LISTA-LJÓS Í AUSTRI á DÖGUM MYRKURS

Sláturhúsið Egilsstöðum

5. November, 2022

LISTA-LJÓS Í AUSTRI á DÖGUM MYRKURS
Sýningaropnun 5. nóvember 2022 KL.13:00 í SLÁTURHÚSINU
Verkefnið LISTA-LJÓS Í AUSTRI skiptist í nokkur námskeið í listsköpun og hönnun og listasýningu á afrakstri þátttakenda námskeiðanna sem opnar í Sláturhúsinu laugardaginn 5. nóvember 2022 kl. 13:00 og stendur út mánuðinn.
Verkefnið er um leið þáttur af Listahátíðinni LIST ÁN LANDAMÆRA sem fram fer um allt land með það að markmiði að brjóta niður múra og stuðla að samstarfi ólíkra hópa í listsköpun bæði fatlaðra og annarra skapandi einstaklinga í samfélaginu. Með verkefninu er leitast við að brúa bilið milli ólíkra samfélagshópa með sköpun að leiðarljósi.
Þátttakendur verkefnisins hafa verið að skoða samspil ljóss og skugga og vinna að frjálsri listsköpun með fjölbreyttri tækni á vinnustofu verkefnisstjóra og á listnámsbraut í ME. Verkin eru mörg með skírskotun til Hrekkjahátíðarinnar sem hefur átt sér tengingu við Daga Myrkurs á Austurlandi síðast liðin ár.
Þátttakendurnir í listasmiðjunum koma frá Stólpa og Geðræktarmiðstöðinni Ásheimum, en auk þeirra sýna nemendur Heiðdísar Höllu Bjarnadóttur í vöruhönnun og nemendur Ólafar Bjarkar Bragadóttur í sjónlistum verk sín.
Verkefnis- og sýningarstjóri er Ólöf Björk Bragadóttir, myndlistarmaður og myndlistarkennari.
LISTA-LJÓS Í AUSTRI er styrkt af Múlaþingi, í samstarfi við Stólpa hæfingu/iðju, Geðræktarmiðstöðina Ásheima og listnámsbraut ME. Sýningin er hluti af listahátíðinni LIST ÁN LANDAMÆRA sem fram fer um allt land.