Sauðatónar á Hallormsstað

8. July, 2021

Sauðatónar á Hallormsstað
Hafdís Bjarnadóttir og Passepartout Duo
Fimmtudaginn 8. júlí kl. 13:00

Hvers konar tónlist vilja kindur heyra? Hafdís Bjarnadóttir og Passepartout Duo hafa heimsótt sveitabæi, spilað á hljóðfæri fyrir kindur og hljóðritað þær til að reyna að svara þessari spurningu. Afraksturinn verður frumfluttur á tónleikum Reykjavik Fringe Festival á Árbæjarsafni, utandyra í samstarfi við kindur safnins ef veður leyfir en að öðrum kosti innandyra. Þann 8. júlí verður verkið flutt í Hallormsstaðaskóla, án sauðkinda en með saumandi og prjónandi áhorfendum í þeirra stað.

„Sauðatónar“er nútímaóður til kvöldvöku gamla tímans, þegar fjölskyldur sátu saman í baðstofum, unnu úr ullinni og hlýddu á sögur og annað skemmtiefni á meðan.
Okkur langar að bjóða gestum að hafa með sér handavinnu til að dunda við á meðan á tónleikunum stendur. Við lofum notalegri stund og óformlegri stemmningu fyrir kindur og fólk á öllum aldri.

Verkefnið er styrkt af Norrænu menningargáttinni, Norræna menningarsjóðnum, Tónskáldasjóði RÚV og STEFs og Tónlistarsjóði Rannís.

Fylgist með Sauðatónum á ferð um landið í júlí og utan landsteinanna eftir það!