Svefnhjól Draumhús Spegilkompa
6. April, 2025
6. apríl kl. 16:00 heldur Sinfóníuhljómsveit Austurlands tónleika í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Hljómsveitarstjóri er Guðmundur Óli Gunnarsson og einleikari Joanna Natalia Szczelina. Hljómsveitin frumflytur þar nýtt verk eftir Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur.
Miðaverð er kr. 4.990 en 2.490 fyrir börn 12 ára og yngri. Miðar fást við innganginn og munu einnig fást á tix.is.
Miðaverð er kr. 4.990 en 2.490 fyrir börn 12 ára og yngri. Miðar fást við innganginn og munu einnig fást á tix.is.
Joanna Natalia Szczelina flytur hinn glæsilega fyrsta kafla úr píanókonsert Haydns nr. 11 í D-dúr með hljómsveitinni. Hann er sá síðasti sem Haydn samdi og gerir miklar kröfur til flytjenda. Joanna lýkur framhaldsprófi í píanóleik frá Tónlistarskólanum á Egilsstöðum í vor en kennari hennar er Héctor Nicolás Gómez. Hún stefnir á áframhaldandi tónlistarnám við Listaháskóla Íslands
Hljómsveitin flytur einnig fjórðu og síðasta sinfóníu Johannesar Brahms. Þetta er sannkallað meistaraverk, bæði þokkafullt og stórbrotið, sem lætur engin ósnortin og nýtur gríðarlega mikilla vinsælda enn þann dag í dag. Það er sannkölluð ánægja að fá að flytja áheyrendum þetta stórkostlega verk!
Einnig frumflytur hljómsveitin verkið Svefnhjól Draumhús Spegilkompa sem hljómsveitin pantaði af Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur. Ingibjörg Ýr hefur undanfarin ár sett svip sinn á íslenskt tónlistarlíf og unnið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Caput, Kammersveit Reykjavíkur, Nordic Affect, Kór Breiðholtskirkju og fleiri. Verk hennar hafa reglulega verið flutt á Myrkum músíkdögum og hlotið lofsamlega dóma; tónlistargagnrýnandinn Simon Cummings segir um verk hennar Balaena sem flutt var af Kammersveit Reykjavíkur á hátíðinni árið 2023: „[Verkið] var jafnt seiðmagnað, mikilfenglegt og yndisfagurt og sýndi ljóslega að Ingibjörg er tónskáld sem á aukna athygli skilið“. Ingibjörg hefur verið útnefnd sem Bjartasta vonin í flokki Sígildrar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum og árið 2023 var verk hennar Fasaskipti þar tilnefnt sem tónverk ársins.
Á vegum Ingibjargar Ýrar hafa komið út tvær plötur í fullri lengd. Hulduhljóð með listahópnum Hlökk (sem Ingibjörg er stofnmeðlimur í) kom út 2019. Sú plata fékk Kraumsverðlaunin ásamt tilnefningu til plötu ársins í opnum flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum. Árið 2023 kom út platan Konan í speglinum sem var samstarfsverkefni hennar og Ingibjargar Fríðu Helgadóttur. Innihélt sú plata sönglög við ljóð Ingibjargar Haraldsdóttur.
Verkið Svefnhjól, Draumhús, Spegilkompa var samið fyrir Sinfóníuhljómsveit Austurlands í byrjun árs 2025. Það er innblásið af bókinni Svefnhjólið eftir Gyrði Elíasson sem kom út árið 1990.
Tónleikarnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Menningarsjóði Fjarðabyggðar, Tónlistarsjóði, ALCOA, Múlaþingi og Menningarsjóði FÍH.