Veldu Leið

Tvísöngur

Flakkað um firði

Markhópar:

Eitthvað fyrir alla, Sjálfstæði landkönnuðurinn, lífsglaði heimsborgarinn, dreifbýlisbóhem

Áherslur:

Kanna hið óþekkta, keyra með ströndinni, staðbundinn matur, gönguferðir, hestaferðir, sundlaugar, hálendi, saga, menning.

FLAKKAÐ UM FIRÐI

Á Austfjörðunum er margt að skoða og upplifa. Við mælum með því að þið gefið ykkur að minnsta kosti þrjá daga í ferðina. Ef þið hafið ekki svo rúman tíma er alltaf hægt að velja eina eða tvær dagleiðir og koma aftur seinna.

Athugið að ef ykkur langar að gera allt sem við mælum með þá þurfið þið að gefa ykkur rýmri tíma. Sumar dagleiðirnar gera ráð fyrir akstri um svæði þar sem takmörkuð þjónusta er til staðar og því gott að vera við öllu búin. Einnig er oft um talsverðan akstur að ræða og því gott að vera búin að ákveða við hvaða áfangastaði á að stoppa svo þið verðið ekki dagþrota.

Seyðisfjarðarhöfn

Viti á Brimnesi

Selsstaðir

Tillaga að góðum degi - Seyðisfjörður

Kjörið er að hefja daginn á göngu upp að Tvísöng sem er hljóðskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne. Skúlptúrinn samanstendur af fimm sambyggðum hvelfingum af mismunandi stærðum. Hver hvelfing fyrir sig hefur eigin tíðni sem samsvarar einum tóni í fimmundarsöng og virkar sem magnari fyrir þann tón. Tvísöngur virkar þannig sem náttúruleg umgjörð fyrir íslensku tvísöngshefðina og er bæði sjónræn og hljóðræn útfærsla á henni. Upp að Tvísöng er um 15-20 mín. gangur eftir malarvegi sem liggur frá fiskvinnslunni Brimbergi.

Á Tækniminjasafni Austurlands er fjallað um sögu Íslands með áherslu á tæknivæðingu landsins frá um 1880 til dagsins í dag. Tækniminjasafnið sýnir hvernig tæknibreytingar á fjölmörgum sviðum, t.d. véltækni, rafmagns, fjarskipta, samganga og byggingalistar eru samofnar breytingum á lifnaðarháttum og umhverfi.

Því næst er kjörið að fara í gönguferð um gamla bæinn, skoða regnbogagötuna, mynda sig fyrir utan Bláu kirkjuna og heimsækja Skaftfell. Á Skaftfelli er öflugt sýningahald og viðburðadagskrá, gestavinnustofur fyrir alþjóðlega listamenn og fjölþætt fræðslustarf.

Sundhöll Seyðisfjarðar er notaleg innilaug með heitum pottum, sánu og býr yfir miklum karakter. Hægt er að bóka sértíma fyrir stærri hópa.

Við mælum með því að snæða kvöldverð á einhverju af veitingarhúsum bæjarins.

Fagridalur

Íslenska stríðsárasafnið

Hólmanes

Sjóhús á Eskifirði

Helgustaðir

Tillaga að góðum degi – Reyðarfjörður og Eskifjörður

Frá Seyðisfirði er ekið um Fjarðarheiði. Við mælum með því að fara í gönguferð að Fardagafossi sem er við rætur Fjarðarheiðar Héraðs megin. Merkt gönguleið liggur að fossinum sem tekur um hálftíma að ganga. Leiðin er falleg og liggur meðfram stórbrotnu gili þar sem útsýnið er gott yfir héraðið. Hægt er að komast á bak við fossinn en þar verður leiðin aðeins erfiðari og viðbúið að fá yfir sig smá vætu. Það gæti svo sannarlega verið þess virði að heimsækja svæðið bakvið fossinn því sagan segir að þar rætist allar óskir. Eftir gönguferðina haldið þið áfram til Reyðarfjarðar um Fagradal.

Tillaga að útúrdúr: Ef tími og áhugi er fyrir hendi mælum við heilshugar með því að skreppa til Mjóafjarðar. Athugið að veginum til Mjóafjarðar er ekki haldið opnum yfir veturinn. Þar er skemmtilegt að skoða Klifbrekkufossa og gamlan, ryðgaðan pramma sem er á einstaklega myndrænum stað í fjörunni. Einnig er hægt að aka út með firðinum út á Dalatanga. Við Dalatangavita opnast mikið útsýni til norðurs allt að Glettingi og inn í mynni Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar.

Margar merktar gönguleiðir eru í og við Reyðarfjörð. Vinsælt er að ganga á Grænafell og er þá oftast farið frá Fagradal. Þar er greiðfær, stikuð gönguleið upp á fellið. Einnig er hægt að fylgja fallegri gönguleið meðfram undurfögru gili Geithúsaár, um skjólsæltsvæði undir kjarri vöxnum hlíðum Grænafells.

Ekið er í gegnum þorpið í Reyðarfirði og farið í Íslenska stríðsárasafnið. Einnig er þægileg gönguleið frá aðalgötu bæjarins upp með Búðaránni að safninu. Megináhersla safnsins er á lífið á stríðsárunum og áhrif hersetunnar á íslensku þjóðina. Gestum gefst kostur á að fara inn í bragga og bíósal, auk þess að skoða muni og fjölda mynda frá stríðsárunum. Í framhaldinu er hægt að skella sér í golf en nýr golfvöllur með púttsvæði er rétt innan við bæinn.

Fáið ykkur snarl á veitingastöðum bæjarins eða skellið ykkur í bakaríið til að nesta ykkur upp fyrir gönguferð um Hólmanes.

