Ný sjónarhorn á hversdaginn
„Það er nauðsynlegt fyrir öll samfélög að sjá sig með annarra augum endrum og eins, því þá geta opnast leiðir til brjóta upp vanahugsunina. Eins og þá að hjá manni sjálfum gerist aldrei neitt merkilegt,“ segir Karna Sigurðardóttir kvikmyndagerðarkona og nýráðin forstöðukona Menningarstofu Fjarðabyggðar. Um næstu helgi frumsýnir hún 690 Vopnafjörður á heimildarmyndahátíðinni Skjaldborg á Patreksfirði 4. júní. Það segir hún stórt skref.
„Ég fylgdist með daglegu lífi á Vopnafirði í rúm fjögur ár, en Vopnfirðingar fylgdust ekki síður með mér þroskast og þróast í þessari vinnu,“ segir Karna. „Þetta var mjög sérstök reynsla. Mér finnst Vopnafjörður vera minn þó ég eigi þar ekki heimili, og ég tengist þar mörgum vinaböndum. Þetta hófst sem lítið kvikmyndaverkefni þar sem við og sveitafélagið Vopnafjörður vorum sammála um að ég fengi að halda gestsauganu. Það var eina krafan sem þau gerðu þegar við hófum gerð myndarinnar, að við héldum okkar persónulegu sýn á verkefnið. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið það frelsi, en það er ekki alltaf auðvelt að halda hlutleysi þegar tengsl við fólkið og staðinn þéttast,“ segir Karna.
Hún segir að sér þyki mjög vænt um Vopnafjörð eftir þessa reynslu og langi mikið til að önnur verkefni sem hún vinnur að á staðnum gangi upp. „Framtíð samfélagsins skiptir mig svo ótrúlega miklu máli og því verð ég að þora að nálgast hann eins og heimamanneskja sem vill í einlægni takast á við stóru spurningarnar. Án þess hefði myndin aldrei orðið sönn.“
Hún segir heimildamyndina vera ljóðræna mynd af sjónarhorni þeirra sem koma fram í henni af einlægni og kjarki. „Ef hana hefði skort einlægni þeirra og kjark; þá hefði hún aldrei endurspeglað þá einlægni og kjark sem ég vil sýna með myndinni. Lítið samfélag við ysta haf veltir fyrir sér afkomu sinni og örlögum—án þess að það sé eitthvert stórkostlegt drama—og afhjúpar þau bönd og tilfinningar sem tengir fólk við staðinn sinn.“
Forsýning á Vopnafirði
„Það var mikilvægur lokapunktur í ferlinu að horfa á myndina með Vopnfirðingum. Ég sá hana í allt öðru ljósi en inni í dimmu klippiherberginu. Það verða svo sérstök tengsl milli fólks sem upplifir sýningu saman, bæði í leikhúsi og kvikmyndahúsi. Ég er mjög þakklát að hún fór ekki beint í sjónvarpið svo hver gæti horft á hana í sínu horni. Vopnfirðingar voru tilbúnir til að ræða við mig sína upplifun af myndinni og það er mér ómetanlegt,“ segir Karna. Hún segist ætla taka smá tíma til að melta það sem kom fram og meta stöðuna eftir frumsýninguna. „Kannski á ég eftir að stelast inn í klippiherbergið í sumar og kannski ekki. Það eru örfá atriði sem ég hef verið að melta lengi og verð að hafa í sátt við eilífðina, áður en ég sleppi myndinni út í lífið. Það er mér mikilvægt að vera sátt við heildarmyndina eftir þetta langa ferli.“
Karna segir að Vopnfirðingar hafi tekið myndinni vel og margir hafi upplifað hana raunsanna. En það hljóti að vera skrýtið að sjá kvikmynd um samfélagið sitt, og meta hana í samhengi við eigin mynd af samfélaginu. „Mér finnst samfélagið treysta mér eins og ég treysti þeim, þó það séu ekki allir sammála mér. Ég vona að Vopnfirðingar—við Vopnfirðingar—getum rætt sjónarhorn myndarinnar áfram í framtíðinni. Mér finnst eðlilegt að menn þurfi að melta það aðeins hvaða tilfinningar fylgja því að upplifa hana. Það verður verulega áhugavert að sjá hvernig viðtökur myndin fær á Skjaldborg, og hvernig ég upplifi að horfa á hana í öðrum hópi.“
Ímynd og sjálfsmynd
Karna segir öll lítil samfélög velta ímynd sinni mikið fyrir sér. „Okkur finnst við eiga að geta stjórnað ímynd annarra af okkur ef við viljum það. Við erum vön að berjast við það á samfélagsmiðlunum. Þess vegna höldum við ákveðinni mynd á lofti gagnvart þeim sem eru utanaðkomandi en höldum kannski áhyggjum okkar og tilfinningum til hlés. Í myndinni upplifi ég að við stígum inn fyrir þennan hring og viðmælendurnar segi hug sinn í raun og veru af einlægni.“
