Brim

Brim stundar veiðar og vinnslu á botn- og uppsjávarfiski. Hjá fyrirtækinu eru unnin um 800 ársverk til sjós og lands. Afurðirnar eru seldar um allan heim en helstu markaðir eru í Evrópu, Asíu, Norður-Ameríku og Afríku. Brim er með samþættan rekstur veiða, vinnslu og markaðssetningar sem stuðlar að skilvirkari framleiðslu og tryggir óhefta leið aflans til kaupanda. Auðvelt er að rekja slóð afurðanna frá afhendingu alla leið aftur til sjávar.

Brim rekur afkastamikið fiskiðjuver á Vopnafirði sem er sérhæft til vinnslu á uppsjávarfiski: loðnu, síld og makríl. Loðnan er heilfryst eða unnin úr henni hrogn. Makríll er ýmist heilfrystur eða hausaður og slógdreginn. Síldin er ýmist heilfryst eða unnin úr henni samflök eða flök.

Vinnslan er vertíðarbundin. Vinnsla loðnu og loðnuhrogna er frá janúar til mars, vinnsla á makríl og norsk-íslenskri síld frá júlí til september og vinnsla á íslenskri síld frá október til ársloka.