Fyrir hverja
Markhópar:
Eitthvað fyrir alla, sjálfstæði landkönnuðurinn, lífsglaði heimsborgarinn, náttúrunörd.
Áherslur:
Staðbundinn matur, kanna hið óþekkta, gönguferðir, ósvikin upplifun, magnað útsýni, náttúrulaugar, hestaferðir, hálendi, saga.
Hvaða búnað þarf til að fara þessa leið?
4x4 jeppa með að lágmarki 25 cm undir lægsta punkt, staðsetningartæk (síma- og netsamband er stopult), skófla
Hálendishringurinn
Það er margt hægt að upplifa og skoða á hálendi Austurlands. Við mælum með því að þið gefið ykkur að minnsta kosti þrjá daga í ferðina. Ef þið hafið ekki svo rúman tíma er alltaf hægt að velja eina eða tvær dagleiðir og koma aftur seinna. Hafa ber í huga að margir vegir á hálendinu eru lokaðir á veturna og því ekki hægt að komast hluta þessarar leiðar yfir vetrarmánuðina. Fylgist með færð á vegum á síðu Vegagerðarinnar.
Athugið að ef ykkur langar að gera allt sem við mælum með þá þurfið þið að gefa ykkur rýmri tíma. Sumar dagleiðirnar gera ráð fyrir akstri um svæði þar sem takmörkuð þjónusta er til staðar og því gott að vera við öllu búin. Einnig er oft um talsverðan akstur að ræða og því gott að vera búin að ákveða við hvaða áfangastaði á að stoppa svo þið verðið ekki dagþrota.
TILLAGA AÐ GÓÐUM DEGI – EGILSSTAÐIR
Á Egilsstöðum á Héraði eiga vaxandi skógar stóran þátt í veðursæld svæðisins og hægt er að leita í skjól trjánna ef hvessir. Hlý sumargolan minnir þá oft á meginland Evrópu og er stillt sumarkvöld engu líkt. Óvíða á Íslandi er samspil hárra fossa, gróðurs, lygnra vatna og fjölskrúðugs dýralífs meira og eru fjölmargir staðir á svæðinu vel fallnir til útivistar. Lagarfljót er eitt helsta einkennistákn svæðisins og rennur það frá jökli til sjávar. Í fljótinu býr hinn frægi Lagarfljótsormur og eru vegleg verðlaun heitin þeim sem nær góðri mynd af orminum.
Frískandi er að byrja daginn í sundlauginni en þar er stundum boðið upp á kaffi í heita pottinum. Að því loknu er hægt að snæða morgunmat í bakaríinu eða á veitingarstöðum bæjarins. Því næst mælum við með því að kíkja á Minjasafn Austurlands sem varðveitir minjar um sögu, menningu og samfélag fjórðungsins. Á safninu eru tvær grunnsýningar, annars vegar sýningin Hreindýrin á Austurlandi og hins vegar sýningin Sjálfbær eining. Þar fyrir utan eru settar upp margvíslegar smærri sýningar yfir árið. Á Egilsstöðum er einnig að finna Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, sem er til húsa í Sláturhúsinu, en hlutverk hennar að ýta undir skapandi starfsemi, hvetja til þátttöku almennings og efla lista- og menningarstarf á Austurlandi.
Selskógur er skemmtilegt útivistarsvæði austan Egilsstaða handan við Eyvindará. Hann er kjörinn til útivistar og samkomuhalds allt árið um kring. Um skóginn liggja skemmtilegir, kurlbornir stígar í fallegu umhverfi. Á köflum liggur stígurinn meðfram ánni og er útsýnið þar yfir afar fagurt. Víða eru áningarstaðir með bekkjum þar sem gott er að tylla sér niður og hlusta á árniðinnn og fuglasönginn. Í miðjum skóginum, á svæði sem kallast Vémörk, eru leiktæki fyrir börn á öllum aldri, grill, borð og bekkir. Þar er einnig stór grasflöt þar sem hægt er að fara í fótbolta eða aðra leiki svo eitthvað sé nefnt.