Karna segir jafnframt að það sé mjög mismunandi hvernig við heyrum það sem fólk segir. „Ég get alveg skilið að menn gætu séð myndina sem neikvæða, en þá er horft fram hjá allri fegurðinni sem hún leggur sig fram við að miðla. Fegurðinni í fólkinu, þokunni, hversdagsleikanum og tóminu sem lítill staður býður uppá. Og allri bjartsýninni og ástinni sem unga fólkið ber í raun til staðarins.“ Karna segir að fegurðarskyn sitt skíni í gegn og þeirri nálgun fylgi kannski ekki allir. „Fyrir mér er fegurð ekki falin í myndum af sólskinsdögum og sigurmörkum en ég vona að mér hafi tekist að miðla þeirri hversdagslegu fegurð sem ég upplifi á Vopnafirði. Það er ekki öll fegurð keppnis-fegurð, því ef maður er alltaf í keppni og samanburði þá er svo auðvelt að lemja sig niður. Ég upplifði það líka oft að Vopnfirðingar berja sjálfa sig og samfélagið niður með samanburði og ótta við að standa uppúr. Þannig að sjálfsmyndin, þrátt fyrir að það sé svo ótrúlega margt gott við Vopnafjörð, heldur ekki alveg utan um hvað fólkið þar er í raun sátt í umhverfinu sínu. Ég met það þannig að Vopnafjörður sé sterkari en sjálfsmynd samfélagins. Það var hvimleitt að ég komst ekki á neitt íbúaþinganna sem var haldið í firðinum á síðastliðnu ári því ég hefði verið mjög til í að taka umræðuna um framtíð Vopnafjarðar“
Listin hefur hlutverk í öllum samfélögum
„Lítil samfélög eru opin á einn hátt en lokuð á annan, og maður verður að reyna átta sig á því hvort maður má vera einlægur þegar maður er að reyna komast inn í það, eða hvort maður verður að leika eitthvað ákveðið hlutverk. Þessi dans finnst mér mjög áhugaverður, enda laðast ég alltaf að litlum samfélögum. Ég elska Vopnafjörð því að ég hef kynnst einlægni hans, með því að mæta honum með einlægni minni. Þess vegna hef ég ekki áhyggjur af því hvort myndin er skemmtileg eða ekki. Listinni er ætlað að varpa nýju ljósi á hluti, það er hlutverk hennar, og heimildamyndagerð er listform fyrir mér,“ bætir Karna við þó hún viðurkenni fúslega að kvikmyndagerð sé óttalegt plat ef maður nálgast hana þannig. „Það hefði ekki verið neitt vandamál að klippa saman brosandi fólk í góðu veðri, rétt eins og bankaauglýsingarnar. En hvernig líður fólki eftir svoleiðis mynd? Kemur það út og segir: þetta var góð mynd því hún sýndi samfélag í „góðu ljósi“—eða segjum við ekki frekar að eitthvað sé gott því að við upplifum að það sé satt og trútt?“
Kynslóðamunur í upplifuninni
„Ég upplifi að mín kynslóð Vopnfirðinga átti sig á bjartsýni myndarinnar, þó hún myndi seint kallast auglýsingamynd fyrir sveitafélag. Ég held að lítil samfélög græði ekkert á því að segjast vera eitthvað annað en þau eru. Fólk áttar sig hvort eð er á gabbinu þegar það er komið á staðinn, og þá er nær að halda virðingu fólks en reyna að plata það til sín.“ Karna segist jafnframt vona að myndin geti glætt samræðu samfélagsins um hvert það vill stefna. Myndin feli þó ekki í sér tillögur eða lista yfir kosti og galla samfélagsins. „Hún er fyrst og fremst og eiginlega bara eingöngu verk sem fangar fegurðina í hversdeginum á þessum stað og í þessu samfélagi sem hefur verið að ganga í gegnum erfiða tíma—sem voru reyndar mun erfiðari á þeim árum sem myndin var tekin en þeir eru í dag. Það væri áhugavert að gera aftur verk um Vopnafjörð eftir fimm eða tíu ár og sjá hvernig samfélagið hefur þróast.“
Reynslan nýtist á nýjum vettvangi
Í vikunni var opinberað að Karna mun veita nýju menningar- og samfélagsfyrirbæri forstöðu þegar Menningarstofa Fjarðabyggðar verður sett á laggirnar nú í sumar. Telur hún reynsluna af gerð myndarinnar og þeim verkefnum sem hún hefur stýrt hingað til gagnast á nýjum vettvangi? „Alveg tvímælalaust! Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni og nýta hugmyndafræði mína um menningaruppbyggingu á landsbyggðinni í stærra samhengi. Vopnafjörður hefur skólað mig helling og mín markmið mótast af kokteil af listrænum metnaði og virðingu fyrir samfélaginu eins og það er. Ég þarf að hlusta og nema samfélagið og átta mig á því hvar er hægt að tengja saman, skjóta að nýjum vinklum og hvar má brjóta upp. Ástæðan fyrir að við viljum fá listamenn til lengri eða styttri dvala á Austurlandi er að þeir varpa oft nýju ljósi á samfélagið, því þeir sjá það frá öðru sjónarhorni og formgera það. Það færi allt í rugl ef heimamennirnir leyfðu sér ekki að hvíla í örygginu og vissunni dags daglega, en steypan harnar ef við hrærum ekki í henni reglulega.“