Fyrir hverja
Marhópar
Eitthvað fyrir alla, sjálfstæði landkönnuðurinn, náttúrunörd, makindalegi menningarvitinn
Áherslur
Staðbundinn matur, ósvikin upplifun, sundlaugar, hálendi, saga, kanna hið óþekkta, keyra með ströndinni, magnað útsýni, svartir sandar, litrík fjöll, gönguferðir, hestaferðir.
Hvaða búnað þarf til að fara þessa leið
4x4 jeppa með að lágmarki 25 cm undir lægsta punkt, staðsetningartæk (síma- og netsamband er stopult), skófla.
AUSTURSTRÖNDIN
Það er margt hægt að upplifa og skoða við Austurströnd landsins. Við mælum með því að þið gefið ykkur að minnsta kosti þrjá daga í ferðina. Ef þið hafið ekki svo rúman tíma er alltaf hægt að velja eina eða tvær dagleiðir og koma aftur seinna.
Athugið að ef ykkur langar að gera allt sem við mælum með þá þurfið þið að gefa ykkur rýmri tíma. Sumar dagleiðirnar gera ráð fyrir akstri um svæði þar sem takmörkuð þjónusta er til staðar og því gott að vera við öllu búin. Einnig er oft um talsverðan akstur að ræða og því gott að vera búin að ákveða við hvaða áfangastaði á að stoppa svo þið verðið ekki dagþrota.
TILLAGA AÐ GÓÐUM DEGI – EGILSSTAÐIR - FÁSKRÚÐSFJÖRÐUR
Við mælum með því að hefja daginn á Egilsstöðum á Héraði. Vaxandi skógar eiga stóran þátt í veðursæld svæðisins og hægt er að leita í skjól trjánna ef hvessir. Hlý sumargolan minnir oft á meginland Evrópu og stillt sumarkvöld í Hallormsstaðaskógi er engu líkt. Óvíða á Íslandi er samspil hárra fossa, gróðurs, fallegra vatna og fjölskrúðugs dýralífs meira og eru fjölmargir staðir á svæðinu vel fallnir til útivistar. Lagarfljót er eitt helsta einkennistákn svæðisins og rennur það frá jökli til sjávar. Í fljótinu býr hinn frægi Lagarfljótsormur og eru vegleg verðlaun heitin þeim sem nær góðri mynd af orminum.
Frískandi er að byrja daginn í sundlauginni en þar er stundum boðið upp á kaffi í heita pottinum. Að því loknu er hægt að snæða morgunmat í bakaríinu eða á veitingarstöðum bæjarins, kíkja á Minjasafn Austurlands eða skoða sig um í Selskógi. Þá er hægt að ganga upp að Fardagafossi en þaðan er gott útsýni yfir héraðið. Merkt gönguleið liggur að fossinum sem tekur um hálftíma að ganga. Hægt er að komast á bak við fossinnen þar verður leiðin aðeins erfiðari og viðbúið að fá yfir sig smá vætu. Það gæti svo sannarlega verið þess virði því sagan segir að allar óskir þaðan rætist.
Síðan liggur leiðin um Fagradal áleiðis til Reyðarfjarðar.
Tillaga að útúrdúr: Ef tími og áhugi er fyrir hendi mælum við heilshugar með því að skreppa til Mjóafjarðar. Athugið að veginum til Mjóafjarðar er ekki haldið opnum að vetrarlagi. Þar er skemmtilegt að skoða Klifbrekkufossa og gamlan, ryðgaðan pramma sem er á einstaklega myndrænum stað í fjörunni. Einnig er hægt að aka út með firðinum út á Dalatanga. Við Dalatangavita opnast mikið útsýni til norðurs allt að Glettingi og inn í mynni Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar.
Margar merktar gönguleiðir eru í og við Reyðarfjörð. Vinsælt er að ganga á Grænafell og er þá oftast farið frá Fagradal. Þar er greiðfær, stikuð gönguleið upp á fellið. Einnig er hægt að fylgja fallegri gönguleið meðfram undurfögru gili Geithúsaár um skjólsæltsvæði undir kjarri vöxnum hlíðum Grænafells.
Keyrt er í gegnum þorpið í Reyðarfirði og farið í Íslenska stríðsárasafnið. Megináhersla safnsins er á lífið á stríðsárunum og áhrif breska hersins á íslensku þjóðina. Gestum gefst kostur á að fara inn í bragga og bíósal, auk þess að skoða muni og fjölda mynda frá stríðsárunum. Í framhaldinu er hægt að skella sér í golf en nýr golfvöllur með púttsvæði er rétt innan við bæinn.
Tillaga að útúrdúr: Hólmanes er staðsett á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Það var friðlýst sem fólkvangur og að hluta til sem friðland árið 1973. Þar er mikið fuglalíf og sérkennilegar bergmyndanir en nesið er kjörið til útivistar, hvort sem er í klettum eða fjöru.
