Fyrir hverja
Markhópar:
Eitthvað fyrir alla, sjálfstæði landkönnuðurinn, lífsglaði heimsborgarinn, náttúrunörd
Áherslur:
Kanna hið óþekkta, keyra með ströndinni, staðbundinn matur, gönguferðir, sundlaugar, saga, magnað útsýni , svartir sandar, gamlir torfbæir, gönguleiðir, litrík fjöll, hestaferðir
Hvaða búnað þarf til að fara þessa leið?
4x4 jeppa með að lágmarki 25 cm undir lægsta punkt, staðsetningartæk (síma- og netsamband er stopult)
Við ysta haf
Það er margt hægt að upplifa og skoða á við nyrstu strandir á Austurlandi. Við mælum með því að þið gefið ykkur að minnsta kosti þrjadaga í ferðina. Ef þið hafið ekki svo rúman tíma er alltaf hægt að velja eina eða tvær dagleiðir og koma aftur seinna. Athugið að vegurinn um Hellisheiði eystri er sumarvegur sem ekki er haldið opnum á veturna.
Hafa ber í huga að ef ykkur langar að gera allt sem við mælum með þá þurfið þið að gefa ykkur rýmri tíma. Sumar dagleiðirnar gera ráð fyrir akstri um svæði þar sem takmörkuð þjónusta er til staðar og því gott að vera við öllu búin. Einnig er oft um talsverðan akstur að ræða og því gott að vera búin að ákveða við hvaða áfangastaði á að stoppa svo þið verðið ekki dagþrota.
TILLAGA AÐ GÓÐUM DEGI –VOPNAFJÖRÐUR
Vopnafjörður er allbreiður flói milli Bakkaflóa og Héraðsflóa. Fyrir miðjum firði er Kolbeinstangi og þar stendur Vopnafjarðarkauptún. Vopnafjörður er einn af veðursælustu stöðum landsins, söguríkur, vinalegur og fagur fjörður sem gaman er að sækja heim. Þar er fjöldi möguleika til afþreyingar og útivistar og er svæðið þekkt sem ein mesta stangveiðiparadís landsins. Merktar gönguleiðir eru margar, fjölbreyttar og leiða á vit náttúruperla Vopnafjarðar.
Við mælum með því að hefja daginn á Minjasafninu á Bustarfelli sem stendur innarlega í Hofsárdal. Þar er einn af elstu og best varðveittu torfbæjum á Íslandi og er þar nú Minjasafn. Frá safninu er skemmtileg gönguleið að Álfkonusteini og örlítið ofar er fallegur foss sem heitir Þuríðarfoss. Í Hjáleigunni, þjónustuhúsi og kaffihúsi við safnið, má fá bækling með sögu gönguleiðarinnar.
Uppi á Bustarfellinu, fellinu fyrir ofan bæinn, er útsýnisskífa sem vísar á helstu fjöll og örnefni í kring. Frá útsýnisskífunni er frábært útsýni yfir Hofsárdalinn, sem er sögusvið Vopnfirðingasögu og í góðu skyggni má sjá Snæfell og Herðubreið. Hægt er að keyra að skífunni á góðum bíl. Þegar stoppað hefur verið á Bustarfelli er haldið áfram til Vopnafjarðar. Við mælum með því að stoppa á Hofi þar sem stendur falleg kirkja og hægt er að skoða minnisvarða um Vopnfirðingasögu en Hof er einn af aðalsögustöðum hennar.
Í miðju Vopnafjarðarkauptúni stendur menningar- og fræðasetrið Kaupvangur. Það er eitt af elstu húsum staðarins, byggt árið 1882. Þar má sjá líkan af miðbæ Vopnafjarðar eins og hann leit út um aldamótin 1900. Í Kaupvangi er nú rekið kaffihús og á annarri hæðinni er Vesturfaramiðstöð Austurlands til húsa auk áhugaverðrar sýningar um vesturferðirnar. Frá Kaupvangi er einnig upplagt að leggja í sögutengda gönguferð um þorpið.
Við mælum með því að kíkja á útsýnispallinn fyrir ofan þorpið þar sem fallegt útsýni er yfir Lónin, Skógalón innar og Nýpslón utar. Skemmtilegt er að ganga í fjöruborði Lónanna og fuglalíf er þar mjög mikið. Þess má geta að í Vopnafirði verpa yfir 50 tegundir fugla af þeim 75 fuglategundum sem verpa á Íslandi.
Þegar komið er til Vopnafjarðar er ekki hægt að sleppa því að fara í sund í Selárlaug en hana er að finna í Selárdal á bökkum einnar mestu laxveiðiár Íslands. Leitun er að jafn fagurri staðsetningu fyrir sundlaug enda er hún rómuð fyrir umhverfi sitt. Að sundferð lokinni farið þið aftur út á Vopnafjörð, en þar má finna veitingastaði og ýmsa aðra þjónustu.
