Leiðsögn um fornleifauppgröft
9. August, 2024
Uppgröftur stendur yfir í Firði á Seyðisfirði og gefst tækifæri til að fá leiðsögn með fornleifafræðingum. Allir eru velkomnir og enginn aðgangseyrir.
Í Firði hefur verið samfelld búseta frá upphafi byggðar fram á 20. öld og er landnámsmaðurinn Bjólfur talinn hafa búið þar fyrstur ásamt fjölskyldu og búaliði.
Grafinn hefur verið upp skáli frá fyrstu öldum með vefjarstofu, búrum, smiðju og útihúsum, tröllaukinn öskuhaugur og kumlateigur með fjórum gröfum frá heiðnum tíma.
Einnig hafa fundist minjar frá miðöldum, bæjarstæði frá tímabilinu 1700−1920 og vatnsmylla þar sem heimamenn möluðu korn um 1800−1870.
Fjölmargir fornir gripir hafa komið upp og má nefna perlur, nælur, hringi, kljásteina, snældusnúða, leirker, klébergsgrýtu, skaftkolu, öxi, vaðsteina, hnífa, brýni, töflur eða taflmenn úr hnefatafli, skrautsteina sem kannski voru barnaleikföng, ýmsa járngripi og silfurbrot.
Nokkra af þessum gripum má sjá á sumarsýningu Minjasafns Austurlands sem helguð er austfirskum landnámskonum.
https://www.facebook.com/minjasafnausturlands
https://www.facebook.com/minjasafnausturlands