Njótið náttúrunnar á Austurlandi
Markhópar:
Eitthvað fyrir alla, Sjálfstæði landkönnuðurinn, lífsglaði heimsborgarinn, Náttúrunörd
Áherslur:
Kanna hið óþekkta, keyra með ströndinni, staðbundinn matur, gönguferðir, sundlaugar, saga, magnað útsýni , svartir sandar, gamlir torfbæir, gönguleiðir, litrík fjöll, hestaferðir
Hvaða búnað þarf til að fara þessa leið:
4x4 jeppa með að lágmarki 25 cm undir lægsta punkt Staðsetningartæk (Síma og netsamband er stopult) Skófla
Náttúruleiðin
Það er margt hægt að upplifa og skoða í náttúru Austurlands. Við mælum með því að þið gefið ykkur að minnsta kosti fimm daga í ferðina. Ef þið hafið ekki svo rúman tíma er alltaf hægt að velja eina eða tvær dagleiðir og koma aftur seinna.
Athugið að ef ykkur langar að gera allt sem við mælum með þá þurfið þið að gefa ykkur rýmri tíma. Sumar dagleiðirnar gera ráð fyrir akstri um svæði þar sem takmörkuð þjónusta er til staðar og því gott að vera við öllu búin. Einnig er oft um talsverðan akstur að ræða og því gott að vera búin að ákveða við hvaða áfangastaði á að stoppa svo þið verðið ekki dagþrota.
Tillaga að góðum degi – Möðrudalur til Vopnafjarðarfjarðar
Við mælum með því að hefja daginn í Möðrudal á Fjöllum. Möðrudalur er á Möðrudalsöræfum og þar má sjá stórfenglegt landslag. Jörðin er ein sú víðfeðmasta á Íslandi og sú sem stendur hæst (469 metra yfir sjávarmáli). Í Möðrudal stendur skemmtileg lítil kirkja en hana reisti Jón Aðalsteinn Stefánsson bóndi til minningar um eiginkonu sína. Jón skreytti kirkjuna sjálfur að innan og málaði altaristöfluna. Kirkjan var vígð 4. september 1949. Frá Möðrudal er stutt í margar af fegurstu náttúruperlum landsins. Þeirra á meðal eru Askja, Kverkfjöll, Stuðlagil, Dettifoss og sjálf Herðubreið.
Næst liggur leiðin til Vopnafjarðar um Vopnafjarðarheiði og við mælum með því að þegar komið er niður af heiðinni sé farið um hina svokölluðu millidalaleið (veg 917) frá Vesturárdal yfir í Hofsárdal. Þar er komið að bænum Bustarfelli. Á Bustarfelli er einn af elstu og best varðveittu torfbæjum á Íslandi en hann er nú minjasafn. Frá safninu er skemmtileg gönguleið að Álfkonusteini, og örlítið ofar er fallegur foss sem heitir Þuríðarfoss. Í Hjáleigunni, þjónustuhúsi og kaffihúsi við safnið, má fá bækling með sögu gönguleiðarinnar.
Uppi á Bustarfellinu, fellinu fyrir ofan bæinn, er útsýnisskífa sem vísar á helstu fjöll og örnefni í kring. Frá útsýnisskífunni er frábært útsýni yfir Hofsárdalinn, sem er sögusvið Vopnfirðingasögu, og í góðu skyggni má sjá Snæfell og Herðubreið. Hægt er að keyra að skífunni á góðum bíl. Þegar stoppað hefur verið á Bustarfelli er haldið áfram til Vopnafjarðar. Við mælum með því að stoppa á Hofi þar sem stendur falleg kirkja og hægt er að skoða minnisvarða um Vopnfirðingasögu en Hof er einn af aðalsögustöðum hennar.
Í miðju Vopnafjarðarkauptúni stendur menningar- og fræðasetrið Kaupvangur. Það er eitt af elstu húsum staðarins, byggt árið 1882 og þar má sjá líkan af miðbæ Vopnafjarðar eins og hann leit út um aldamótin 1900. Í Kaupvangi er nú rekið kaffihús og á annarri hæðinni er Vesturfaramiðstöð Austurlands til húsa auk áhugaverðrar sýningar um vesturferðir Íslendinga. Frá Kaupvangi er einnig upplagt að leggja í sögutengda gönguferð um þorpið.
Næst mælum við með því að kíkja á útsýnispallinn fyrir ofan þorpið þar sem fallegt útsýni er yfir Lónin, Skógalón innar og Nýpslón utar. Skemmtilegt er að ganga í fjöruborði Lónanna og fuglalíf er þar mjög mikið. Þess má geta að í Vopnafirði verpa yfir 50 tegundir fugla af þeim 75 fuglategundum sem verpa á Íslandi.
