Austfirskur vetur í Think outside the Circle

Þriðja tölublað tímaritsins Think outside the Circle er komið út. Ritið er málgagn Áfangastaðarins Austurlands og inniheldur greinar og viðtöl við Austfirðinga. Þemað að þessi sinni er veturinn. Það er gefið út á ensku og er dreift á völdum stöðum vítt og breitt um Austurland og nýtt sem kynningarefni á ferðasýningum sem Austurbrú tekur þátt í. 

Tímaritinu var hleypt af stokkunum vorið 2017 samhliða þess að vefurinn Austurland.is var opnaður en hann veitir innsýn í líf og störf Austfirðinga auk þess að þjóna hlutverki verkfærakistu sem kemur að góðu gagni fyrir fyrirtæki, sveitarfélög og alla Austfirðinga sem vilja þróa Austurland áfram sem spennandi áfangastað. Þetta er, sem fyrr segir, þriðja tölublað tímaritsins og að þessi sinni var því ritstýrt af dönsku blaðakonunni Nönnu Vibe Spejlborg Juelsbo sem búsett er á Seyðisfirði. Hún segir um nýja tölublaðið:

„Að þessu sinni vildum við deila vetrarsögum frá Austurlandi – þetta er sá tími sem margir halda að við liggjum í dvala en það er öðru nær. Við vinnum mikið, njótum útivistar og tíma með fjölskyldu og vinum. Við gerð blaðsins fórum við víða um landshlutann og heimsóttum fólk sem deildi með okkur persónulegum sögum og földum fjársjóðum.“

María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, hefur haft umsjón með verkefninu Áfangastaðurinn Austurland frá byrjun og segir það skipta miklu máli að til sé vandað markaðsefni fyrir Austurland eins og þetta. „Við ákváðum strax í upphafi að þótt tímaritið ætti að vera gagnlegt sem kynningarefni t.a.m. á ferðasýningum ætti það fyrst og fremst að vera gott lesefni, fallega uppsett, umfjöllunarefnin áhugaverð og tónninn sannur. Það er sú áhersla sem við hvetjum austfirsk fyrirtæki til að hafa að leiðarljósi í sinni markaðssókn og það er grundvallarstef í okkar áfangastaðavinnu – að vera ekta.“

Fram til þessa hefur verið gefið út eitt tölublað á ári og segir María að markmiðið sé alltaf að gefa út fleiri tölublöð á ári hverju: „Helst myndum við vilja gefa út blað á nokkurra mánaða fresti og vonandi verður það raunin í náinni framtíð,“ segir hún.

Tímaritinu verður dreift á upplýsingamiðstöðvum og helstu hótelum og þá má nálgast það hér til vinstri auk fyrri tölublaða.

 

Deila