Svavar Knútur í Tónspili
29. October, 2024
Aðgangur ókeypis ! // Free Entry ! // Wstęp wolny !
Tónlistarmiðstöð Austurlands og Menningarstofa Fjarðabyggðar býður upp á tónleika með Svavari Knúti í Tónspili í Neskaupstað þriðjudagskvöldið 29. nóvember klukkan 20:00.
En Svavar er á Austurlandi vegna tónlistar- og fræðsluverkefnis Menningarstofu sem ber titillinn „Upphafið – Tónlistarferðalag í textum og tónum með Svavari Knúti“. Verkefnið ferðast í skóla á Austurlandi í þessari viku þar sem Svavar Knútur leikur þjóðlög og vísnasöngva fyrir börnum og unglinga á elsta stigi grunnskólans og fjallar um hvaðan þau koma og hvernig þau marka upphafið af dægurtónlist nútímans.
Svavar Knútur starfar sem söngvaskáld og hefur getið sér gott orð bæði fyrir sína eigin frumsömdu tónlist og fyrir nálgun sína á sígild íslensk sönglög. Hann hefur vakið mikla athygli fyrir gott vald sitt á samspili söngs og undirleik hljóðfæris sem og skemmtilega og einlæga sagnamennsku milli laga. Tónlist Svavars Knúts á rætur sínar í alþýðutónlist, hann segir sögur sem eru oft persónulegar og vel krydduð með húmor inn á milli. Hann hefur ferðast víða um heim með tónlist sína og notið mikillar velgengni í Evrópu sem og heima fyrir en í byrjun árs 2024 ferðast hann um mánaðaskeið um Ástralíu og lék á fjölmörgum þjóðlagatónlistarhátíðum. Svavar Knútur hefur sent frá sér fjölda hljómplatna og sú nýjasta er væntanleg í vor en auk þess hefur hann verið í forsvari fyrir alþjóðlegu tónlistarhátíðina Melodica Acoustic Festival og verið öflugur í jólatónleikavertíðinni.
Menningarstofa Fjarðabyggðar, starfar í Fjarðabyggð og undir henni Tónlistarmiðstöð Austurlands en hún er miðstöð tónlistar á Austurlandi og er leiðandi í fræðslu og framþróun listgreinarinnar í landshlutanum. Verkefnið er framleitt af Menningarstofu Fjarðabyggðar og Tónlistarmiðstöð Austurlands.