Rótarý tónleikar 2022
Tónlistarmiðstöð Austurlands
24. April, 2022
Hátíðartónleikar Rótarý
Sunnudaginn 24. apríl býður Rótarýhreyfingin á Íslandi til sérstakra hátíðartónleika í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Tilefnið er veiting tónlistarstyrks Rótarý sem árlega er veittur tveimur framúrskarandi tónlistarnemum sem stunda framhaldsnám á erlendri grundu.
Styrkþegar Tónlistarsjóðs Rótarý árið 2022 eru þau Alexander Smári Edelstein, píanóleikari og Sólveig Vaka Eyþórsdóttir, fiðluleikari. Tónlistarstyrkir Rótarý hafa verið veittir árlega frá árinu 2005 og var á fyrsti sem styrkinn hlaut Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari en styrkþegar eru nú orðnir 30 talsins. Hefð hefur skapast fyrir því að styrkþegarnir komi fram á árlegum tónleikum Rótarýhreyfingarinnar og eru tónleikarnir í ár í umsjón Rótarýklúbbs Héraðsbúa í samstarfi við listhópinn Austuróp.
Auk styrkþeganna koma fram tónlistarmenn og sem starfa á Austurlandi og Norðurlandi, þau Hlín Pétursdóttir Behrens, sópran, Erla Dóra Vogler, messósópran, Árni Friðriksson tenór, Valdimar Hilmarsson, barítónn ásamt píanóleikurunum Helenu Guðlaugu Baldursdóttur og Daníel Þorsteinssyni.
Á efnisskránni eru kaflar úr Partítu nr. 1 fyrir fiðlu eftir Bach, kaflar úr sónötu í c-moll D. 958 eftir Schubert, Meditation úr Souvenir d’un lieu cher, Op. 42 eftir Tchaikovsky og Liebeslieder Walzer eftir Brahms.
Alexander Edelstein, píanóleikari er tuttugu og þriggja ára og stundar nú meistaranám í píanóleik við Tónlistarháskólann í Maastricht í Hollandi. Áður hafði hann útskrifast með B.Mus gráðu frá Listaháskóla Íslands 2021 og lék útskriftartónleika sína í Hörpu og í kjölfarið einleikstónleika í Hofi. Alexander hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir spilamennsku sína, m.a. 1. verðlaun í píanókeppni EPTA (Evrópusambands píanókennara) og Nótunni -uppskeruhátíð tónlistarskólanna og árið 2019 lék hann á tvennum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og sumarið 2020 hélt hann tónleikaröð í kirkjum á Norður-og Norðausturlandi þar sem hann kynnti norðlensk tónskáld.
Sólveig Vaka Eyþórsdóttir, fiðluleikari er tuttugu og sjö ára og stundar meistaranám í fiðluleik í Hochschule für Musik und Theater ”Felix Mendelssohn Bartholdy” í Leipzig í Þýskalandi.
Sólveig stundaði nám við Tónlistarskólanum í Reykjavík og síðar við Listaháskóla Íslands hjá Guðnýju Guðmundsdóttir. Síðustu ár hefur hún tekið virkan þátt í tónlistarlífinu bæði á Íslandi og í Þýskalandi og árið 2017 var hún meðal stofnenda kammersveitina Elju hún leikur einnig reglulega með Barokkbandinu Brák. Sólveig hefur verið aukamaður í Sinfóníuhljómsveit Íslands síðan 2019. Frá árinu 2015 hefur hún verið meðlimur í strengjakvartett Ólafs Arnalds og ferðast með honum vítt um heiminn. Í Leipzig hefur hún haldið ýmsa kammertónleika, seinast á vegum tónlistarhátíðarinnar Con Spirito og komið fram sem aukamaður með Leipzig Philharmonie og Leipzig Symphonieorchester.
Miðaverð er kr. 4.500, ókeypis fyrir 16 ára og yngri. Hægt er að kaupa miða í sal: https://tix.is/is/event/13012/rotarytonleikar-2022/
og streymi: https://www.vvenue.events/rotary
Viðburðurinn er styrktur af Samfélagssjóði Landsvirkjunar, Múlaþingi og Fjarðabyggð.