Skólakór Kársness í Tónlistarmiðstöðinni
12. June, 2021
Skólakór Kársnes í Tónlistarmiðstöð Austurlands
Laugardaginn 12. júní kl. 14:00
Aðgangur ókeypis
Skólakór Kársnes leggur land undir fót og mætir í Fjarðabyggð dagana 11. til 13. júní. Laugardaginn 12. júní kemur kórinn við í Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði og býður upp á fallega söngdagskrá. Á efnisskránni eru fjölbreytt og skemmtileg lög úr ýmsum áttum, allt frá vel völdum þjóðlögum yfir í Abba slagara.
Skólakór Kársness var stofnaður árið 1976 og hefur frá upphafi spilað stóran part í skólastarfi Kársnesskóla. Stjórnandi kórsins til 40 ára var Þórunn Björnsdóttir en árið 2016 tók Álfheiður Björgvinsdóttir við keflinu. Allir nemendur Kársnesskóla koma að kórstarfinu á sínum námsferli og eru yfir 300 börn í kór á hverju ári. Sönghefðin er rík og Kársnesskóli „syngjandi skóli“. Kórsöngvarar Skólakórs Kársness eru nemendur á unglingastigi Kársnesskóla.
Kórinn hefur tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum í gegnum tíðina, allt frá skólasamkomum til stærri verkefna með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Kórinn hefur ferðast víða og tekið þátt í kóramótum og menningarhátíðum hérlendis og erlendis. Í ár er komið að því að kynnast Austurlandi og syngja fyrir fólk í Fjarðabyggð og ríkir mikil spenna fyrir komunni austur.