BRASember!

BRAS – Menningarhátíð barna og ungmenna er haldin í annað sinn á Austurlandi nú í september og fram í október. Fjölmargir taka höndum saman við að vinna með börnum og fyrir börn í fjölbreyttri og spennandi listsköpun þar sem þemað „Tjáning án tungumáls“ er yfirskriftin.

Menningarmiðstöðvarnar þrjár á Austurlandi, Austurbrú, sveitarfélög, skólar og félagasamtök hafa undirbúið og skipulagt fjölbreytta listviðburði þar sem börn eru í fyrirrúmi. Skaftfell, myndlistarmiðstöð Austurlands, býður grunnskólabörnum upp á námskeið í farandlistum, Tónlistarmiðstöð Austurlands býður grunnskólabörnum upp á fyrirlestraröð sem kveikir áhuga á tónlistariðkun og tónlistarsköpun í tengslum við Upptaktinn á Austurlandi, tónsköpunarverðlaun barna í 5.-10. bekk. Þá býður Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs unglingum í leikhús. Þessu til viðbótar eru menningarmiðstöðvarnar með alls konar opna viðburði, t.d. dansnámskeið, námskeið í prentun, sýningu á teikningum úr barnabókum og svo mætti lengi telja.

Gestir í heimsókn

Góðir gestir koma í heimsókn, leiksýningar verða haldnar fyrir leikskólabörn, ritlistarmiðjur í grunnskólum og opin dansnámskeið. Síðan ætlar Maxímús Músíkús að heiðra Austurland með nærveru sinni og ætlar hann, ásamt Sinfóníuhljómsveitum Austurlands og Norðurlands, að gleðja börn og fullorðna með skemmtilegri tónlistarupplifun á Eskifirði, Egilsstöðum, Seyðisfirði og Vopnafirði.

Og það er fleira: Bæjarsirkusinn, í samstarfi við List fyrir alla, kemur í bæinn! Öllum grunnskólanemendum er boðið í sirkus á skólatíma og verða sýningar haldnar á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Egilsstöðum í góðu samstarfi við sveitarfélögin og grunnskólana.

Austurbrú, Menntaskólinn á Egilsstöðum og Verkmenntaskóli Austurlands hafa tekið höndum saman og bjóða nemendum einnar einingar áfanga í sirkuslistum og sjá sirkuslistamennirnir ásamt austfirskum dansara um kennsluna. Nemendur menntaskólanna vinna í smiðjum í heila viku og læra þar ýmislegt eins og loftfimleika, djöggl og akróbatík. Fimleikadeildir og fleiri fá einnig að njóta góðs af heimsókn sirkusfólksins því boðið verður upp á smiðjur í samstarfi við þær og fleiri aðila.

Þátttaka íbúa er mikilvæg

Sveitarfélögin hér fyrir austan leggja mikinn metnað í að vera með og má finna dagskrá í öllum sveitarfélögum og flestum byggðakjörnum sem tengist BRAS. Hefur viðburðum fjölgað til muna frá því sem var í fyrra og sem dæmi má nefna að Minjasafn Austurlands býður upp á fornleifasmiðju, leikjasmiðju og tálgunarsmiðju. Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði býður upp á vinnusmiðju í hljóðupptöku og hæfileikakeppni verður haldin á Vopnafirði. Ungir listamenn sýna verkin sín og viljum við sérstaklega vekja athygli á sýningu Heiðdísar Lífar Tryggvadóttur sem haldin verður bæði í Bustarfelli og í Tryggvasafni í Neskaupstað.

Hápunkturinn

Laugardaginn 14. september verður svo Hápunktur BRAS í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Þar verður uppskeruhátíð hátíðarinnar þar sem gestir geta séð afrakstur þeirra listviðburða sem liðnir eru eða enn í gangi og kynningar á þeim listviðburðum sem framundan eru. Nemendur úr menntaskólasmiðjunni sýna það sem þeir lærðu, Bæjarsirkusinn leikur listir sínar og BRAS-dansinn verður stiginn.

Íbúar Austurlands eru hvattir til að safnast saman og taka þátt. Vakin er athygli á því að aðgangur er ókeypis á Hápunktinn og á nánast alla viðburði BRAS nema annað sé tekið fram.

Það að upplifa og taka þátt í sköpun og listviðburðum með börnum er einstakt; að finna gleðina, spenninginn og innlifunina í gegnum þau er eitthvað sem fullorðna fólkið ætti að gera mun oftar því upplifun barnanna er fölskvalaus og sönn. Nú er tækifærið því framboðið á listviðburðum í september er ótrúlega fjölbreytt og vonumst við til mikillar þátttöku um allan fjórðunginn.

Gleðilegan BRASember!

Deila
Lesa nánar