TILLAGA AÐ GÓÐUM DEGI – VOPNAFJÖRÐUR TIL BORGARFJARÐAR UM HELLISHEIÐI EYSTRI OG VATNSSKARÐ
Nú skal halda frá Vopnafirði eftir vegi 917 í átt að Hellisheiði eystri (Hellisheiðin er bara opin á sumrin). Hægt er að stoppa við Gljúfursána en þaðan er merkt gönguleið niður að sjó, um Drangsnes. Rétt fyrir neðan bílastæðið við Gljúfursá er Gljúfursárfoss. Ef gengið er frá veginum upp með Gljúfursánni má sjá gömlu brúna yfir ána og hleðslur frá fyrstu brúnni sem byggð var um aldamótin 1900. Rétt fyrir utan Gljúfursána (um 500 metra) er Virkisvíkin. Þar blasa við litskrúðug setlög og stuðlaberg auk þess sem foss steypist í sjó fram af þverhníptum björgum.
Utar í firðinum eru Skjólfjörur en það er staður sem við mælum sérstaklega með því að skoða en örstutt ganga er ganga frá veginum niður í fjörurnar. Í sjónum rétt undan Skjólfjörunum stendur Ljósastapi, steindrangur sem Vopnfirðingar kalla gjarnan „Fílinn“. Utar í firðinum sést Búrið ganga í sjó fram en það er hluti Fagradalsfjalla og elsta megineldstöð á Austurlandi.
Nú liggur leiðin frá Vopnafirði yfir á Hérað um Hellisheiði eystri. Austan megin í Hellisheiðinni er gönguleið niður í Múlahöfn og Þerribjörg þar sem líparítið skartar sínu fegursta. Gönguleiðin er erfið og frekar löng, en vel fyrirhafnarinnar virði fyrir vana göngugarpa. Ekki gleyma að stoppa á útsýnisstaðnum austan megin í heiðinni en þaðan er útsýnið yfir Héraðssanda og Dyrfjöll dásamlegt þegar bjart er í veðri. Eftir útsýnisstundina haldið þið áfram brattan og hlykkjóttan veg niður í Jökulsárhlíð.
Rétt austan megin við brúna yfir Jöklu er beygt inn á veg 925 út Hróarstungu. Við mælum með stoppi á Geirstöðum í landi Litla-Bakka í Hróarstungu þar sem lítil falleg torfkirkja stendur. Kirkjan er eftirgerð bændakirkju sem stóð þar fyrir um 1000 árum.
Tillaga að útúrdúr: Hægt er að halda áfram að Húseyjarvegi og eftir honum út í Húsey sem er nauðsynlegur viðkomustaður fyrir náttúruunnendur. Þar eru skemmtilegar gönguleiðir og kjörið að njóta náttúrunnar en þar má sjá bæði fugla og seli.
Áfram er haldið í gegnum Hróarstungu um veg 927 og liggur leiðin þá að Galtastöðum en þar er uppgerður torfbær sem nú er í vörslu Þjóðminjasafnsins. Hann hefur þá sérstöðu umfram aðra torfbæi landsins að skarta fjósbaðstofu, þ.e. fjósið var undir baðstofunni til þess að ylurinn frá kúnum vermdi húsakynnin. Ferðamönnum er heimilt að skoða bæinn, að fengnu samþykki húsráðanda.
Áfram liggur leiðin um veg 925 yfir brúnna við Lagarfoss, framhjá Lagarfossvirkjun og þar með yfir á veg 944. Lagarfossvirkjunin dregur nafn af samnefndum fossi sem áður rann þar. Lagarfljót á upptök í Vatnajökli, Eyjabakkajökli, og nefnist þar Jökulsá í Fljótsdal. Eftir að hún fellur í Löginn, sem er 52 km² stöðuvatn, nefnist vatnsfallið Lagarfljót. Vatnasvið fljótsins fyrir ofan Lagarfoss er 2.800 km² og meðalrennslið að jafnaði um 115 m³/sek.
Af vegi 944 er beygt inn á veg 94 áleiðis til Borgarfjarðar eystri þar sem keyrt er meðfram Héraðssandi sem er ein lengsta svarta sandfjara landsins og ægifögur.
Við fjallsrætur er komið að gönguleiðinni í Stapavík sem er falleg vík norðan Héraðssanda. Í upphafi 20. aldar gegndi víkin mjög mikilvægu hlutverki sem verslunarstaður á Héraði. Í Stapavíkinni var vörum skipað upp alveg fram á sjötta áratug síðustu aldar. Gangan er frekar auðveld og tekur alls um 2 klst.