Skemmtilegt er að ganga upp að Fardagafossi þar sem gott útsýni er yfir héraðið. Merkt gönguleið liggur að fossinum sem tekur um hálftíma að ganga. Hægt er að komast á bak við fossinn en þar verður leiðin aðeins erfiðari og viðbúið að fá yfir sig smá vætu. Það gæti svo sannarlega verið þess virði því sagan segir að þar rætist allar óskir.
Egilsstaðir draga að sér fjölda ferðamanna á sumrin en svæðið er einnig spennandi að heimsækja yfir vetrartímann. Þjónustustigið er hátt og finnst það á viðmóti heimamanna sem leggja metnað sinn í að gera vel við þá sem nýta sér þá þjónustu sem er í boði. Úrval verslana og þjónustufyrirtækja er gott en mörg stórfyrirtæki eru með útibú staðsett á Egilsstöðum.
Á svæðinu eru framúrskarandi veitingastaðir sem bjóða meðal annars upp á ferska gæðavöru úr heimabyggð. Góð hótel og gistihús eru á Héraði, tjaldstæði, orlofshús og bændagistingar. Ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á fjölbreyttar, skipulagðar ferðir alla mánuði ársins þar sem öll fjölskyldan getur fundið eitthvað við sitt hæfi.
TILLAGA AÐ GÓÐUM DEGI – EGILSSTAÐIR - FLJÓTSDALUR
Ferðin hefst á því að renna inn Velli í átt að Hallormsstaðaskógi.
Tillaga að útúrdúr: Það er vel þess virði er að koma við í Vallanesi þar sem lífræn ræktun fer fram á korni og grænmeti, fullvinnsla og framleiðsla tilbúinna matvæla sem grundvallast á hráefni sem ræktað er á staðnum en þar er einnig falleg gönguleið um svæðið.
Leiðin liggur nú í gegnum Hallormsstaðaskóg sem er talinn stærstur skóga á Íslandi eða um 740 ha. Hann er að mestu náttúrulegur birkiskógur en gerðar hafa verið tilraunir með innfluttar tegundir allt frá 1905. Í Hallormsstaðaskógi eru margar mismunandi merktar gönguleiðir um fjölbreytt landslag skógarins. Allar gönguleiðirnar eru litamerktar og gönguleiðakort er aðgengilegt á þjónustustöðum á svæðinu og einnig í kössum við upphaf margra gönguleiðanna.
Í Hallormsstaðaskógi er trjásafn með um 80 tegundum trjáa og runna víðsvegar að úr heiminum. Trjásafnið er einstakt á landsvísu. Ganga um trjásafnið hefst við bílastæðið við þjóðveginn og gott er að gefa sér góðan tíma til að skoða og njóta útiverunnar. Tilvalið er að ganga niður að Fljótinu, snæða nesti og hlusta á fuglasönginn. Einnig er hægt að stoppa í Atlavík sem er frægur samkomustaður Austfirðinga og annarra síðan hinar frægu Atlavíkurhátíðir voru. Í dag er þetta rómantískt tjaldstæði þar sem göngustígar liggja til allra átta.
Á Hallormsstað er rekin öflug ferðaþjónusta með stóru hóteli, veitingarstað, verslun, ísbúð og spa auk þess sem hægt er að keyra um skógin á fjórhjóli eða reyna fyrir sér í axarkasti.
Leiðin liggur síðan inn í Fljótsdal að bílastæðinu við Hengifoss. Hengifoss í Fljótsdal er þriðji hæsti foss Íslands eða um 128 metrar á hæð. Fossinn fellur ofan í mikið gljúfur með standbjörgum og áberandi rauðum lögum milli berglaga og neðar í ánni er Litlanesfoss, umvafinn stuðlabergi. Gangan upp að fossinum er tiltölulega létt en þó dálítið brött á köflum.
