Þráðurinn hvíti – ný íslensk tónlist

29. June, 2020

Í sumar dvelja þær Þórhildur Örvarsdóttir söngkona og Helga Kvam píanóleikari á Eskifirði í boði Tónlistarmiðstöðvar Austurlands við æfingar fyrir þetta verkefni og stendur Fjarðabúum sem og öðrum til boða að koma í heimsókn á opna æfingu mánudagskvöldið 29. júní kl 20:00. Flutt verður brot af tónlistinni og verkefnið kynnt í léttu spjalli.

Þórhildur Örvarsdóttir söngkona og Helga Kvam píanóleikari hafa síðan 2014 starfað saman að fjölmörgum tónlistarverkefnum, stórum sem smáum, og flutt tónleikadagskrár út um allt land, m.a. í Tónlistarmiðstöð Austurlands. Hafa þær sérstaklega einbeitt sér að íslenskri tónlist og ljóðum og t.d. sett saman dagskrár í tali og tónum um Huldu skáldkonu, Davíð Stefánsson, íslenska sönglagið og íslensk Maríuvers. Á þessum tíma hefur orðið til mjög náið samstarf og lagalistarnir orðnir langir og margir. Í undirbúningi þessara verkefna hefur verið lögð sérstök áhersla á samstarf við tónskáld og þær hafa frumflutt verk eða útsetningar á hverju ári síðastliðin 4 ár. Nú er þetta orðinn dágott samansafn af lögum og stefna þær á að taka hluta þessara verka upp og gefa út á síðari hluta árs.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.