Hólmanes er staðsett á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Það var friðlýst sem fólkvangur og að hluta til sem friðland árið 1973. Þar er mikið fuglalíf og sérkennilegar bergmyndanir en nesið er kjörið til útivistar, hvort sem er í klettum eða fjöru. Skemmtilegt er að ganga að Völvuleiði en sagan segir að Völva ein hafi búið á Sómastöðum á sautjándu öld og áður en hún lést lagði hún fyrirmæli um að láta grafa sig þar er best væri útsýni yfir Reyðarfjörð og kvað þá fjörðinn aldrei mundu rændan af sjó meðan nokkurt bein væri óbrotið í sér. Þegar Tyrkir komu að Austfjörðum hugðust þeir sigla inn á Reyðarfjörð og ræna en er þeir komu í fjarðarmynnið kom á móti þeim geysandi stormur svo þeir urðu frá að hverfa.

Þá liggur leiðin inn á Eskifjörð en eitt af því sem setur hlýlegan svip á Eskifjarðarkaupstað eru gömlu sjóhúsin sem standa út í fjörðinn. Sum þeirra eru lifandi söfn og er gaman að heimsækja Gömlubúð sem er sjóminja- og atvinnuvegasafn.Í safninu eru munir sem tilheyra sjósókn og vinnslu sjávarafla auk verslunarminja og hluta sem tilheyra ýmsum greinum iðnaðar og lækninga frá fyrri tíð. Safnið þykir einstaklega skemmtilega framsett, fjölbreytt og fróðlegt heim að sækja.

Listaverkið sem prýðir Hraðfrystihúsið er einnig þess virði að skoða, auk Myllunnar og fossins í Bleiksánni sem eru upplýst árið um kring. Norðan fjarðarins gnæfa Askja og Hólmatindur sem eru einkennistákn fjarðarins.

Silfurbergsnámuna í Helgustaðalandi er að finna á leiðinni frá Eskifirði til Vöðlavíkur og liggur göngustígur upp að henni. Þar var silfurberg numið úr jörðu frá 17. öld fram á fyrri hluta 20. aldar. Helgustaðanáman er nú friðlýst sem náttúruvætti en náman er heimsþekkt sem fyrsti staðurinn þar sem mjög hreinir, stórir og gagnsæir kalsítkristallar fundust. Danski vísindamaðurinn Erasmus Bartholinus var fyrstur til að lýsa óvenjulegum eiginleikum silfurbergsins árið 1669. Vísindamenn hófu brátt að kenna þetta áður óþekkta efni við Ísland, á ensku sem Iceland crystal, en frá um 1780 varð heitið Iceland spar ráðandi.

Næst má skella sér í golf eða sund í sundlauginni á Eskifirði. Þar er aðstaða öll hin ákjósanlegasta fyrir skemmtilega og nærandi sundferð. Þaðan er fjallasýnin tilkomumikil, en beggja vegna rísa tignarleg fjöll Eskifjarðar.

Þegar dagur er að kveldi kominn mælum við með því að setjast niður á einhverjum af veitingastöðum bæjarins.

Norðfjörður

Páskahellir

Stefánslaug

Tillaga að góðum degi – Norðfjörður

Keyrið í gegnum Norðfjarðargöng til Neskaupstaðar. Göngin voru opnuð árið 2017 og leystu þá af hólmi Oddsskarðsgöng og erfiðan fjallveg að þeim göngum beggja vegna. Göngin eru um 7,5 km að viðbættum 366 m vegskálum og eru því lengstu samfelldu tvíbreiðu jarðgöng á Íslandi.

Á Norðfirði er hægt að finna sér margt að gera, hvort heldur að skella sér á hestbak hjá hestaleigu, dorga í höfninni, leita eftir hvölum, taka einn hring á golfvellinum eða ganga einhverja af fjölmörgum gönguleiðum á svæðinu. Í Neskaupsstað er einnig að finna Náttúrugripasafn en það hefur að geyma flesta íslenska fugla auk fjölda flækinga og ágætu fiskasafni með ýmsum sjaldséðum fiskum. Einnig eru í safninu ýmsir gripir af sjávarbotni, þar á meðal mjög gott safn skeldýra. Villtu íslensku spendýrin eiga sína fulltrúa á safninu og þar er einnig mjög gott steinasafn. Þá varðveitir safnið austfirskt plöntuvísindasafn og skordýrasafn. Á neðri hæð safnsins er einnig að finna Tryggvasafn en Tryggvi Ólafsson er meðal þekktustu myndlistarmanna Íslendinga.

Ef ykkur langar í göngu þá er mikil upplifun að fara í Páskahelli, t.d. frá Norðfjarðarvita. Völurnar sem byltast með öldunni upp og niður flytja tónlist eftir veðurfari. Þær eru misstórar og hljóma aldrei alveg eins; sannkölluð sjávarharpa. Páskahellir er þægilegur viðkomustaður ferðamanna en þangað er stutt að fara, undurfallegt landslag, náttúrustígur með upplýsingaskiltum, dúfur í varpi, sjávarlíf í pollum, holur eftir forn tré, fallegt útsýni, sérkennilegar urðir og margt fleira.

Þegar degi hallar er fátt betra en að skella sér í sund í Stefánslaug sem er einstaklega glæsileg útisundlaug, staðsett á sólríkum stað í hlíðum Neskaupstaðar, veitir rómaða sólbaðaðstöðu og einstaka fjallasýn út yfir fjörðinn.

Þegar fer að kvölda mælum við því að snæða á einhverju af veitingarhúsum bæjarins.