Og engin rauð ljós! VRÚMMM!
Ég hef átt því láni að fagna, að fá að taka þátt í einu áhugaverðasta samstarfsverkefni á Austurlandi til síðari ára. Áfangastaðurinn Austurlandi er samstarfsverkefni sem ferðaþjónustan á Austurlandi hratt af stað fyrir nokkrum árum í samstarfi við sænska áfangastaðahönnuðinn Daniel Byström, Austurbrú og sveitarfélög landshlutans. Markmiðið er að gera Austurland að eftirsóknarverðum áfangastað fyrir íbúa jafnt sem ferðamenn. Að einstökum áfangastað fyrir mig og þig og hvern sem verða vill.
Á þessari lærdómsríku vegferð, sem áfangastaðarvinnan hefur reynst mér, hef ég iðulega staðið andspænis sjálfri mér sem aðfluttum Austfirðingi. Að flytja austur, stendur að mörgu leyti fyrir sterka ef ekki einstaka upplifun. Borin og barnsfædd malbiksrotta af höfuðborgarsvæðinu og svo miðaldra, að þegar ég var í sveit í Mosó í gamla daga, þá hét Mosfellsbær Mosfellssveit, þá greip mig afar sterk frelsistilfinning.
Helst af öllu langaði mig hlaupa upp um fjöll og firnindi og hrópa „Jíhaa“ uppi á hæstu tindum. Mér fannst þetta geggjað. Frelsið að vera laus undan umferðinni og bílasultunni á höfuðborgarsvæðinu var ekki síður ótrúlegt, að geta setið í bílnum mínum og andað, laus undan útblæstrinum í hundruðum bíla fyrir framan mig. Og engin rauð ljós! VRÚMMM.
Tíminn er síðan alveg sérstakur þáttur. Ekki að ég geti útskýrt þetta til fulls, en það er eins og Austurland sé í öðru „tímabelti“, ef svo má segja. Kannski tengist þetta aukinni sálarró eða þeim tíma sem ávinnst við það, að vera laus úr umferðaröngþveiti og endalausri bílastæðaleit þéttbýlisins fyrir sunnan. Kannski snýst þetta um meiri nánd við sjálfan sig og umhverfið. Það stóra í því litla eða það fíngerða í því stóra. Auknu lífsgæðum sem Austurland býður í reynd. Hver veit? Útkoman er í það minnsta sú, að ég týndi tímanum, eins og ég hafði þekkt hann áður.
„Útlöndin“ á Austurlandi voru einnig skemmtileg uppgötvun. Þegar ég flutti á Austfirðina fyrir nokkrum árum, hafði ég komið í landshlutann aðeins örsjaldan áður. Skiptin voru teljandi á fingrum annarrar handar, það verður að segjast eins og er. Hingað komin, búin að týna tímanum og óþolinmæðinni, drakk ég í mig hafsjó af nýjum upplifunum. Loftslagið, birtan, litirnir og mannlífið. Tónlistin. Kyrrðin, víðáttan. Váá. Flugsamgöngur urðu jafnframt snar þáttur í lífi mínu, og ég man að þegar ég kom eitt sinn fljúgandi austur, eftir að hafa búið hér í nokkra mánuði, skynjaði ég þessa sérstöðu landshlutans sterkt. Ferðalagið og framandi áfangastaðurinn heltist eins og yfir mig. Fyrir gömlu malbiksrottuna, var þetta nánast eins og að ferðast til útlanda. Sú staðreynd að í þessum „útlöndum“ er meira að segja töluð íslenska, gerði upplifunina bara enn magnaðri.
Þá hefur ekki verið síður verið gaman að kynnast nýjum siðum og venjum, ekki hvað síst í orðnotkun. Það tók mig, sem dæmi, smá tíma að átta mig á því að áttir skipta hér minna máli. Í stað þess að fara vestur í bæ, austur fyrir fjall eða norður úr, fer ég nú upp á hérað, niður á firði, út eftir og jafnvel inn eftir.
Hvernig sem ég velti þessum áfangastað fyrir mér, þá er Austurland einfaldlega með‘etta. Vegir liggja til allra átta og spurningin er í raun aðeins sú, hvert viljum fara í framþróun og uppbyggingu næstu ára. Ég er sannfærð um, að ekkert er okkur ófært svo framarlega sem við erum sammála um leiðina og viljann til að vinna saman.
Eftir Helgu Guðrúnu Jónasdóttur, atvinnu- og þróunarstjóra hjá sveitarfélaginu Fjarðabyggð.