Tónleikar með Hist Og í Bragganum
16. May, 2024
Tónlistarmiðstöð Austurlands býður öllum að koma og upplifa töfrandi sund á lokatónleikum Vordagskrár sinnar sem haldnir verða í Bragganum við Íslenska stríðsárasafnið á Reyðarfirði.
Tríóið Hist Og var stofnað sem einnar-nætur gaman, að undirlagi hljómsveitarinnar Sigur Rósar til að spila á tónlistarhátíðinni Norður og Niður árið 2017. Nú, 7 árum síðar, hefur tríóið gefið út þrjár plötur, hlotið átta tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna og Kraumsverðlaunanna og notið almennrar hylli gagnrýnenda og tónlistarunnenda.Tríóið samanstendur af Eiríki Orra Ólafssyni, Róbertu Andersen og Magnúsi Trygvasyni Eliassen.
Tónlist Hist Og er kosmísk blanda af raf- og jazztónlist þar sem spunninn er brú á milli tveggja ólíkra tónlistarheima þar sem flakkað er á milli stíla en alltaf er stutt í gamanið. Þriðja breiðskífa Hist Og, holy ghost of, kom út í nóvember 2023 og hlaut mikið lof gagnrýnenda, tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna sem besta plata ársins og fyrir tónsmíð ársins í flokki jazz tónlistar.
Það er tríóinu mikið tilhlökkunarefni að heimsækja Austurland á ný en hljómsveitin hélt eftirminnilega tónleika á Eskifirði 2021, þá í tilefni af annarri breiðskífu þeirra, hits of.
Hljómsveitin mun leika efni af öllum þremur breiðskífum sínum og gamlir jazz smellir fá að læðast með.
Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 og það er frítt inn og gestum er velkomið að taka með sér veitingar að eigin vali.
Þess má geta að Stríðsárasafnið mun opna að nýju 1. júní.
Sjáumst í stuði og fögnum sumri!