasýninguna Mannamót 2018 sem hefst á fimmtudaginn. „Þetta sýnir að það er mikill hugur í ferðaþjónustunni á Austurlandi,“ segir María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri Áfangastaðarins Austurlands hjá Austurbrú.
Það eru Markaðsstofur landshlutanna sem standa fyrir ferðasýningunni Mannamót 2018 á fimmtudaginn í Reykjavík en þetta er í fimmta sinn sem sýningin er haldin. Tilgangurinn er að auka dreifingu ferðamanna um landið allt með því að mynda og efla tengsl á milli ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi en þrátt fyrir fjölgun ferðamanna til landsins á seinni árum eru enn mörg ónýtt sóknarfæri á landsbyggðinni og ferðaþjónustan þar í stakk búin að taka á móti fleiri gestum.
Á sýningunni kynna ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni sig fyrir ferðaþjónustuaðilum, ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum á höfuðborgarsvæðinu og segir María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri Áfangastaðarins Austurlands, það mikið gleðiefni að þátttaka austfirskra fyrirtækja hafi aldrei verið meiri en nú. „Það voru sautján austfirsk fyrirtæki sem tóku þátt í fyrra og við settum okkur það markmið að fá tuttugu fyrirtæki með í ár en niðurstaðan er sú að það eru tuttugu og sex austfirsk ferðaþjónustufyrirtæki skráð til þátttöku. Þetta sýnir að það er mikill hugur í ferðaþjónustunni á Austurlandi,“ segir hún og bætir við:
„Við höfum á síðustu árum mætt á sýninguna með sameiginlegt útlit sem Austurbrú hannar. Þannig komum við fram sem ein heild og ég get fullyrt að þetta sendir mjög jákvæð skilaboð til gesta á Mannamótum. Það er traustvekjandi fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að sjá að það ríkir mikill samhugur á milli fyrirtækja á Austurlandi og að ferðaþjónustan þar geti unnið sem ein heild.“
Hér til vinstri má sjá myndir sem sýna þetta sameiginlega útlit glögglega. Neðsta myndin sýnir hvernig þetta var fyrir nokkrum árum.
Eitt þeirra austfirsku fyrirtækja sem sýnir starfsemi sína á Mannamótum er Adventura frá Djúpavogi. Berglind Einarsdóttir er framkvæmdastjóri:
„Austurbrú hafði samband og hvatti okkur til að taka þátt,“ segir hún. ”Mér fannst þetta mjög áhugavert. Við erum með ungt fyrirtæki og erum að fara í fyrsta skipti á Mannamót. Ég geri mér auðvitað vonir um að þetta hafi jákvæð áhrif á okkar rekstur. Þarna sýnum við það sem við höfum fram að færa til réttra aðila.“
Sem fyrr segir eru tuttugu og sex austfirsk fyrirtæki skráð til leiks. Þetta eru: Veiðiþjónustan Strengir ehf, Hildibrand slf., Óbyggðasetur ehf., Havarí, Gistihúsið – Lake Hotel Egilsstadir, Hótel Bláfell, Hótel Aldan, Hótel Tangi, Tanni Travel, Móðir Jörð ehf., Hótel Eyvindará, Ferðaþjónustan Síreksstöðum, Jeeptours ehf., Ferðaþjónustan Mjóeyri, Blábjörg ehf., Ferðaþjónustan Álfheimar, Hótel Eskifjörður, Tinna Adventure, Adventura, Skorrahestar, Travel East, Hafaldan hostel, Laugarfell hostel, Hús handanna, Hótel Framtíð, 701 Hotels, Norðurljósahúsið.
Sýningin er haldin í flugskýli Flugfélagsins Ernis (vestan við Icelandair Hotel Natura) og hefst klukkan 12, fimmtudaginn 18. janúar. Allir eru velkomnir og við hvetjum sérstaklega fulltrúa fyrirtækja, stofnana og sveitarstjórnarfólk til að mæta.