BRAS 2018
BRAS menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi var haldin í fyrsta sinn á Austurlandi haustið 2018. Þótti hátíðin takast einstaklega vel og var ákveðið að halda áfram með verkefnið og stefnir í að BRAS hátíð 2019 verði enn stærri og viðameiri en í fyrra.
Dagskrá BRAS 2018
Hátíðin hófst með stórri opnunarhátíð þann 8. september þar sem flutt var og samin ný tónlist á fjórum stöðum samtímis. Þar var gagnvirk stafræn tækni nýtt til þess að tengja saman barnahópa á þremur stöðum á Austurlandi og unnu þau að lagasmíð með hinum þjóðþekkta tónlistarmanni Daða Frey sem staddur var í Reykjavík. Opnunarhátíðin fór fram samtímis á þremur stöðum í einu, í Valaskjálf á Egilsstöðum, í Herðubreið á Seyðisfirði og Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði.
Fjölbreyttir viðburðir og listsmiðjur voru á dagskrá BRAS.
Í framhaldinu tóku við þrjár vikur af ýmis konar viðburðum, smiðjum, sýningarheimsóknum og fleiru m.a. í samstarfi við skólana á Austurlandi. Hópur listkennslunema frá Listaháskóla Íslands leiddi skapandi smiðjur í grunnskólum Fljótsdalshéraðs, Skaftfell bauð öllum grunnskólanemum á Austurlandi uppá leiðsögn um sýningu þar, listamenn stjórnuðu smiðjum í grunnskólum Fjarðabyggðar, danssýning var í boði víða um fjórðunginn og einnig raftónlistarsmiðja. Þjóðleikhúsið lagði til brúðusýningu frá Brúðuheimum, Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs og Fjarðabyggðar buðu yngri unglingum uppá tónlistardag og ball í Sláturhúsinu og margt fleira var í boði.
Frá smiðju á Fáskrúðsfirði.