Þegar komið er til Vopnafjarðar er ekki hægt að sleppa því að fara í sund í Selárlaug en hana er að finna í Selárdal á bökkum einnar mestu laxveiðiár Íslands. Leitun er að jafn fagurri staðsetningu fyrir sundlaug enda er hún rómuð fyrir umhverfi sitt. Að sundferð lokinni farið þið aftur út á Vopnafjörð, en þar má finna veitingastaði og ýmsa aðra þjónustu.
Tillaga að góðum degi – Vopnafjörður til Egilsstaða um Hellisheiði Eystri
Nú skal haldið frá Vopnafirði eftir vegi 917 í átt að Hellisheiði eystri. Rétt fyrir neðan veg er Gljúfursárfoss. Hægt er að stoppa við Gljúfursána en þaðan er merkt gönguleið niður að sjó, um Drangsnes. Rétt fyrir utan Gljúfursána (um 500 metra) er Virkisvíkin. Þar blasa við litskrúðug setlög og stuðlaberg auk þess sem foss steypist í sjó fram af þverhníptum björgum. Ef gengið er frá veginum upp með Gljúfursánni má sjá gömlu brúna yfir ána og hleðslur frá fyrstu brúnni sem byggð var um aldamótin 1900.
Utar í firðinum eru Skjólfjörur en það er staður sem við mælum sérstaklega með því að skoða. Þar er örstutt ganga frá veginum niður í fjörurnar. Í sjónum rétt undan Skjólfjörunum stendur Ljósastapi, steindrangur sem Vopnfirðingar kalla gjarnan „Fílinn.“ Utar í firðinum sést Búrið ganga í sjó fram. Búrið er hluti Fagradalsfjalla og er elsta megineldstöð á Austurlandi.
Nú liggur leiðin frá Vopnafirði yfir á Hérað, um Hellisheiði eystri. Austan megin í Hellisheiðinni er gönguleið niður í Múlahöfn og Þerribjörg þar sem líparítið skartar sínu fegursta. Gönguleiðin er erfið og frekar löng, en vel fyrirhafnarinnar virði fyrir vana göngugarpa. Ekki gleyma að stoppa á útsýnisstaðnum austan megin í heiðinni en þaðan er útsýnið yfir Héraðssanda og Dyrfjöll dásamlegt þegar bjart er í veðri. Eftir útsýnisstundina haldið þið áfram brattan og hlykkjóttan veg niður í Jökulsárhlíð og áfram í Egilsstaði.
Tillaga að útúrdúr: Rétt austan megin við brúna yfir Jöklu er hægt að beygja inn á veg 925 út Hróarstungu. Við mælum með stoppi á Geirstöðum í landi Litla-Bakka í Hróarstungu þar sem lítil falleg torfkirkja stendur. Kirkjan er eftirgerð bændakirkju sem stóð þar fyrir um 1000 árum. Haldið svo áfram að Húseyjarvegi og eftir honum út í Húsey sem er nauðsynlegur viðkomustaður fyrir náttúruunnendur. Þar eru skemmtilegar gönguleiðir og kjörið að njóta náttúrunnar en þar má sjá bæði fugla og seli. Á bakaleiðinni er hægt að beygja til vinstri inn á veg 925 og koma aftur inn á Hringveginn rétt hjá Fellabæ.
Þegar degi tekur að halla mælum við með því að skella sér í Vök náttúrulaugarnar við Urriðavatn eða í Sundlaugina á Egilsstöðum. Fjöldi veitingastaða er á Egilsstöðum og því úr vöndu að ráða. Skemmtilegt er að fara í kvöldgöngu um Egilsstaði eða í Selskógi.
Tillaga að góðum degi – Frá Egilsstöðum til Eskifjarðar um Fagradal
Frá Egilsstöðum liggur leiðin til Eskifjarðar í gegnum Reyðarfjörð. Á milli Egilsstaða og Eskifjarðar er ekið um Fagradal. Margar merktar gönguleiðir eru í og við Reyðarfjörð. Vinsælt er að ganga á Grænafell og er þá oftast farið frá Fagradal. Þar er greiðfær, stikuð gönguleið upp á fellið. Einnig er hægt að fylgja fallegri gönguleið meðfram undurfögru gili Geithúsaár, um skjólsælt svæði undir kjarri vöxnum hlíðum Grænafells.
Tillaga að útúrdúr: Ef tími og áhugi er fyrir hendi mælum við heilshugar með því að skreppa til Mjóafjarðar. Þar er skemmtilegt að skoða Klifbrekkufossa og gamlan, ryðgaðan pramma sem er á einstaklega myndrænum stað í fjörunni. Einnig er hægt að aka út með firðinum út á Dalatanga. Við Dalatangavita opnast mikið útsýni til norðurs allt að Glettingi og inn í mynni Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar. Athugið að veginum til Mjóafjarðar er ekki haldið opnum yfir veturinn.