Þegar komið er upp á Vatnsskarð eystra er gott fyrir lofthrædda að anda djúpt því vegurinn hlykkjast niður brattar fjallshlíðarnar. Efst á Vatnsskarði er að finna þjónustuhús sem hannað er af arkitektinum Erik Rönning Andersen. Hönnunin er frumleg og stílhrein og greinilega innblásin af Dyrfjöllunum. Af bílaplani við þjónustuhúsið er mikilfenglegt útsýni yfir Héraðssandinn og yfir að Hellisheiði eystri í norðri.
Frá bílaplaninu er hægt að ganga í Stórurð sem er ein mesta náttúruperla Íslands en lengi vel var hún lítið sem ekkert þekkt meðal almennings. Undanfarin ár hefur hún notið sívaxandi vinsælda hjá göngufólki sem leggur á sig drjúga göngu til þess að skoða Stórurð og upplifa hrikaleik Dyrfjallanna í návígi. Stórurð er mynduð úr risavöxnum móbergs- og þursabergsbjörgum sem fallið hafa ofan á skálarjökul sem legið hefur við Dyrfjöll og má ennþá sjá leifar af honum undir hömrum fjallanna. Það eru fimm merktar gönguleiðir sem liggja að Stórurð: Frá Héraði, úr Njarðvík, frá Borgarfirði og tvær ofan af Vatnsskarði. Ganga í Stóruð er nokkuð löng og má gera ráð fyrir að minnsta kosti 6 klst. í ferðina.
Þegar degi hallar er dásamlegt að snæða á veitingastöðum á Borgarfirði, skella sér í spa eða hjólreiðatúr um bæinn, njóta miðnætursólarinnar og kyrrðarinnar.
TILLAGA AÐ GÓÐUM DEGI –BORGARFJÖRÐUR EYSTRI
Borgarfjörður eystri er eitt fegursta byggðarlag á landinu umvafið formfögrum og litskrúðugum fjallahring. Fjöllin þar eru með þeim elstu á Íslandi eða um 10-15 milljón ára gömul og má sjá þar annað stærsta líparítsvæði landsins. Bakkagerði er fallegt og áhugavert sjávarþorp, samsett af dreifðri byggð húsa sem öll bera sitt eigið nafn og hvergi er götunúmer að finna. Bakkagerði varð löggiltur verslunarstaður árið 1894 en fyrsta verslunarhúsið var reist þar ári fyrr. Íbúarnir eru gestrisnir og listfengir og standa árlega fyrir vinsælli tónlistarhátíð, Bræðslunni, auk þess sem enginn ætti að láta sumartónleikaröðina í félagsheimilinu Fjarðarborg fram hjá sér fara. Kirkjan er prýdd altaristöflu eftir Jóhannes Sveinsson Kjarval sem ólst upp á Borgarfirði.
Álfaborgin er sérkennileg klettaborg skammt innan við þorpið og er sagt að þar búi álfar og huldufólk, ásamt því að sagt er að drottning íslenskra álfa hafi þar aðsetur.
Í Hafnarhólma er aðstaða til fuglaskoðunar með eindæmum góð og er þar eitt besta aðgengi að lundavarpi á Íslandi og þó víðar væri leitað. Þar má einnig sjá fýl, ritu og æðarfugl auk annara tegunda sem dvelja í og við hólmann. Á undanförnum árum hefur Borgarfjarðarhreppur ásamt landeigendum lagt metnað sinn í að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn til fuglaskoðunar og útivistar við höfnina. Búið er að leggja göngupalla um hólmann, opna fuglaskoðunarhús auk þess sem nýtt og glæsilegt þjónustuhús var opnað árið 2020. Arkitektar hússins eru Andersen & Sigurdsson og hefur það hlotið mikið lof fyrir fallega hönnun.
Víknaslóðir eru skemmtilegt göngusvæði á milli Borgarfjarðar og Loðmundarfjarðar þar sem mætast fallegir firðir og víkur, líparítfjöll og glæsileg fjallasýn hvert sem litið er. Heimamenn hafa í mörg ár skipulagt og byggt upp gönguleiðir á Víkum sem flestir ættu að geta notið, allt eftir getu og áhuga. Gott gönguleiðakort fæst hjá þjónustuaðilum á Borgarfirði og hægt er að fá leiðsögn staðkunnugra um svæðið allt frá dagsferðum til nokkurra daga ferða þar sem hægt er að gista í skálum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.
Vel er hægt að dvelja nokkrar nætur á Borgarfirði og njóta náttúrunnar, gönguleiðanna og þjónustunnar. Á Borgarfirði er að finna ýmsa þjónustu og má þar fyrst nefna lítið og persónulegt kaupfélag í eigu heimamanna þar sem versla má allar helstu lífsins nauðsynjar og minnsta útibú Landsbankans. Fjölbreytt ferðaþjónusta er á staðnum, svo sem gistihús, heilsulind, veitingastaðir og kajak-og hjólaleiga.