Austurland: Topp 5

Fjallaleiðsögumaðurinn Skúli Júlíusson hefur gert fjallgöngur að lifibrauði sínu í gegnum gönguhópinn Wild Boys og býður ferðamönnum upp á leiðsögn á austfirsk fjöll.

„Ég er alinn upp í fjallgöngum síðan ég var smápjakkur. Ég er búinn að fara flest fjöllin í bókinni oft, kannski sum alltof oft,“ sagði Skúli í viðtali við fréttavefinn Austurfrétt fyrir stuttu. „Það er erfitt að útskýra hvað dregur mann á fjöllin en við sem stundum þau skynjum einhvern kraft og hleðslu sem maður fær á fjöllunum.“

Í fyrra gaf hann út  fjallaleiðsögubókina 101 Austurland – Tindar og toppar, sem innihélt  greinargóðar lýsingar á 101 gönguleið á Austurlandi.

Við báðum hann um að velja sínar „topp 5“ gönguleiðir á Austurlandi.

DYRFJÖLL

Gönguleiðin á hæsta tind Dyrfjalla er að mínu mati ein flottasta fjallgönguleið landsins. Líklega er það fjölbreytileikinn á henni sem gerir þetta svo mikilfenglegt. Ég hef farið með fjölmarga hópa á þennan tind við hinar ýmsu aðstæður og fyrir mér er það alltaf jafn skemmtileg upplifun.

Gengið er frá svokallaðri Brandsbalarétt sem er innan við þorpið Bakkagerði á Borgarfirði eystra. Gengið er upp með Jökuldal og síðan upp í efri-Jökuldal. Á leiðinni má sjá tærar tjarnir og ósnortin mosavaxin svæði í bland við stórskorin fjöll. Þegar komið er upp undir Dyrnar hefst fjallgangan fyrir alvöru og er farið upp jökulskálina í  rák eða syllu í fjallinu sjálfu. Leiðin er aðeins fyrir fólk sem er vant krefjandi fjallgöngum.

SKÚMHÖTTUR Í SKRIÐDAL

Í Skriðdal á Héraði eru mörg spennandi fjöll til göngu. Eitt af þeim er Skúmhöttur sem er eitt af mínum uppáhalds fjöllum. Skúmhöttur telst til hæstu fjalla á Austurlandi enda tæplega 1.230 metrar á hæð yfir sjávarmáli. Leiðin á fjallið er nokkuð augljós þegar maður horfir á það úr Skriðdal en gott er að hefja gönguna frá gamla veginum við ána Þórisá. Gengið er upp með ánni að sunnanverðu og öxlinni fylgt alla leið að hæsta hluta fjallsins. Best er að komast upp brattasta hlutann að vestan en síðan er frekar létt ganga á hæsta tind Skúmhattar. Útsýnið yfir Héraðið og Austfirðina er hreint magnað.

SNÆFUGL

Óhætt er að fullyrða að ekki eru mörg fjöll á Íslandi sem bera nafnið fugl. Snæfugl er fjall norðan við utarlegan Reyðarfjörð, brattur á að líta og hömrum settur. Gönguleiðin hefst við eyðibýlið Karlsskála en þangað er fært fjórdrifsbílum. Gengið er eftir stikaðri leið langleiðina að fjallinu en leiðin liggur um Karlsskálaskarð til Vöðlavíkur. Uppgangan á fjallið sjálft er að sunnanverðu en þarna reynir aðeins á útsjónarsemi göngumannsins. Á mosavöxnum toppi fjallsins er varða með gestabók og fullt af útsýni til allra átta. Snæfugl er aðeins fyrir fólk með reynslu af krefjandi fjallgöngum.

TUNGUFELL

Inn af Eyvindarárdal skammt suð-austan við Egilsstaði er skemmtilegt fjall sem heitir Tungufell. Fjallið er lítið þekkt og frekar líklegt að fáir hafi klifið það. Úr Eyvindarárdal er mjög spennandi leið á fjallið sem er frekar bratt með mjóum hrygg sem liggur að toppi fjallsins. Gönguna er best að hefja við göngubrúna yfir ána Slenju sem rennur úr Slenjudal. Þaðan er leiðinni sem liggur yfir Eskifjarðarheiði fylgt yfir brúna á Tungudalsá áður en stefnan er sett á Tungufellið sjálft. Frá toppi Tungufells er hægt að komast niður í Hrævarskörð og ganga síðan norður eftir Svínadal og loka hringnum við Tungudalsá.

SNÆFELL

Ekki er hægt að sleppa hæsta fjalli landsins utan jökla í þessari upptalningu en margir kalla Snæfellið „konung íslenskra fjalla.“ Fyrir mér er þetta aðal fjallið og ber ég ávallt mikla virðingu fyrir því. Ég hef þurft að lúta í lægra haldi fyrir öflum þess en einnig átt mínar bestu stundir á því á öllum árstímum.
Aðal gönguleiðin hefst skammt innan við Snæfellsskála og er leiðin stikuð upp undir jökulhettuna. Leiðin hentar flestu fjallgöngufólki og skiptast á brattir og þægilegri kaflar. Útsýnið af toppi Snæfells á björtum dögum er erfitt að toppa.

Lesa nánar