Næst er ferðinni heitið (suður á bóginn) um Fáskrúðsfjarðargöng til Fáskrúðsfjarðar. Fáskrúðsfjörður býr að mörgum fallegum gömlum húsum og snyrtilegu umhverfi. Í daglegu tali er Fáskrúðsfjörður oft nefndur „franski bærinn“ og götuskilti eru bæði á frönsku og íslensku. Tengingin við Frakkland á rætur að rekja til veiða franskra sjómanna undan Austfjörðum fyrr á tímum. Frakkar reistu spítala og kapellu og skammt frá bænum er að finna kirkjugarð franskra sjómanna. Bæjarbúar halda „franska daga“ síðustu helgina í júlí ár hvert.
Við mælum með því að skoða safnið Frakkar á Íslandsmiðum sem er til húsa í tveimur reisulegum byggingum, Læknishúsinu og Franska spítalanum, sem Frakkar reistu á Fáskrúðsfirði upp úr aldamótunum 1900. Meginsýning safnsins er þó í hvorugu húsanna, heldur í undirgöngum sem tengja þau saman. Frakkar á Íslandsmiðum er án efa eitt athyglisverðasta safn landsins. Ekki aðeins fyrir hönnun þess og nálgun á viðfangsefnið, heldur einnig vegna andrúmsloftsins sem tekist hefur að skapa. Lifandi nærmynd er brugðið upp af lífi sjómanna um borð í frönsku skútunum sem sóttu Íslandsmið og skynjar áhorfandinn glöggt aðstæður þeirra og daglegt líf.
Í Fáskrúðsfirði eru fjölmargar gönguleiðir og útsýnisstaðir. Þar má til dæmis nefna Vattarnes en þaðan sést vel út í eyjuna Skrúð. Það er einnig vinsælt að ganga á Sandfellið sem er sunnan megin í firðinum. Á Fáskrúðsfirði er ýmis þjónusta, meðal annars verslun, hótel, kaffihús og söfn.
Þegar degi fer að halla mælum við með því að snæða á veitingarstöðum bæjarins.
TILLAGA AÐ GÓÐUM DEGI – FÁSKRÚÐSFJÖRÐUR – DJÚPIVOGUR
Haldið áfram frá Fáskrúðsfirði til Stöðvarfjarðar. Á leiðinni má meðal annars sjá Hafranesvita og Söxu. Saxa er merkilegur sjávargoshver úti fyrir strönd Stöðvarfjarðar sem gýs gjarnan í hvassviðri og vekur mikla aðdáun ferðamanna. Á Stöðvarfirði er Steinasafn Petru, einn vinsælasti ferðamannastaður Austurlands, og Sköpunarmiðstöðin þar sem listamenn iðka hinar ýmsu listgreinar. Meðal þjónustuaðila á Stöðvarfirði eru gistiheimili, veitingastaður, gallerí, og markaður yfir sumartímann.
Nú er ekið áfram eftir hringveginum til Breiðdalsvíkur „um skriðurnar“ eins og heimamenn myndu segja. Frá skriðunum er fallegt útsýni yfir eyjarnar hinu megin í firðinum. Við mælum með heimsókn í Breiðdalssetur sem er jarðfræðisafn staðsett í gamla kaupfélagshúsinu. Skemmtilegt er að ganga á Hellurnar, hátt hraun fyrir ofan bæinn, en þaðan er frábært útsýni inn til dala og út á haf.
Margar áhugaverðar gönguleiðir er að finna í Breiðdalnum þar sem fjallahringurinn er einstaklega fagur. Neðarlega í Breiðdalsánni er fossinn Beljandi og er vel þess virði að rölta stuttan spöl að honum frá vegi 964. Ein af þveránum sem falla í Breiðdalsá er Tinnudalsá, eða Tinna. Það er einstaklega fallegt við gömlu Tinnubrúna sem er við Manndrápshyl. Við mælum einnig með stoppi á kirkjustaðnum í Heydölum en þar stendur nú vönduð steinkirkja sem var vígð árið 1975 eftir að hafa verið 18 ár í byggingu.
Á Breiðdalsvík er að finna ýmsa þjónustu, s.s. brugghús, veitingastaði, kaupfélag og hótel.
Þegar haldið er í suður frá Breiðdalsvík er ekið meðfram Meleyri sem er tæplega þriggja kílómetra löng sandeyri sem skemmtilegt er að ganga. Næst mælum við með því að þið stoppið við Streitishvarf en þar stendur Streitisviti. Merkt gönguleið er frá vitanum að berggangi sem er merkilegt náttúrufyrirbæri og ógleymanlegt þeim sem skoða.
Nú er haldið áfram frá Streitishvarfi og inn Berufjörðinn. Við mælum með stoppi á náttúruverndarsvæðinu Blábjörgum en björgin eru hluti af víðáttumiklu flikrubergslagi ogþykja sérstæð fyrir grænleitan blæ sinn Í Berufirði blasir við pýramídalagað fjall, hinn tignarlegi Búlandstindur.
