Með verkum handanna
25. February, 2024
Skriðuklaustur sunnudaginn 25.febrúar klukkan 14.
Refilsaumur er saumgerð sem dregur nafn sitt af orðinu refill. Reflar voru skrautleg tjöld úr ull eða líni sem höfð voru til þess að tjalda innan bæði kirkjur og híbýli fólks fyrr á tíð. Klæði með refilsaum voru oft frásagnarverk.Þessi meistaraverk íslenskrar miðaldalistar voru unnin af listfengum konum sem bjuggu yfir þekkingu og þjálfun í vefnaði og útsaumi.
Lilja Árnadóttir, fyrverandi sviðstjóri hjá Þjóðminjasafni Íslands, hefur fágæta þekkingu á refilsaumi og handverki íslenskra kvenna á miðöldum. Nýverið ritstýrði hún bókinni „Með verkum handanna, íslenskur refilsaumur fyrri alda“ eftir Elsu E. Guðjónsdóttur. Bókin var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2023.
Á Þjóðminjasafni Íslands stendur núna sýning þar sem hægt er sjá í fyrsta sinn öll íslensku refilsaumklæðin á sama stað.
Frítt er inn á meðan húsrúm leyfir og Klausturkaffi býður upp á Konudagskaffi að erindi loknu.