„Alltaf hægt að gera betur“

Kormákur Máni Hafsteinsson, öðru nafni Kox, er ljósmyndari á Austurlandi og hafa myndir hans, oft á tíðum baðaðar kolsvörtum húmor, vakið athygli. Hann byrjaði að taka myndir um 25 ára aldurinn en á síðustu árum hefur áhuginn vaxið hratt og í dag starfar hann sem ljósmyndari í fullu starfi. Nýverið opnaði hann síðuna negative.is sem gefur góða mynd af manninum á bak við linsuna. Við slógum á þráðinn og lögðum fyrir hann nokkrar spurningar.

Hver ertu?

„Ég er fjögurra barna faðir og unnusti. Vinn sem ljósmyndari hjá Myndsmiðjunni á Egilsstöðum. Ættaður frá Borgarfirði eystri og Egilsstöðum.“

Hvers vegna tekur þú ljósmyndir?

„Þegar ég mynda fyrir sjálfa mig er það til að tæma hugann. Það er ekkert betra en að eyða tíma með skapandi  fólki. Kasta hugmyndum á milli og skapa eitthvað fallegt. Eitthvað spennandi. Svo get ég líka farið bara einn á röltið eða rúntinn með vélina og ekki spáð í neinu nema því sem mig langar til að gera. Það er ákveðið frelsi.“

Hvernig myndir þú lýsa þér sem ljósmyndara?

„Ég er svolítið í dekkri kantinum og það er ekki verra að hafa skvettu af húmor með. En ég vil fremur að fólk lýsi mér en að gera það sjálfur.“

Filma eða stafrænt?

„Filman alla leið. Hún hefur ákveðin karakter sem digitalinn hefur bara alls ekki. Það er eitthvað svo innilegt að mynda á filmu. En digitalinn – af praktískum ástæðum – nota ég meira í kreatívu skotin og í vinnunni.“

Hver er uppáhalds græjan þín?

„Það er gömul „medium format“ filmuvél. Pentax 67 heitir hún. Hún er með svo mikinn karakter sem ég er ástfanginn af. Það er erfitt að lýsa því.“

Sýndu okkur uppáhalds myndina þína og segðu okkur hvers vegna þú heldur upp á hana?

„Þær eru tvær. Myndin af Draumey (efst til vinstri) held ég mikið upp á. Þetta var ein af fyrstu tökunum með Pentaxinn. Notaði einungis náttúrulegt ljós sem kom í gegnum gluggann og svo er það Draumey sjálf sem gerir myndina af því sem hún er. Þegar maður myndar fólk er það ekki einungis ljósmyndarinn sem á að fá heiðurinn heldur fremur fólkið sem situr fyrir og gerir myndina sérstaka. Þetta er filmumynd sem ég framkallaði sjálfur inni á baðherbergi heima hjá mér. Og að geta tekið, framkallað, skannað eða farið í kompuna og búið til mynd alveg frá grunni, án Photoshop, er æðisleg tilfinning!“

Seinni myndin er af Friðriki félaga mínum, tekin úti á Héraðssöndum (til vinstri, í miðjunni). Mín hægri hönd í myndatökunni var Eiríkur Dúi sem hefur komið að mörgum myndatökum með mér og hjálpað mér á svo ótrúlega marga vegu. Að geta farið með vinum sínum eitthvað út og skapað svona öngþveiti er einfaldlega snilld. Kríurnar voru fengnar að láni hjá Gunna Badda frá Reyðarfirði. Það var einhver hörgull á þeim þegar myndatakan fór fram.“

Er gott að vera ljósmyndari á Austurlandi?

„Já, það má alveg segja það. Það er nóg að gera sem er alltaf gott. Það hefur verið mikið annríki hjá okkur upp á síðkastið; útskriftir, fermingar, brúðkaup og myndatökur í grunn- og leiksskólum fjórðungsins. Svona verkefni kalla á ferðalög um Austurland og það er alltaf gaman að hitta nýtt fólk.“

Hver eru markmiðin?

„Að verða betri og halda áfram að þróa minn stíl. Það er alltaf hægt að gera betur og gleðja aðra með skemmtilegum myndatökum.“

Lesa nánar