Hringavitleysa
BRAS 2023
BRAS menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi var haldin í sjötta sinn í ár. Þemað var hringurinn og nafn hátíðarinnar Hringavitleysa. Einkunnarorð hátíðarinnar sem fyrr: Þora! Vera! Gera! Í því felst að börn á Austurlandi eru hvött til að þora að vera þau sjálf og framkvæma á eigin forsendum. Fjölbreyttir viðburðir um allan fjórðung fóru fram og var dásamlegt að geta komið saman og notið lista og menningar.
Framkvæmd
Hátíðin hófst í lok ágúst og síðustu viðburðir fóru fram í byrjun desember (auk þess sem einn viðburður var haldinn „utan dagskrár“, í apríl 2023. Hátíðin teygði sig því yfir lengri tíma en áður, en það var mjög ánægjulegt að sjá fjölda viðburða og listamanna aukast frá fyrra ári.
Verkefnastjóri BRAS hélt utan um skipulag og sá um samskipti milli listamanna og þeirra sem tóku við viðburðunum. Þeir fóru ýmist fram í skólum, úti, í almennum rýmum, söfnum, menningarmiðstöðvum og víðar og þurfti verkefnastjóri að aðstoða nánast alla listamenn við að ganga frá samningum um aðstöðu, uppihald, gistingu í mörgum tilfellum, ferðalög milli staða, skipulag ferða og ýmislegt fleira. Töluverður tími fór í þessa vinnu hjá verkefnisstjóra en skilaði sér margfalt í góðri dreifingu viðburða í alla byggðakjarna á Austurlandi, góðri dreifingu í tíma (þ.e. viðburðir sköruðust nánast ekkert) og góðri dreifingu á aldri þátttakenda.
Sérstaklega var óskað eftir þátttöku austfirskra listamanna og gekk það framar vonum. „Nýir“ austfirskir listamenn voru duglegri að hafa samband en áður og óska eftir því að fá að bjóða uppá viðburði, auk þess sem þau sem m.a. tóku þátt í hátíðinni 2022 höfðu aftur samband og vildu vera með og bjóða uppá ný verkefni. Það er mjög ánægjulegt að sjá að listafólk á svæðinu áttar sig á möguleikunum sem felast í því að stunda sína listsköpun í og við heimabyggð. Aðeins einn samstarfsaðili, Sköpunarmiðstöðin svf., þurfti að draga sig úr samstarfinu, vegna persónulegra aðstæðna starfsmanna, auk þess sem hluti af samstarfinu við Havarí fluttist fram í apríl 2024, einnig vegna persónlegra aðstæðna viðkomandi.
Menningarmiðstöðvarnar þrjár buðu uppá sín stóru fræðsluverkefni, eins og til stóð skv. umsókn. Tónlistarmiðstöð Austurland bauð uppá verkefnið „Hringferðin – Tónlistarferðalag með dj flugvél og geimskip og tóku um 850 börn þátt í því. Skaftfell bauð unglingastigi uppá verkefnið „Laust mál“ en það var unnið samhliða haustsýningu Skaftfells. Um 100 unglingar úr sjö grunnskólum tóku þátt, ýmist í Skaftfelli eða í heimaskólum. Sláturhúsið sýndi leikverkið „Hollvættur á heiði“ fyrir fullu húsi, alls 8 sýningar. Mikill fjöldi barna og fullorðinna sá leikverkið sem hefur hlotið mikið lof. Minjasafn Austurlands var með fjölmörg verkefni, m.a. smiðju um langspil og baðstofuna, auk tálgusmiðju og tóvinnusmiðju. Múlaþing og Fjarðabyggð buðu uppá fjölbreytt verkefni sem dreifðust vel og víða um fjórðunginn. Húlladúllan heimsótti þrjá byggðakjarna fyrir miðstig og endaði ferðina á sýningu fyrir yngstu börnin. List fyrir alla kom með verkefnið Jazz hrekkur og sýndi öllum grunnskólabörnum á Austurlandi verkið „Jazz hrekkur“ við mikinn fögnuð barna og fullorðinna. Gaman er að segja frá því að
List fyrir alla var á ferðinni í kringum Hrekkjavökuna en þá eru einmitt Dagar myrkurs haldnir á Austurlandi og passaði verkið því einstaklega vel við bæjarhátíðina Austfirðinga, þetta árið. Þjóðleikhúsið kom með sýninguna „Ég get“ og var sýnt hvoru tveggja í Múlaþingi og í Fjarðabyggð.
Samstarfið við Havarí gekk mjög vel, þ.e. sá hluti sem fram fór á þessu ári. Benni Hemm Hemm og Bjössi borkó heimsóttu alla leikskóla á Austurlandi (nema einn) og kenndu börnunum að syngja þrjú lög eftir Prins Póló. Þeir sendu síðan skólunum einfaldaðar útgáfur af lögunum, með undirspili og ætla börnin að æfa sig með starfsfólkinu fram í apríl 2024, en þá verða lögin flutt samtímis í öllum leikskólunum á afmælisdegi Svavars Péturs. Diskótekin sem áttu að vera um miðjan október flytjast fram í apríl, að ósk Berglindar, eiginkonu Svavars og verða haldin á Sumardaginn fyrsta, víða um fjórðunginn, þ.e. daginn fyrir afmæli Svavars.
Síðast en ekki síst fengum við listafólk frá Spáni, Neamera Teatro en þau eru grímugerðarlistafólk. Þau buðu miðstigi í fjórum „smærri“ skólum fjórðungsins uppá grímugerðarsmiðjur, auk þess sem í boði voru tvær sýningar fyrir yngri börn, þar sem pappír og endurvinnsla voru í aðalhlutverki. Ánægjulegt er til þess að hugsa að hróður BRAS hafi borist út fyrir landsteinana og að erlent listafólki sækist í að vera með á hátíðinni.
Þátttaka barna var almennt góð, en þó misjafnt eftir viðburðum. Sumir viðburðurnir voru mjög fjölmennir og skal þar helst nefna dj flugvél og geimskip, List fyrir alla, Hollvættur á heiði og lögin hans Prins póló. Húlladúllan, Neamera leiksýningarnar, listviðburðir í Fjarðabyggð og á Minjasafninu, auk sýningar Þjóðleikhússins, skólaviðburða og margra fleiri voru einnig vel sóttir. Flestir viðburðirnir kölluðu eftir virkri þátttöku barnanna og ungmennanna, t.d. með dansi, söng, listsköpum, samtali og ýmsu fleiru.
Okkur tókst að fylgja verkáætlun nokkuð vel, en tímaáætlun lengdist frá því sem til stóð. Þegar listafólk óskar eftir því að fá að koma á tíma sem er utan hefðbundins BRAS tímabils þótti okkur eðlilegt að bjóða þau velkomin, þar sem BRASið er fljótandi fyrirbæri og þemað hringavitleysa bauð einmitt uppá alls konar viðburði, á alls konar tímum í öllum byggðakjörnum.