Keyrt er í gegnum þorpið í Reyðarfirði og farið í Íslenska stríðsárasafnið. Megináhersla safnsins er á lífið á stríðsárunum og áhrif breska hersins íslensku þjóðina. Gestum gefst kostur á að fara inn í bragga og bíósal, auk þess að skoða muni og fjölda mynda frá stríðsárunum. Í framhaldinu er hægt að skella sér í golf en nýr golfvöllur með púttsvæði er rétt innan við bæinn.
Fáið ykkur snarl á veitingastöðum bæjarins eða skellið ykkur í bakaríið til að nesta ykkur upp fyrir gönguferð um Hólmanes.
Hólmanes er staðsett á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Það var friðlýst sem fólkvangur og að hluta til sem friðland árið 1973. Þar er mikið fuglalíf og sérkennilegar bergmyndanir en nesið er kjörið til útivistar, hvort sem er í klettum eða fjöru. Skemmtilegt er að ganga upp að Völvuleiði en sagan segir að Völva ein hafi búið á Sómastöðum á sautjándu öld og áður en hún lést lagði hún fyrirmæli um að láta grafa sig þar er best væri útsýni yfir Reyðarfjörð og kvað þá fjörðinn aldrei mundu rændan af sjó meðan nokkurt bein væri óbrotið í sér. Þegar Tyrkir komu að Austfjörðum hugðust þeir sigla inn á Reyðarfjörð og ræna en er þeir komu í fjarðarmynnið kom á móti þeim geysandi stormur svo þeir urðu frá að hverfa.
Þá liggur leiðin inn á Eskifjörð en eitt af því sem setur hlýlegan svip á Eskifjarðarkaupstað eru gömlu sjóhúsin sem standa út í fjörðinn. Sum þeirra eru lifandi söfn og er gaman að heimsækja Gömlubúð sem er sjóminja og atvinnuvegasafn. Í safninu eru munir sem tilheyra sjósókn og vinnslu sjávarafla. Auk verslunarminja og hluta sem tilheyra ýmsum greinum iðnaðar og lækninga frá fyrri tíð. Safnið þykir einstaklega skemmtilega framsett, fjölbreytt og fróðlegt heim að sækja.
Listaverkið sem prýðir Hraðfrystihúsið er einnig þess virði að skoða, auk Myllunnar og fossins í Bleiksánni sem eru upplýst árið um kring. Norðan fjarðarins gnæfa Askja og Hólmatindur sem eru einkennistákn fjarðarins.
Silfurbergsnámuna í Helgustaðalandi er að finna á leiðinni frá Eskifirði til Vöðlavíkur og liggur göngustígur upp að henni. Þar var silfurberg numið úr jörðu frá 17. öld fram á fyrri hluta 20. aldar. Helgustaðanáman er nú friðlýst sem náttúruvætti en náman er heimsþekkt sem fyrsti staðurinn þar sem mjög hreinir, stórir og gagnsæir kalsítkristallar fundust. Danski vísindamaðurinn Erasmus Bartholinus var fyrstur til að lýsa óvenjulegum eiginleikum silfurbergsins árið 1669. Vísindamenn hófu brátt að kenna þetta áður óþekkta efni við Ísland, á ensku sem Iceland crystal, en frá um 1780 varð heitið Iceland spar ráðandi.
Næst má skella sér í golf eða sund í sundlauginni á Eskifirði. Þar er aðstaða öll hin ákjósanlegasta fyrir skemmtilega og nærandi sundferð. Þaðan er fjallasýnin tilkomumikil, en beggja vegna rísa tíguleg fjöll Eskifjarðar.
Þegar dagur er að kveldi kominn mælum við með því að setjast niður á einhverjum af veitingastöðum bæjarins.
Tillaga að góðum degi – Frá Eskifirði til Breiðdalsvíkur
Nú er ferðinni haldið til baka til Reyðarfjarðar og þaðan til Fáskrúðsfjarðar um Fáskrúðsfjarðargöng. Á Fáskrúðsfirði eru fjölmargar gönguleiðir og útsýnisstaðir. Þar má til dæmis nefna Vattarnes en þaðan sést vel út á eyjuna Skrúð. Það er einnig vinsælt að ganga á Sandfellið sem er sunnan megin í firðinum. Á Fáskrúðsfirði er ýmis þjónusta, meðal annars verslun, hótel, kaffihús og söfn.
Haldið áfram frá Fáskrúðsfirði til Stöðvarfjarðar. Á leiðinni má meðal annars sjá Hafranesvita og Söxu. Saxa er merkur og frægur sjávargoshver úti fyrir strönd Stöðvarfjarðar sem gýs gjarnan í hvassviðri og vekur mikla aðdáun ferðamanna. Á Stöðvarfirði er Steinasafn Petru, einn vinsælasti ferðamannastaður Austurlands, og Sköpunarmiðstöðin þar sem listamenn iðka hinar ýmsu listgreinar. Meðal þjónustuaðila á Stöðvarfirði eru gistiheimili, veitingastaður, gallerí og markaður yfir sumartímann.
