Sumarsýning Skaftfells
17. June, 2020 - 6. September, 2020
Sumarsýning Skaftfells opnar 17. júní kl. 16:00 í sýningarsalnum 2. hæð. Sýningin ber heitið Mon ciel, mi cielo. Hvað ertu raunverulega að meina? og samanstendur af verkum Ingibjargar Sigurjónsdóttur (f. 1985) og völdum verkum Benedikts Guðmundssonar (1907-1960).
Verk Ingibjargar snerta á „grunnviðleitninni til listsköpunar og undirstöðu myndlistar – línu, lit, myndbyggingu“ en eru um leið hluti af frásögn sem raðast saman úr brotum sem glittir í. Titill sýningarinnar er fenginn úr texta eftir Ingibjörgu þar sem hún segir m.a. „merking liggur óuppgötvuð í ómerkilegum hlutum“. Ingibjörg beinir athygli sinni að fíngerðri tjáningu í teikningu og smáatriðum sem við látum framhjá okkur fara í hversdeginum.
Ákvörðun Ingibjargar um að stilla saman verkum sínum og Benedikts Guðmundssonar hefur að gera með áhuga á grunneðli listsköpunar og formi hennar en þar að auki verðu líf hans og starf tákn fyrir tíma, fjarlægð og fjarveru sem tengir saman alla skapandi iðju. Í huga Ingibjargar er „eitthvað fallegt við hvernig flestir listamenn helga líf sitt listinni, gera verk sem að öllum líkindum munu gleymast eða týnast. Það er fegurð í því að búa til öll þessi verk fyrir gríðarflæmi óminnis … einhvers staðar finnst mér það áhugavert og fallegt. Það hefur eitthvað að gera með kjarnann í því af hverju við vinnum nokkur verk yfir höfuð og hvað það þýðir að vera listamaður.“