Um hátíðina

BRAS er menningarhátíð þar sem börnum og ungmennum er gefið tækifæri til að skapa og upplifa listir og menningu í heimabyggð. Hátíðin var haldin í fyrsta skipti í september 2018 og hefur verið haldin á hverju hausti, síðan þá. 

Einkunnarorð hátíðarinnar eru Þora! Vera! Gera! enda er leiðarljós hátíðarinnar að hvetja börn á Austurlandi til að þora að vera þau sjálf og framkvæma á eigin forsendum. Markmiðið er að búa til vettvang þar sem öll börn á Austurlandi geta unnið saman á jafningjagrundvelli óháð móðurmáli, tungumálakunnáttu og búsetu. Unnið er þvert á þjóðerni, byggðakjarna og aldur. 

Önnur markmið með BRAS eru meðal annars þessi:  

  • Að börn kynnist fjölbreyttum aðferðum listanna við skapandi vinnu. 
  • Að opna augu barna og ungmenna á Austurlandi fyrir mikilvægi samveru, samkenndar og samstöðu. 
  • Að gefa börnum tækifæri til að kynnast á nýjan hátt og skilja hvert annað út frá nýjum forsendum. 
  • Að auka virðingu og umburðarlyndi meðal barna og ungmenna. 
  • Að börn meti að verðleikum fjársjóðinn sem felst í aðgengi að ólíkum menningarheimum. 
  • Að nota listsköpunina til að byggja brýr á milli þjóðerna, aldurshópa og byggðakjarna. 
  • Að hvetja austfirskt listafólk til að bjóða upp á viðburði fyrir börn og ungmenni í heimabyggð 
  • Að hvetja forráðamenn til að njóta menningar og listar með börnum sínum í heimabyggð 

 

BRAS til framtíðar

Sem fyrr segir var BRAS haldin í fyrsta skipti 2018 og hefur verkefnið verið í stöðugri þróun síðan þá. Það hefur einnig stækkað mikið og sl. ár má segja að meginþorri barna og ungmenna á Austurlandi hafi fengið listar- og/eða menningarviðburð inn í skólann sinn, eða haft aðgang að slíku í sinni heimabyggð. 

BRAS er samstarfs- og samvinnuverkefni skóla og sveitarfélaga á Austurlandi auk þess sem menningarmiðstöðvarnar þrjár gegna lykilhlutverki. Þá er mjög gott samstarf við List fyrir alla og ýmsar stofnanir á Austurlandi. Verkefninu er stýrt af stýrihópi BRAS en í honum sitja m.a. fulltrúar frá menningarmiðstöðvunum, sveitarfélögunum og Austurbrú. Gríðarlegur metnaður og samstaða er um að hátíðin sé sem veglegust og fái að þróast, dafna og vaxa og er hátíðin orðin einn af stærri viðburðum sem haldnir eru í fjórðungnum. Þegar hátíðinni lýkur ár hvert er unnin könnun á því hvernig til tókst og í framhaldinu er heildarsýn um framtíð BRAS þróuð og endurskoðuð. 

Hátíðin er samstarfsverkefni sveitarélaganna, menningarmiðstöðva á Austurlandi, List fyrir alla, Landverndar og Austurbrúar.Hátíðin er samstarfsverkefni sveitarélaganna, menningarmiðstöðva á Austurlandi, List fyrir alla og Austurbrúar.

Styrktaraðilar

Aðalstyrktaraðilar hátíðarinnar eru Barnamenningarsjóður og Sóknaráætlun Austurlands og Alcoa Fjarðarál

Takk! Takk! Takk!