Sunnan megin í firðinum er Teigarhorn en þar mælum við með að þið gefið ykkur góðan tíma í stopp. Staðurinn er friðlýst náttúruvætti en þar er einn þekktasti fundarstaður geislasteina (zeolíta) í heimi. Svæðið er einnig þekkt fyrir áhugaverðar jarðmyndanir og atvinnu- og menningarsögu. Á Teigarhorni var starfrækt ljósmyndastofa Nicoline Weywadt sem var fyrst íslenskra kvenna til að nema ljósmyndun. Hún lauk námi frá Danmörku árið 1872. Þar er einnig steindasafn, þar sem hægt er að skoða þær steindir sem finnast á Teigarhorni. Á svæðinu starfar landvörður sem vaktar svæðið og veitir allar helstu upplýsingar. Merktar gönguleiðir eru um svæðið.
Frá Teigarhorni er haldið áfram á Djúpavog þar sem margvísleg afþreying og þjónusta er í boði. Hægt er að fá sjálfsleiðsögn um þorpið með smáforritunum Wapp og PocketGuide, fara í fuglaskoðun um Búlandsnesið, fara í sund, ganga um og skoða fornar menningarminjar sem eru áberandi innan bæjarins, skoða gömlu húsin, kíkja í söfnin og margt fleira. Auk þess eru margar skemmtilegar gönguleiðir umhverfis þorpið. Á Djúpavogi er m.a. hótel, verslanir, veitingastaðir og söfn.
TILLAGA AÐ GÓÐUM DEGI –DJÚPIVOGUR - EGILSSTAÐIR
Þegar dagur rís á Djúpavogi er ágætt að skella sér í gönguferð um Hálsaskóg, rétt utan við afleggjarann að þorpinu. Þar er nokkuð um tóftir og hleðslur sem og listaverk eftir Vilmund Þorgrímsson. Síðan liggur leiðin inn Berufjörðinn og upp fjallveginn (veg 939) um Öxi. Endurbætur fóru fram á veginum frá 1998-2010 og eftir þær flokkaðist vegurinn sem heilsársvegur en engu að síður er vegurinn brattur og á tíðum glæfralegur. Ástæða er til að vara lofthrædda við en ef skyggnið er gott er útsýnið yfir Berufjörðinn engu líkt og ef heppnin er með í för má sjá hreindýr á heiðinni.
Þegar komið er niður af Öxi liggur leiðin um Skriðdal á Fljótsdalshéraði. Dalurinn er allbreiður neðst en klofnar innar um fjallið Múlakoll, í tvo dali, Norðurdal og Suðurdal. Árið 1995 fannst forn gröf rétt sunnan Þórisár í Skriðdal, spölkorn ofan við þjóðveginn. Þetta reyndist eitthvert merkasta kuml frá landnámsöld, sem fundist hefur hér á landi. Grautarskál, sem fannst meðal munkanna, vakti mikla athygli en hún varð til þess, að sumir eigna kumlið landnámsmanninum Graut-Atla. Kumlinu var komið fyrir með upphaflegum ummerkjum í Minjasafni Austurlands á Egilsstöðum. Árið 1954 var Rafmagnsveitum ríkisins heimilað að virkja Grímsá á Völlum með allt að 2,8 MW virkjun við Grímsárfoss sem var um 18 m hár.
Tillaga að útúrdúr: Hafirðu tíma er vel þess virði að renna inn á Hallormsstað. Hallormsstaðaskógur er talinn stærstur skóga á Íslandi, um 740 hektarar. Hann er að mestu náttúrulegur birkiskógur en gerðar hafa verið tilraunir með innfluttar tegundir allt frá 1905. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði með tjaldsvæðum, merktum gönguleiðum og trjásafni.
Liggur leið þá til Egilsstaða sem dregur að sér fjölda ferðamanna á sumrin en svæðið er einnig spennandi kostur að heimsækja yfir vetrartímann. Þjónustustigið er hátt og finnst það á viðmóti heimamanna sem leggja metnað sinn í að gera vel við þá sem nýta þá þjónustu sem er í boði. Úrval verslana og þjónustufyrirtækja er gott en mörg stórfyrirtæki eru með útibú staðsett á Egilsstöðum.
Á svæðinu eru framúrskarandi veitingastaðir sem bjóða meðal annars upp á ferska gæðavöru úr heimabyggð. Góð hótel og gistihús eru á Héraði, tjaldstæði, orlofshús og bændagistingar. Ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á fjölbreyttar, skipulagðar ferðir alla mánuði ársins þar sem öll fjölskyldan getur fundið eitthvað við sitt hæfi. Þegar degi tekur að halla mælum við með því að skella sér í Vök böðin við Urriðavatn. Í framhaldinu er kjörið að fá sér kvöldmat á einhverjum af veitingastöðum svæðisins.