Nú er ekið áfram eftir hringveginum til Breiðdalsvíkur „um skriðurnar“ eins og heimamenn myndu segja . Frá skriðunum er fallegt útsýni yfir eyjarnar hinum megin í firðinum. Við mælum með heimsókn í Breiðdalssetur sem er jarðfræðisafn staðsett í gamla kaupfélagshúsinu. Skemmtilegt er að ganga á Hellurnar, hátt hraun fyrir ofan bæinn, en þaðan er frábært útsýni inn til dala og út á haf.
Margar áhugaverðar gönguleiðir er að finna í Breiðdalnum þar sem fjallahringurinn er einstaklega fagur. Neðarlega í Breiðdalsánni er fossinn Beljandi og er vel þess virði að rölta stuttan spöl að honum frá vegi 964. Ein af þveránum sem falla í Breiðdalsá er Tinnudalsá, eða Tinna. Það er einstaklega fallegt við gömlu Tinnubrúna en er við Manndrápshyl. Við mælum líka með stoppi á kirkjustaðnum Heydölum en þar stendur nú vönduð steinkirkja sem var 18 ár í byggingu og var vígð árið 1975.
Þegar degi fer að halla mælum við með því að láta líða úr sér á brugghúsi bæjarins og njóta góðra veitinga á veitingastöðum svæðisins.
Tillaga að góðum degi –Frá Breiðdalsvík til Djúpavogs
Þegar haldið er í suður frá Breiðdalsvík er ekið meðfram Meleyri sem er tæplega þriggja kílómetra löng sandeyri sem skemmtilegt er að ganga. Næst mælum við með því að þið stoppið við Streitishvarf en þar stendur Streitisviti. Merkt gönguleið er frá vitanum að berggangi sem er merkilegt náttúrufyrirbæri og ógleymanlegt þeim sem skoða.
Nú haldið þið áfram frá Streitishvarfi og inn Berufjörðinn. Við mælum með því að þið stoppið á náttúruverndarsvæðinu Blábjörgum en björgin eru hluti af víðáttumiklu flikruberslagi og þykja sérstæð fyrir grænleitan blæ. Í Berufirði blasir svo við pýramídalagað fjall, hinn tignarlegi Búlandstindur.
Sunnan megin í firðinum komið þið að Teigarhorni en þar mælum við með því að þið gefið ykkur góðan tíma í stopp. Staðurinn er friðlýst náttúruvætti en þar er einn þekktasti fundarstaður geislasteina (zeolíta) í heimi. Staðurinn er einnig þekktur fyrir áhugaverðar jarðmyndanir og atvinnu- og menningarsögu. Á Teigarhorni var starfrækt ljósmyndastofa Nicoline Weywadt sem var fyrst kvenna til að nema ljósmyndun á Íslandi, en hún lauk námi frá Danmörku árið 1872. Á Teigarhorni er steindasafn, þar sem hægt er að skoða þær steindir sem finnast á Teigarhorni. Á svæðinu starfar landvörður sem vaktar svæðið og veitir allar helstu upplýsingar. Merktar gönguleiðir eru um svæðið.
Frá Teigarhorni haldið þið áfram á Djúpavog þar sem margvísleg afþreying og þjónusta er í boði. Hægt er að fá sjálfsleiðsögn um þorpið með smáforritunum Wapp og PocketGuide, fara í fuglaskoðun um Búlandsnesið, fara í sund, ganga um og skoða fornar menningarminjar sem eru áberandi innan bæjarins, skoða gömlu húsin, kíkja í söfnin og margt fleira. Auk þess eru margar skemmtilegar gönguleiðir umhverfis þorpið. Á Djúpavogi er m.a. hótel, verslanir, veitingastaðir og söfn.
Áður en þið yfirgefið Djúpavog mælum við meðað stoppa í Hálsaskógi, rétt utan við afleggjarann að þorpinu. Þar er nokkuð um tóftir og hleðslur sem og listaverk eftir Vilmund Þorgrímsson. Svæðið hentar vel fyrir léttan göngutúr og er indælis nestisstaður.
Á leið ykkar á Suðurland akið þið um Hamarsfjörð og Álftafjörð. Þetta eru í rauninni grunn sjávarlón og á leirurnar sækja fjölmargar fuglategundir sem vert er að skoða. Við mælum með stoppi við Djáknadys í Hamarsfirði, Tröllatjörn við Geithella sem er skemmtilegt útivistarsvæði og Þvottá. Einnig er vinsælt að stoppa í Stapavík og ganga niður að Stapanum en svæðið er einstök náttúruperla.