Innar í dalnum er Snæfellsstofa, gestastofaaustursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs og upplýsingamiðstöð. Í Snæfellsstofu er sýningin Veraldarhjólið sem fjallar um hringrás og mótun náttúrunnar. Sýningin leggur áherslu á samspil gróðurfars og dýralífs á austursvæði þjóðgarðsins. Við hönnun hennar var lögð áhersla á að börn gætu snert, lyktað og prófað sig á ýmsum sýningarmunum.
Næst mælum við með heimsókn í Skriðuklaustur sem er sögufrægur staður með rústum miðaldaklausturs frá 16. öld. Minjar klaustursins voru grafnar upp á árunum 2002-2012 í einni umfangsmestu fornleifarannsókn síðari ára. Á Skriðuklaustri stendur einnig herragarðshús sem rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson byggði árið 1939 þegar hann sneri heim eftir 30 ára dvöl í Danmörku. Í Gunnarshúsi er sýning um klaustrið og safn um skáldið Gunnar og í boði er leiðsögn fyrir gesti.
Innst í Norðurdal Fljótsdals er að finna Óbyggðasetur Íslands en þar hefur verið sköpuð ævintýraveröld sem byggir á nálægðinni við óbyggðirnar. Lifandi sýning Óbyggðasetursins er áhrifamikil leið til að kynnast sögum óbyggðanna. Á merktum gönguleiðum má skoða eyðibýli og fossa eða renna sér á kláf yfir Jökulsá.
Áður en haldið er upp á hálendið mælum við með þeim fjölmörgu gistimöguleikum sem í boði eru í Fljótsdal.
TILLAGA AÐ GÓÐUM DEGI –FLJÓTSDALUR - EGILSSTAÐIR
Athugið að þessi dagleið gerir ráð fyrir akstri um svæði þar sem takmörkuð þjónusta er til staðar og því gott að vera við öllu búin, með nesti og nýja skó. Gera þarf ráð fyrir talsverðum aksturstíma svo gott er að vera búin að ákveða við hvaða áfangastaði þið ætlið að stoppa svo þið verðið ekki dagþrota.
Keyrt er um veg 910 frá Fljótsdal upp á hálendið og er fyrsta stopp við Laugarfell sem er staðsett rétt norðan við fjallið Snæfell. Tvær heitar náttúrulegar laugar eru við Laugarfell og eru þær samkvæmt gömlum heimildum þekktar fyrir lækningamátt sinn. Margar skemmtilegar gönguleiðir eru í nágrenni Laugarfells og fjöldi fallegra fossa er í þægilegri göngufjarlægð frá Laugarfelli, þar á meðal er svokölluð Fossaleið sem liggur niður að Óbyggðasetri í Fljótsdal.
Á leiðinni að Kárahnjúkastíflu ber að líta Snæfell (1833 m) sem er hæsta fjall Íslands utan jökla og er fjallið sjálft og svæðið umhverfis það innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs. Snæfell er nokkuð keilulaga, enda forn megineldstöð sem hefur ekki rumskað í 10 þúsund ár. Mun það hafa myndast seint á ísöld og er því yngsta eldstöð Austurlands. Tiltölulega auðveld dagsleið er að ganga á fjallið, en af toppnum er á góðum degi afbragðsútsýni til allra átta.
Vestan Snæfells og austan Jökulsár á Brú eru Vesturöræfi og þar vestur af Brúaröræfi. Bæði Vesturöræfi og Brúaröræfi eru megindvalarstaðir hreindýra og því talsverðar líkur á því að sjá hreindýr þar. Hreindýrin eru kvik, fara hratt yfir og falla vel inn í austfirska náttúru og því þarf að hafa augun hjá sér til að sjá þau.
Kárahnjúkar eru móbergsfjöll austan Jökulsár á Dal. Kárahnjúkastífla er við Fremri Kárahnjúkinn sem er jafnframt langstærsta stífla Kárahnjúkavirkjunar. Stíflan er 700 m löng og 198 m há grjótstífla með steyptri þéttikápu á vatnshliðinni. Kárahnjúkastífla er meðal hinna stærstu í heimi af þessari gerð og hæsta grjótstífla í Evrópu með steyptri þéttikápu. Kárahnjúkavirkjun er langstærsta virkjun Íslands og stærsta framkvæmd Íslandssögunnar.
Þegar komið er yfir stífluna liggur leiðin um Brúardali, fjallveg F910, og áleiðs að gatnamótum þar sem hægt er að fara niður að Hafrahvammagljúfrum eða í Laugarvalladal.
Hafrahvammagljúfur er með stærstu og stórfenglegustu gljúfrum landsins. Gljúfrið er um 8 kílómetrar að lengd og þar sem það er hæst er það um 200 metrar. Falleg merkt gönguleið er meðfram gljúfrinu og niður að Magnahelli sem staðsettur er í fallegu umhverfi gljúfursins.
Laugavalladalur er gróðurvin þar sem unnt er að baða sig heitri laug og skola svo af sér í náttúrulegu steypibaði þar sem lækurinn fellur fram af kletti í litlum fossi. Dalurinn hefur notið vinsælda ferðamanna á undanförnum árum enda er upplifunin einstök.
Tillaga að útúrdúr: Hægt er að keyra að Sænautaseli í Jökuldalsheiði um veg 907. Sænautasel var byggt á Jökuldalsheiði 1843 en þar er nú mjög áhugavert safn.
Á leið niður Jökuldalinn er komið að bænum Grund en þar hefur verið mikil uppbygging á síðastliðnum árum enda er þaðan afar góð aðstaða til útsýnis yfir hið fræga og margrómaða Stuðlagil.
Stuðlagil er náttúruperla sem lengi var lítt þekkt og kom ekki almennilega í ljós fyrr en eftir að Kárahnjúkavirkjun var tekin í notkun og vatnsmagnið í Jökulsá á Dal (eða Jöklu) snarminnkaði. Þar er að finna eina stærstu og fallegustu stuðlabergsmyndun á Íslandi. Frá bílastæðinu á Grund er hægt að labba niður 250 tröppur að gilbrúninni. Áin breytir um lit ef það er snjóbráð í Snæfelli og við yfirfall Kárahnjúkastíflu í ágúst verður hún grámórauð og beljandi jökulá.
Önnur leið er að Stuðlagili frá Klausturseli en þar skal bílum lagt á bílastæði áður en komið er að brúnni. Þaðan er gengið eftir slóða um 5 km leið að gilinu. Á leiðinni er tignarlegur foss, Stuðlafoss, sem fellur fram af þverhníptu stuðlabergi. Útsýnið í gilinu er mjög stórbrotið með stuðlaberg allt í kring.
Í lok dags er haldið niður Jökuldalinn en þar er hægt að stoppa við Rjúkanda sem er fallegur foss við Hringveginn og er hann vel sýnilegur af þjóðveginum. Gangan tekur aðeins örfár mínútur og frábært útsýni er frá útsýnispallinum bæði að fossinum en einnig yfir Jökuldalinn. Á Jökuldalnum er einnig að finna torfhúsin á Hjarðarhaga sem eru gömlu fjárhús. Torfhúsin eru dæmigerð einstæðuhús, hluti af fornri útihúsaþyrpingu sem var fjarlægð að hluta vegna nándar við hringveginn/þjóðveg nr.1 um 1970.
Þegar þangað er komið er líklegt að dagur sé langt að kveldi kominn og því mælum við með því að ferðalangar komi sér í náttstað, setji fætur upp í loft, skoði myndir dagsins og slappi af.